Bændur sitja eftir með hör og tækjabúnað

Þess eru dæmi að bændur hafi ekki fengið greitt fyrir ræktun á hör fyrir fyrirtækið Feygingu í Þorlákshöfn en blikur eru á lofti um að það sé komið endanlega í þrot. Fari svo, standa bændur sem fjárfest hafa í tækjabúnaði fyrir hörræktun, frammi fyrir miklu fjárhagstjóni. Talsmaður Feygingar, Þorleifur Finnsson, segir að búið sé að gera upp við alla bændur að undanskildum þeim sem komu ekki fram með kröfu fyrr en nýverið.

Jón Logi Þorsteinsson, bóndi í Garðsauka, segist eiga tækjabúnað til hörframleiðslu að andvirði fimm milljóna króna. „Það verður mikill skellur fyrir mig ef þeir ákveða að leggja niður verksmiðjuna. Hluta tækjanna get ég selt, en megnið mun ég sitja uppi með,“ sagði Jón Logi. Hann kveðst hafa fengið greitt fyrir alla hörræktun. „Greiðslur fyrir framleiðsluna komu loksins eftir dúk og disk. Flestir bændur, sem gengu stíft á eftir greiðslu, fengu að lokum, eftir því sem ég best veit. „Verði verksmiðjan aflögð, og seld fyrir slikk, þá er það að mínu mati högg á trúverðugleika þeirra stofnana sem komu að faglega þættinum, þar á meðal Iðntæknistofnun og RALA. Gaman þætti mér að heyra hvar þeir standa gagnvart niðurrifi á verkefni sem er næstum því tilbúið,“ segir Jón Logi.


Jón Guðmundsson í Berjanesi á um annað hundrað rúllur af pökkuðum hör, framleiddum fyrir Feygingu en hefur ekki enn fengið greitt fyrir. Sé andvirði framleiðslunnar reiknað samkvæmt taxta nemur hún um hálfri milljón króna. Ómögulegt er að selja afurðina eitthvert annað og því bendir allt til þess að henni verði fargað eða notuð til landgræðslu, að sögn Jóns.


Nota átti hör í að framleiða íslenskt lín til útflutnings en það hefur ekki gengið eftir vegna tæknivandræða og fjárskorts. Búið er að leggja liðlega 340 milljónir króna í fyrirtækið en margir töldu aðeins vanta herslumuninn upp á að koma því á koppinn. Allar eignir Feygingar eru nú til sölu og eru leiddar líkur að því að þær verði seldar úr landi.


back to top