Beinar skemmdir á korni af völdum ösku ekki miklar

Eftir gosið í Grímsvötnum hafa menn haft áhyggjur af afdrifum korns í ökrum þar sem öskufallið var mest. Þriðjudaginn 31. maí s.l. skoðuðu Jónatan Hermannsson hjá Landbúnaðarháskólanum og Kristján Bj. Jónsson hjá Búnaðarsambandi Suðurlands kornakra í Vestur-Skaftafellssýslu. Farið var í nánast hvern einasta kornakur í sýslunni. Komið var á 17 bæi – einn á Brunasandi, 5 á Síðu, 5 í Landbroti, 5 í Meðallandi og einn í Skaftártungu.
Ástandið reyndist miklum mun betra en menn höfðu óttast. Aska var öll fokin af ökrum því að þar var ekkert við að festast. Akrar voru eðlilega misjafnir en í heildina leit kornið prýðilega út. Sáð hafði verið í akra á bilinu 30. apríl – 18. maí. Sumt kornið var því ekki komið upp þegar öskubylur geisaði og hafði því ekkert af honum að segja. En af korninu sem farið var að spretta hafði öskufok sorfið blöðin svo þau visnuðu. Við það gulnuðu akrar um hríð. Hvergi sást þó að askan hefði skemmt vaxtarsprota og ný blöð koma nú fram á eðlilegan hátt.
Kornið er nú í sprettu og guli blærinn er að hverfa af ökrunum. Ætla má þó að askan hafi tafið sprettu eitthvað í þeim ökrum þar sem fyrst var sáð. Beinar skemmdir eru hins vegar ekki miklar.


back to top