BÍ mótmæla aðferðum við breytingar á reglugerð um viðskipti með mjókurkvóta
Reglugerð sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um markaðsfyrirkomulag við aðilaskipti á greiðslumarki mjólkur, tók gildi við birtingu hennar þann 17. maí sl. Í henni felst að komið verður á fót markaði með mjólkurkvóta sem Matvælastofnun starfræki. Verður markaðurinn starfræktur tvisvar á ári, 1. júní og 1. desember, og í fyrsta sinn 1. desesmber nk. Nokkur óánægja hefur risið meðal bænda vegna breytinganna. Telja þeir t.a.m. að þær eigi sér stað án nægilegs fyrirvara.
Í morgun gengu fulltrúar Bændasamtaka Íslands, þeir Haraldur Benediktsson formaður og Eiríkur Blöndal framkvæmdastjóri, á fund Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og komu á framfæri athugasemdum í samræmi við bókun stjórnar frá síðasta stjórnarfundi. Að sögn Haraldar var mótmælt þeim skamma fyrirvara sem kúabændur hefðu til aðlögunar að breytingunum, auk þess sem efasemdum um lögmæti reglugerðarinnar var komið á framfæri og málið sé nú í höndum ráðherra. Haraldur segir að hann hafi tekið þeim vel en hafi ekki að sinni brugðist efnislega við athugasemdum þeirra.