Bretar sólgnir í íslensk kindaslög

„Hingað til hefur stórum hluta af slögunum verið hent, þannig að þetta er búbót þótt upphæðirnar í spilinu séu ekkert sérlega háar,“ segir Ingvar Már Gíslason, markaðsstjóri Norðlenska. Fyrirtækið hefur selt um hundrað tonn af úrbeinuðum kindaslögum til Bretlandseyja á undanförnu ári. Þar eru þau notuð í kebabgerð.

Slögin eru sá hluti kindarinnar sem erfiðast er að koma í verð. Hér á landi eru þau aðallega notuð í kæfugerð og rúllupylsur auk þess sem Færeyjingar kaupa hluta framleiðslunnar til sama brúks. Í Bretlandi hafa menn hins vegar fundið önnur not fyrir slögin, það er í kebabrétti. „Kebabframleiðslan er öðruvísi en maður hefði búist við,“ segir Ingvar. „Þeir setja slögin ekki beint á teininn, heldur eru þau fösuð, það er að segja sett í hrærivél og búin til úr þeim eins konar kjötkeila sem síðan er steikt á teini.“


Kebabréttir eiga rætur að rekja til Miðausturlanda en eru nú vinsæll skyndibiti um allan heim. Þeir hafa þó ekki gert sig gildandi á Íslandi svo heitið geti og Ingvar býst við að kindaslögin verði því áfram notuð fyrst og fremst í rúllupylsur hér á landi. „En skrokkarnir eru verkaðir frá toppi til táar og við erum að minnsta kosti að fá ágætt verð fyrir þetta núna.“


back to top