Bændur vilja í lífræna ræktun
Bændur eru farnir að hugleiða að skipta yfir í lífræna ræktun vegna hækkandi verðs á kjarnfóðri, tilbúnum áburði og skordýraeitri . Hér á landi fá bændur þó ekki aðstoð til að breyta yfir í lífræna ræktun líkt og annars staðar í Evrópu.
Einungis eitt prósent bænda stundar lífræna ræktun í dag þrátt fyrir aukna eftirspurn eftir lífrænum vörum. Neytendur virðast þó tilbúnir að borga meira fyrir betri og hollari vöru, sem stuðlar ennfremur að umhverfisvernd og dýravernd. Enginn íslenskur bóndi framleiðir lífræna kjúklinga eða svínakjöt. Flestir lífrænir bændur rækta grænmeti, fjórir framleiða lífræna mjólk, þrír lífræn egg og sex lífrænt lambakjöt. Gunnar Á. Gunnarsson framkvæmdastjóri Vottunarstofunnar Túns segir til mikils að vinna fyrir bændur og neytendur enda þurfi íslenskur landbúnaður að laga sig að þörfum markaðarins. Þróunin hér sé þó frekar í átt að verksmiðjubúskap hér því íslensk stjórnvöld styrki ekki bændur til að skipta yfir í lífræna ræktun líkt og gert er víðast hvar annars staðar í Evrópu.