Baráttan um brauðið

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins um liðna helgi (14. júní) var að finna áhugaverða lesningu sem ástæða er fyrir sem flesta að lesa. Greinin vekur upp spurningar um fæðuöryggi heimsins og minnir stjórnvöld en ekki síður landeigendur á ábyrgð hvers og eins að meta ræktunarland að verðleikum. Það er ekki sjálfgefið að ræktanlegt land sé tekið undir aðra landnotkun en landbúnað þó akkúrat núið geti leyft það. Hvernig verður staðan eftir 10 ár, 20 ár eða þá 50 ár? Greinin í heild sinni er birt hér á eftir ásamt viðtali blaðamanns Morgunblaðsins við Andrés Arnalds fagmálastjóra Landgræðslunnar sem birtist í framhaldinu í sama blaði.

Matvælaframleiðslu heimsins eru takmörk sett, að minnsta kosti með núverandi tækni. Ferskvatn er víða þverrandi auðlind og ljóst að út frá núverandi forsendum er óraunhæft að þeir níu milljarðar manna sem eiga að byggja plánetuna um miðja þessa öld muni geta tileinkað sér kjötneyslu Vesturlandabúa. Með sama áframhaldi mun áfram haldið að ganga á ræktarland heimsins. Útlitið er ekki bjart og því hollt að rifja upp að græna byltingin svokallaða í matvælaframleiðslu upp úr miðri síðustu öld sá til þess að spár um matvælaskort rættust ekki. Nú virðist hins vegar ekki komist hjá því að álykta að heimurinn sé að sigla inn í skeið vaxandi togstreitu um auðlindir. Vísbendingar eru um að þróunin sé þegar hafin.

Asíuríki hafa þannig á undanförnum árum gert risasamninga um ýmist leigu eða kaup á ræktarlandi í fátækum ríkjum, á borð við Madagaskar. Eyjan er afar frjósöm og ofbauð Marc Ravalomanana forseti þjóð sinni þegar hann gekk til samninga við suðurkóreska stórfyrirtækið Daewoo um leigu á helmingi ræktanlegs lands í landinu til 99 ára. Samningurinn þótti óhagstæður og átti þátt í að Ravalomanana var steypt af stóli. Daewoo er það sem Kóreumenn kalla chaebol, en hugtakið á almennt við fyrirtækjasamsteypur sem hafa alla tíð átt í nánum tengslum við stjórnarelítuna í Seoul. Því sýnist ekki langsótt að ætla að leigusamningurinn hafi verið gerður með fulltingi suðurkóresku stjórnarinnar.

Helmingur ræktarlands Íslendinga
Eins og fram kemur í ýtarlegri úttekt tímaritsins The Economist um aukna ásókn ríkra þjóða í ræktarland utan landamæranna hafa Suður-Kóreumenn gert samninga um leigu á 690.000 hekturum lands í Súdan. Til samanburðar hefur ræktanlegt land á Íslandi verið áætlað að lágmarki 1,5 milljónir hektarar og þá miðað við land sem er undir 200 metrum fyrir ofan sjávarmál. Súdan er stórt land og þetta væri í sjálfu sér ekki í frásögur færandi nema fyrir þá sök að engin þjóð þiggur eins mikla matvælaaðstoð.

Arabaríkin eru einnig áhugasöm um land í þessu nágrannaríki sínu. Blaðamaður The Economist hefur það eftir fulltrúa súdanska landbúnaðarráðuneytisins að fjárfesting Arabaríkja í landbúnaði landsins muni tífaldast úr 700 milljónum dala frá og með 2007 í 7,5 milljarða Bandaríkjadala undir lok næsta árs. Gangi sú spá eftir mun síðarnefnda upphæðin jafngilda helmingi af erlendri fjárfestingu í Súdan á næsta ári.

Áhugi Sádi-Araba er skiljanlegur. Þeir gerðu tilraun til að verða sjálfum sér nægir um hveiti en hyggjast hætta ræktuninni að fullu árið 2016 eftir að í ljós kom að verið væri að þurrka upp dýrmæt vatnsból.

Kínverjar hafa einnig leitað út fyrir landsteinana og talan 30 verið nefnd í samhengi yfir fjölda leigusamninga við annað ríki sem fela í sér yfir 2 milljónir hektara ræktarlands. Sé miðað við að ræktanlegt land í Frakklandi sé 20 milljónir hektara er því um að þrefalt meira land en Frakkar, ein helsta landbúnaðarþjóð Evrópu, ráða yfir. Samningar af þessum toga eru einkar hagkvæmir fyrir ríkin sem leigja landið. Matvælaverð hefur hækkað á síðustu árum og með því að tryggja sér aðgang að dýrmætu ræktarlandi vega þessi sömu ríki á móti verðsveiflum.

Getur verið lífsspursmál
Málið snýst þó ekki aðeins um peninga. Samningarnir geta verið allt að því lífsspursmál. Vatnsskortur er þegar orðinn mikið vandamál í Norður-Kína en í landinu öllu er staðan þannig að tvær af hverjum þremur ám og sama hlutfall vatna er orðið of mengað til notkunar í iðnaði, hvað þá til landbúnaðarframleiðslu og manneldis. Vikið er að þörf Arabaríkja fyrir innfluttar matvörur í skýrslunni Land grab or development opportunity? sem unnin var fyrir Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO. Segir þar að á sama tíma og óumflýjanlegt sé að ræktun kornmetis í ríkjunum við Persaflóa muni halda áfram að dragast saman sé ráðgert að íbúafjöldinn muni tvöfaldast og verða um 60 milljónir árið 2030. Því muni eftirspurnin eftir innfluttum matvælum aukast.

Morgunblaðið 14. júní 2007 / Baldur Arnarson baldura@mbl.is

Styrkir innlenda matvælaframleiðslu – Viðtal MBL við Andrés Arnalds
»Eftir því sem stórþjóðir taka meira akuryrkjuland á leigu þrengir meir að Evrópumörkuðum. Samkeppni um nothæft land og vatn mun fara vaxandi. Það þýðir að staða Íslands á alþjóðlegum mörkuðum, sérstaklega á nærmörkuðum, er líkleg til að batna. Vatnið og landrýmið vinnur með okkur,« segir Andrés Arnalds, fagmálastjóri Landgræðslu ríkisins, um þá möguleika sem felast í þróuninni fyrir íslenskan landbúnað.

»Vatnsauðlind Íslendinga er gífurleg. Við getum flutt út mikið af vatni í formi matvæla, ekki síst þegar það fer að hlýna meira. Við erum með hlutfallslega mikið af ræktanlegu landi á Íslandi þótt það sé ekki allt í notkun í dag. Eftir því sem akuryrkjan styrkist og fóðurverð erlendis hækkar þá styrkist framleiðsla á öllum tegundum kjöts hér á landi miðað við alþjóðlega markaði. Ég lít svo á að takmarkaðir útflutningsmöguleikar á íslenskum landbúnaðarafurðum sé tímabundið vandamál.« 

[Sp.blaðamanns:]  Heimurinn er stór. Er ekki ósennilegt að Ísland komist í þessa stöðu, meðal annars í ljósi fjarlægðar frá mörkuðum?
»Nei, því í mörgum löndum, til dæmis Bretlandi, þá takmarkast svigrúmið til andbúnaðarframleiðslu meðal annars af vatnsmagninu. Bretar eru að flytja inn ævintýralegt magn af vatni í formi innfluttra matvæla frá Afríku og öðrum heimshlutum. Svo er alþjóðlega staðan einfaldlega mjög dökk. Það er nauðsynlegt að fólk geri sér grein fyrir því hvaða vandamál geti verið framundan ef ekki kemur til ný bylting í meðferð á landi eða í ræktuninni.« 

[Sp.blaðamanns:]
Af hverju er útlitið dökkt?
»Það er í fyrsta lagi vegna þess hve víða gengur á bæði jarðveg og frjósemi landsins. Þá er víða stunduð rányrkja næringarefna. Aukið vatn fer í áveitur og framleiðsla lífræns eldsneytis felur í sér einhæfa ræktun sem gengur á gæði landsins þegar upp er staðið. Svo er einn mjög veigamikill þáttur sem eru neyslubreytingar með aukinni velmegun, ekki síst aukin kjötneysla í Kína og á Indlandi. Spurning er hvort hækkandi verð muni á endanum gera kjöt að munaðarvöru þar.«
 
[Sp.blaðamanns:]  Í hvaða farvegi er stefnumótunin á Íslandi í þessu tilliti?
»Það skortir heildræna sýn um það hvernig við viljum hafa landið okkar og hvers vegna. Það þarf meðal annars að gæta þess að fórna ekki því landi sem hentar best til ræktunar og beitar undir skóg og byggðir.«


back to top