Bændur áhyggjufullir vegna öskufalls

Bændur undir Eyjafjöllum og V-Skaftafellssýslu hafa nú miklar áhyggjur af því ástandi sem er að skapast vegna öskufalls. Flest fjárhús eru að fyllast og því lítið annað eftir í stöðunni en að koma fénu út en passa jafnframt upp á að nóg sé af rennandi vatni og fóðri fyrir féð.
Haft er eftir Fanneyju Ólöfu Lárusdóttur, bónda og ráðunaut á Kirkjubæjarklaustri, á vef bændablaðsins að öskufallið sé breytilegt eftir því hvar maður búi á svæðinu. „Askan sem kom fyrst fór yfir hluta af Meðallandinu en þann 15. apríl fór hún vestar yfir Meðallandið, Álftaverið og á neðstu bæina í Skaftártungu. Það er búið að koma nokkur aska undanfarna daga með vestanáttinni. Í gærmorgun var örlítið inni á Klaustri, það var örþunn skel á bílunum þar og hátt í millimeter í Álftaveri í gærmorgun. Menn telja að það verði mikið öskufall næstu daga svo við erum ekki hólpin enn þá,“ segir Fanney Ólöf sem var á leið í eftirlitsför á bæi í Meðallandi þegar blaðamaður náði tali af henni.

Boðleið í gegnum Netið erfið
„Við höfum áhyggjur af sauðburði því það er mikill flúor í öskunni sem er að falla. Menn geta ekki haft sauðfé inni endalaust og verða því að passa að hafa nóg af rennandi vatni og fóðri útivið. Menn eru núna að velta fyrir sér hvað eigi að gera í þessari stöðu. Það er brýnt að bændur taki myndir af túnum sínum, vélum og mannvirkjum sem það telur hafa orðið fyrir skakkaföllum,“ segir Fanney Ólöf og aðspurð um þær raddir sem heyrst hafa að bændur austan Víkur hafi orðið útundan í upplýsingagjöf svarar hún:


„Það var almannavarnafundur hér mánudagskvöldið 19. apríl og þá var hringt á hluta af bæjum í sveitarfélögunum en ekki á alla bæi í Meðallandi. Ég sendi póst á Almannavarnir og sveitarstjórann því sumir bændur höfðu einungis fengið boð í gegnum tölvuna en margir bændur hér eru með svo lélegar nettengingar að sú boðleið gengur ekki. Það eru allir eru á tánum og allir vilja koma að notum en það eru margar spurningar sem koma upp. Ég hvet fólk til sem er óöruggt á að hringja í Búnaðarsambandið eða til Almannavarna ef því finnst það vera eitt í heiminum og ekki fá nægar upplýsingar.“



 


back to top