Blöndun á hyrndu og kollóttu fé
Út er komið Rit LbhÍ nr. 42 sem ber heitið Blöndun á hyrndu og kollóttu fé – könnun á blendingsþrótti. Í því er gerð grein fyrir niðurstöðum tilrauna með blöndum á hyrndu og kollóttu fé á 12 búum þar sem eru aðskildir stofnar af hyrndu og kollóttu fé. Tilgangurinn var að meta hvort fram kæmi blendingsþróttur í mikilvægum eiginleikum í dilkakjöts-framleiðslunni við slíka blöndun. Skipulögð var hliðstæð tilraun á öllum búunum og fengust fjórir mismunandi lambahópar á hverju búi, þ.e. hreinræktuð hyrnd, hreinræktuð kollótt, blendingar undan kollóttum föður og hyrndri móður og blendingar undan hyrndum föður og kollóttri móður.
Upplýsingar fengust um lambafjölda hjá um 1669 ám að meðtöldum veturgömlum ám. Þungaupplýsingar voru fyrir 2668 lömb og kjötmatsupplýsingar um 2395 sláturlömb. Niðurstöður ómsjármælinga lágu fyrir um 485 lömb og hornalag var skráð hjá rúmlega 600 lömbum.
Mælanlegur blendingsþróttur fannst fyrir lifandi þunga (0,8%), fallþunga (1,2%) og fituþykkt í ómsjármælingu (2,9%) en engin blendingsáhrif komu fram í kjötmatseiginleikum eða ómsjármælingu á vöðva. Fundin blendingsáhrif voru mjög lítil og hagnýting þeirra í ræktunarstarfi því ekki raunhæf. Framkvæmd tilraunarinnar bendir auk þess til að mögulegur blendingsþróttur sé fremur ofmetinn en vanmetinn. Í umfjöllun er bent á nokkur atriði sem mæla með eða á móti blöndun á hyrndu og kollóttu fé.
Höfundar eru: Oddný Steina Valsdóttir, Jón Viðar Jónmundsson og Emma Eyþórsdóttir.
Sjá nánar:
Rit LbhÍ nr. 42: Blöndun á hyrndu og kollóttu fé – könnun á blendingsþrótti