Blíða 1151 í Flatey mjólkar og mjólkar
Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktinnar við lok júlí 2012, hafa verið reiknaðar og birtar á nautgriparæktarsíðunum á bondi.is. Þegar yfirlitið var búið til, á miðnætti hinn 12. júlí, höfðu borist skýrslur frá 94% þeirra 596 búa sem skráð eru í skýrsluhaldið.
Helstu niðurstöðurnar eru þær að 21.975,6 árskýr mjólkuðu að meðaltali 5.624 kg sl. 12 mánuði, sem er nánast sama niðurstaða og í síðasta uppgjöri, aðeins 3 kg lægri. Hæsta meðalnytin við lok júlí var á Hóli í Sæmundarhlíð í Skagafirði 7.888 kg eftir árskú en þar voru einnig hæstar meðalafurðir í júní sl. Næst á eftir kom búið á Hraunhálsi í Helgafellssveit á Snæfellsnesi en þar var nytin 7.674 kg en það bú var nr. 3 í síðasta mánuði. Þriðja búið á listanum var að þessu sinni búið í Miðdal í Kjós en þar voru meðalafurðirnar 7.586 kg eftir árskú.
Á 21 búi fór meðalnytin yfir 7.000 kg eftir árskú en á 19 búum í mánuðinum á undan.
Nythæsta kýrin á síðustu 12 mánuðum var hin sama og næstu sex mánuði á undan, Blíða nr. 1151 í Flatey á Mýrum, A-Skaft., nyt hennar síðastliðna 12 mánuði var 13.708 kg. Önnur kýrin í röðinni yfir nythæstu kýrnar síðastliðna 12 mánuði var einnig kýr í Flatey, Munda nr. 1131 og var hún í sama sæti og tvo síðastliðna mánuði, en hún mjólkaði 12.670 kg. Hin þriðja á þessum lista í júlílok 2012 var Laufa nr. 1089, á sama búinu og hinar fyrri, í Flatey á Mýrum. Hún mjólkaði 12.267 kg sl. 12 mánuði. Alls náðu 16 skýrslufærðar kýr að fara yfir 11.000 kg á síðustu 12 mánuðum og ein þeirra yfir 13.000 eins og fram hefur komið.
Meðfylgjandi mynd er af Blíðu 1151.
Sjá nánar:
Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar