Byrjað er að flytja fé af öskufallssvæðinu

Fyrstu skipulögðu fjárflutningarnir af öskufallssvæðinu fóru fram í dag þegar fé var flutt af fjórum bæjum undir Eyjafjöllum austur að Þverá í Skaftárhreppi. Um 110 ær með lömbum voru fluttar í girðingar sem Búnaðarsambandið hefur fengið til umráða til þessara nota. Fleira sauðfé verður flutt á næstu dögum en undir Eyjafjöllum og í Mýrdal eru rúmlega 10 þús. fjár á vetrarfóðrum.
Ljóst er að heiðarlönd og afréttir verða vart nýttir til beitar á þessu sumri en þó nokkrir bændur bíða átekta og sjá hverju fram vindur með hvort hægt verði að nýta haga á láglendi í sumar. Líkurnar á því minnka þó stöðugt eftir því sem gosið dregst á langinn og meiri aska fellur.


back to top