Dagur kanínunnar
Landbúnaðarháskóli Íslands í samvinnu við kanínuræktandann, Sigrúnu Elíasdóttur, Ullarselið og Landbúnaðarsafn Íslands ætla að halda uppá Dag kanínunnar næstkomandi laugardag, þann 13. júní á Hvanneyri.
Hugmyndin er að bjóða uppá dagskrá sem höfðar til kanínubænda sem vilja miðla af þekkingu sinni eða fræðast, sem og almennings til gagns og gamans. Í boði verða stutt fræðsluerindi um kanínur, kanínurækt og nýsköpun. Dýr verða til sýnis og aðbúnaður þeirra. Einnig er vonast til þess að þeir sem hafa unnið vörur eða handverk úr kanínuskinni eða fiðu hafi samband og fái aðstöðu til að leggja það fram til sýnis, enda fjöldi fallegra muna unnir úr þessu hráefni.
Ullarselið verður opið ásamt Landbúnaðarsafni Íslands. Kaffiveitingar verða til sölu til styrktar safninu. Útihús LbhÍ verða opin og því kjörði að kíkja þangað inn. Ýmislegt fleira verður í boði fyrir alla aldurshópa.
Fjöldi kanína, s.s. angóru-, feld og kjötkanína hefur farið minnkandi undanfarin ár og því kjörið á þessum tíma að rifja upp hvernig ræktun þeirra fer fram og hvernig megi nýta þær afurðir sem verða til við ræktun þeirra. Í lok dags er ætlunin að endurvekja Félag kanínubænda, þeir sem hafa áhuga á að gerast félgsmenn eru beðnir að hafa samband við Sigrúnu Elíasdóttur (s: 695 2583 netfangið islandur@yahoo.com) eða Ásdísi Helgu Bjarnadóttur (s: 843 5302 netfangið asdish@lbhi.is) einnig ef fólk hefur áhuga að taka virkan þátt í kanínudeginum með uppákomu eða afurðir/handverk til kynningar.