Búfé smalað austan sands í gærkvöldi vegna öskufalls

Bændur og björgunarsveitarmenn smöluðu búfé í Meðallandi í gærkvöldi, en þar gerði mikið öskufall, svo mikið að ekki sá á milli stika á veginum. Töluvert öskufall er einnig í Álftaveri og Skaftártungu. Veginum um Mýrdalssand hefur verið lokað þar sést ekki á milli stika. Öskufallið nær ekki að Kirkjubæjarklaustri.
Ingunn Magnúsdóttir, bóndi á Syðri-Steinsmýri í Meðallandi, segir á mbl.is að ekki sé öskufall þessa stundina.
„Það kemur ekkert niður núna, en það var talsvert mikið öskufall í gærkvöldi. Það er grá hula yfir öllu. Bílarnir eru gráir,“ sagði Ingunn.
Öskufallið byrjaði um kl. 8 í gærkvöldi og stóð fram eftir nóttu. Vindáttin breyttist eitthvað í nótt, en hún er ennþá vestlæg.

Allar skepnur eru á húsi á Syðra-Steinsmýri, en búfé var úti á sumum bæjum. Björgunarsveitarmenn og bændur gripu til þess ráðs í gærkvöldi að smala kindum og hrossum og koma þeim í hús.


„Við erum róleg yfir þessu í augnablikinu, en það var talsverð viðbrigði í gær þegar tók að snjóa ösku. Við höfum aldrei upplifað svona áður. Maður sá ekki milli vegstika.“


Á Herjólfsstöðum í Álftaveri býr Gissur Jóhannesson. Hann segir í viðtali við ruv.is að þegar heimilisfólkið fór að sofa um ellefu leytið í gærkvöld hafi ekki verið neitt öskufall en í morgun hafi verið dimmt úti. Ekki sjáist til fjóssins, sem sé í 150-200 metra fjarlægð.


Hann segist hafa sett út diska í gær til að gá að öskufalli og heilmikið af ösku hafi fallið á þá. Þá sé bíllinn sé þakinn ösku, sem sé um tveir millimetrar á þykkt.


Ekki er hægt að greina að neitt sé að draga úr gosinu. Strókurinn dökknar öðru hverju og því fylgir öskufall. Vindar blása öskunni til austurs. Strókurinn nær 6-8 km hæð.


Fólk á 20 bæjum næst gosinu fengu ekki að vera heima í nótt, en bændur mega sinna gegningu nú í morgunsárið.

www.mbl.is, www.ruv.is


back to top