Bylting í heyskap?
Stöð 2 birti í gærkvöldi frétt undir yfirskriftinni „Bylting í heyskap“. Þar var sýnt frá heyskap á Heiði í Biskupstungum og voru þar að verki verktakarnir Davíð Ingason og Sigurður Ágústsson. Þeir stofnuðu fyrirtæki í vetur sem fjárfesti í stórvirkum vélum, m.a. múgsaxara.
Að sögn Davíðs eru þeir að ná miklum afköstum eða allt að 10 ha. á klukkutíma við að saxa, keyra heim og þjappa í stæður. Engin spurning er að fyrir þá bændur sem hentar að vera með útistæður og/eða flatgryfjur er þetta vænlegur kostur þar sem miklir fjármunir í dýrum tækjakosti sparast. Reynsla þeirra sem tekið hafa upp stæðuverkun er líka góð en hvernig til tekst til veltur allt á frágangi stæðunnar. Hann þarf að vanda vel. Hins vegar er stæðuverkun kannski ekki vænlegur kostur fyrir alla, a.m.k. þurfa búin að hafa náð ákveðinni stærð til þess að leggja í slíkt því að gjafahraðinn skiptir miklu upp það að ekki hlaupi hiti í stæðurnar eftir að þær hafa verið opnaðar. Í þessu sambandi má benda á góða grein um útistæður eftir Jóhannes Hr. Símonarson sem finna má hér á vefnum með því að smella hér.
´Hægt er að sjá frétt Stöðvar 2 með kvikmynd af múgsöxun með því að smella hér.