Bændur eru uggandi vegna skuldavanda

Umræða um skuldavanda bænda og breytt rekstrarumhverfi landbúnaðarins í kjölfar kreppunnar er meðal þess sem er efst á baugi á bændafundum Bændasamtakanna sem nú standa yfir. Á fundi sem haldinn var í Miðgarði í Hvalfjarðarsveit í gærkvöldi voru bændur uggandi um sinn hag og spurðu um ábyrgð ráðgjafarþjónustu og ekki síst bankastofnana í aðdraganda hrunsins.
Haraldur Benediktsson formaður BÍ hélt inngangserindi þar sem hann m.a. ræddi um það upplausnarástand sem ríkt hafi í þjóðfélaginu eftir að kreppan skall á. Hann sagði að lítið gengi við að koma ýmsum málum áleiðis og ekki lægju neinar endanlegar tillögur á borðinu vegna skuldavanda bænda. „Almenn ráðgjöf okkar til bænda er að það sé best að reyna að borga af lánum eins og hægt er. Við höfum átt samtöl við bankamenn um ýmsar lausnir en því miður er enn margt hulið þoku,“ sagði Haraldur.

Ráðgjafarþjónustuna þarf að efla enn frekar
Í máli Gunnars Guðmundssonar, sviðsstjóra ráðgjafarsviðs BÍ, kom fram að ögn meiri bjartsýni gætti hjá rekstrarráðgjöfum nú en áður. Bankarnir væru að móta tillögur og í kjölfar hugmynda Nýa Kaupþings banka um skuldaaðlögun væri von á að aðrir bankar fylgdu í kjölfarið. Gunnar greindi jafnframt frá því að nokkur fjöldi bænda hefði leitað til Bændasamtakanna og nýtt sér fjármálaráðgjöf þeirra. Leitað hefur verið lausna fyrir á bilinu 20-30 bú en því miður hefði alltof langur tími farið í að bíða eftir viðbrögðum fjármálastofnana. Gunnar taldi að á bilinu 70-80 bú væru í miklum vanda og til þess að þau gætu rétt úr kútnum þyrfti róttækar aðgerðir. Lykilþættir í lausn vandans væru að meta rekstrarafkomu búanna, komast niður á skynsamlegt verðmat á jörðum og tryggja afkomu bænda í framtíðinni. Hann sagði að ráðgjafarþjónustan þyrfti að leggja enn frekari áherslu á rekstrarráðgjöf, s.s. afkomuvöktun, búrekstraráætlanir og færslu búreikninga þyrfti að skerpa svo menn hefðu góð gögn að vinna með.


ESB-málin verða fyrirferðarmikil á komandi árum
Umræða um ESB-umsókn stjórnvalda bar einnig á góma. Þar sagði formaður Bændasamtakanna að mikilvægt væri fyrir bændur að þekkja ESB-málin vel og taka þátt í umræðunni. Haraldur fjallaði um samningaferlið sem er framundan og greindi frá því að samtökin myndu tilnefna fulltrúa í ráðgjafarhóp um landbúnaðar- og byggðamál. Skoðun BÍ á málinu væri þó afdráttarlaus og samtökin legðust alfarið gegn aðild að ESB. Haraldur sagði að stjórnsýslan yrði mjög upptekin af þessu máli á komandi misserum en hann hefði heyrt innan úr henni að efla þyrfti hana og stækka um 20-25% til þess að mæta kröfum ESB.


Hver ber ábyrgð?
Í umræðum eftir framsöguerindi var farið yfir víðan völl. Þorkell Fjelsted í Ferjukoti spurði hvers vegna mönnum hefði verið hleypt út í viðlíka ævintýri eins og sæust í fjárfestingum bænda síðustu árin. Hann sagði að víða hefði uppbyggingin verið glannaleg, hús byggð á jörðum og bústofn aukinn í engu hlutfalli við jarðastærð eða slægjur.


Spurt var m.a. hvar ráðgjafarþjónusta bænda hefði verið á góðæristímanum. Sigríður Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Búnaðasamtaka Vesturlands, sagði að áberandi hefði verið á þeim tíma að bankarnir leituðu ekki ráða hjá fagráðunautum landbúnaðarins. Sama hefði átt við um ýmsa bændur. „Þeir sem fóru hvað hraðast og komust sem lengst (við að ná í fjármagn, innsk. blm.) komu aldrei inn á borð til okkar“. Formaður BÍ sagði í kjölfarið á þessu að það væri ekkert launungarmál að menn hefðu farið fram úr sjálfum sér í landbúnaðinum eins og í öðrum atvinnugreinum í góðærinu.


www.bbl.is /TB


back to top