Bændur bjóða í grillveislu!

Bændur hafa slegist í hóp með þekktustu matreiðslumönnum landsins við gerð matreiðsluþátta sem hlotið hafa heitið „Eldum íslenskt“. Sýningar eru hafnar á vef Morgunblaðsins, www.mbl.is og á sjónvarpsstöðinni ÍNN. Í tengslum við þættina ætla bændur að heilgrilla naut, svín og lambaskrokka á næstu dögum fyrir utan verslanir Krónunnar í Reykjavík og Kópavogi. Kokkarnir úr þáttunum gefa góð ráð um leið og þeir gefa fólki að bragða á kjötinu. Fimmtudaginn 9. júlí (í dag) verður riðið á vaðið í Krónunni á Granda kl. 16:00 en þar verður heill nautsskrokkur grillaður á landsfrægu grilli kúabænda. Eftir viku verða nokkrir grísir steiktir á teini í Krónunni í Lindum í Kópavogi og síðar nokkrir lambaskrokkar á sama stað. Ef veðurguðirnir reynast viðskotaillir verður dagsetningum hugsanlega hnikað. Hægt er að fylgjast með á www.bondi.is.

Kynningin er unnin í samstarfi Krónunnar, Svínaræktarfélags Íslands, Landssambands kúabænda, Landssamtaka sauðfjárbænda, Bændasamtakanna, ÍNN, mbl.is og matreiðslumanna í „Eldum íslenskt“.


 Grillað verður á eftirtöldum stöðum:
– Fimmtudagurinn 9. júlí – Krónan á Granda kl. 16:00. Heilgrillað naut.
– Fimmtudagurinn 16. júlí – Krónan í Lindum kl. 16:00. Heilgrillaðir grísir.
– Föstudagurinn 17. júlí – Krónan í Lindum kl. 16:00. Heilgrillaðir lambaskrokkar.


Í matreiðsluþáttunum er höfuðáhersla lögð á íslenskt hráefni úr sveitinni og rammíslenskar eldunaraðferðir. Það er meistarakokkurinn Bjarni G. Kristinsson, yfirmatreiðslumeistari á Hótel Sögu, sem stjórnar þáttunum en þeir eru unnir í nánu samstarfi við Bændasamtökin og flestöll búgreinafélög. Þættirnir eru blanda af fræðslu og matreiðslu og bæði vísað í hefðir og nýtísku aðferðir. Meðal kokka sem koma við sögu eru þau Gunnar Karl á Dilli, Þráinn Freyr á Grillinu, Jóhannes á Vox og Hrefna Sætran á Fiskmarkaðnum auk þaulreyndra manna úr Hótel- og veitingaskólanum. Farið verður í heimsókn í sveitina og spjallað við bændur um framleiðsluna auk þess sem kennd verða undirstöðuatriði við meðhöndlun ýmissa búvara, s.s. úrbeining kjöts og geymsla grænmetis.


Þættirnir verða sýndir vikulega í sumar og haust á mbl.is og á sjónvarpsstöðinni ÍNN auk þess að birtast á vefsíðum búgreinafélaganna þegar tímar líða. Þeir eru hver um sig um 20 mínútna langir og verða alls 20 talsins. Styrktaraðilar þáttanna eru Félag kjúklingabænda, Samband garðyrkjubænda, Félag hrossabænda, Landssamtök sauðfjárbænda, Landssamband kúabænda, Félag eggjaframleiðenda, Svínaræktarfélag Íslands, Félag ferðaþjónustubænda, Beint frá býli, Hótel Saga og Bændasamtökin.


Sjá þættina: www.mbl.is/folk


www.bondi.is/ TB


back to top