Brenna pylsur sem má selja

Tollgæslan á Keflavíkurflugvelli lagði hald á tæp 5 tonn af ólöglegum matvælum sem ferðamenn komu með til landsins í fyrra, þar af rúm 2,7 tonn af hráu kjöti eða um 600 kg meira en árið 2006. Stór hluti hráa kjötsins sem tekinn er af ferðamönnum er pylsur sem leyft er að selja í verslunum hér, að sögn Bjargar Valtýsdóttur, deildarstjóra hjá Tollgæslunni á Suðurnesjum.

„Okkur finnst sorglegt að þurfa að taka pylsur af fólki sem hægt er að kaupa í verslunum hér, eins og til dæmis í Pólsku búðinni. Sú verslun er með heimild frá Landbúnaðarstofnun til að flytja inn pylsur frá fyrirtæki sem er með ákveðna vottun. Samkvæmt tollalögum verðum við hins vegar að taka sams konar vöru frá sama fyrirtæki frá einstaklingum þar sem þeir eru ekki sjálfir með leyfi til að flytja þetta inn. Þetta gildir ekki bara um vörur frá Póllandi, heldur líka frá öðrum löndum,“ segir Björg sem finnst að landbúnaðarráðuneytið ætti að hafa gefið út bréf um að vörurnar frá viðkomandi fyrirtækjum séu í lagi.

Að sögn Bjargar dró úr smygli á dönskum salami-pylsum þegar versluninni sem seldi þær á Kastrup-flugvelli var lokað tímabundið. Smyglið á pylsunum jókst hins vegar aftur þegar að verslunin var opnuð á ný í fyrra. „Smygl á salami-pylsum er samt heldur minna en það var áður fyrr,“ greinir Björg frá.


Hún segir matvælin sem smyglað er í einu vera allt frá nokkur hundruð grömmum upp í 20 til 30 kg.


Hrátt kjöt í pósti
Alls var lagt hald á tæp 4,4 tonn af hráu kjöti á öllu landinu í fyrra, að sögn Guðmundar Jónassonar, tollvarðar hjá Tollstjóranum í Reykjavík. Fyrir utan 2,7 tonnin sem hald var lagt á á Keflavíkurflugvelli var lagt hald á rúmt 1 tonn í Reykjavík og rúm 600 kg á Seyðisfirði.


www.mbl.is/ Ingibjörg B. Sveinsdóttur


back to top