Bregðist við ef vart verður öskufalls
Jarðvísindastofnun Háskólans hefur nú mælt flúor og sýrsustig í ösku frá eldstöðinni á Fimmvöruhálsi. Sýnin voru tekin úr glerjuðu gjalli frá eldstöðinni og snjó undir Eyjafjöllum. Mæligildi vatnsleysanlegs flúors í sýnunum voru á bilinu 98-112 mg/kg og sýrustigið pH 5,55-6,45.
Sýnin eru gróf aska og gera verður ráð fyrir að flúorgildi séu hærri fjær eldfjallinu þar sem askan er fíngerðari og yfirborð hennar stærra.
Hugsanlegt er að gildin væru allt að 400-500 mg/kg á Mið-Suðurlandi.
Þessi gildi eru mjög svipuð og í Heimaeyjargosinu 1973. Þó gildin einungis um þriðjungur þess, sem mælist í Hekluösku er full ástæða til varúðar og að halda búpeningi frá öskumengaðri beit og einkum bræðsluvatni svo sem pollum á túnum.
Fóður, sem inniheldur stöðugt 250 mg/kg mun geta valdið bráðri eitrun eftir skammvinna neyslu. Sé innihaldið 40-60 mg/kg tekur 2-3 ár að framkalla langvinna eitrun og veikindi hjá nautgripum. Þolmörk í fóðri nautgripa eru oft sett við 25-30 mg/kg og sauðfjár við 70-100 mg/kg. Meira magn en 20 mg/kg í fóðri um skeið er þó jafnvel talið draga úr nyt mjólkurkúa. Sumir telja að miklu minna þurfi til þess að valda eitrun, ef álagið varir langan tíma.
Af þessu má sjá að flúor í ösku er langtum umfram þolmörk fyrir búfénað og dýr. Það er því full ástæða til þess að fylgjast mjög grannt með öskufalli og bregðast skjótt við verði þess vart. Rétt viðbrögð eru að hýsa búfénað sé þess kostur en að öðrum kosti tryggja aðgang að fóðri og ómenguðu drykkjarvatni.
Hafið samráð við sérfræðinga Matvælastofnunar og/eða dýralækna ef einhver vafi leikur á hverning bregðast skuli við.
Nánari upplýsingar má nálgast í grein um áhrif eldgosa á dýr eftir Sigurð Sigurðarson á vef Matvælastofnunar.