Daníel í Akbraut vermir ennþá toppsætið
Uppgjör skýrsluhalds í nautgriparækt fyrir nóvember s.l. er nú komið á vef Bændasamtakanna. Meðalafurðir standa nú í 5.107 kg/árskú og eru afurðir mestar í Skagafirði eða 5.730 kg/árskú. Næst í röðinni koma svo Snæfellsnes með 5.534 kg/árskú og Árnessýsla með 5.527 kg/árskú.
Afurðahæsta búið er sem fyrr hjá Daníel í Akbraut en þar standa afurðir nú í 7.733 kg/árskú en fast á hæla hans kemur búið á Kirkjulæk í Fljótshlíð með 7.586 kg/árskú. Annars vekur óneitanlega athygli að nú eru 13 bú með meðalafurðir yfir 7.000 kg/árskú á landinu öllu.
Afurðahæsta kýr landsins eftir nóvember-uppgjör er Örk 166 Almarsdóttir 90019 á Egg í Hegranesi en þessi kýr er frá Hamri í sömu sveit. Þess má jafnframt geta að hún er móðir Hegra 03014 sem er nýkominn til notkunar að loknum afkvæmadómi. Hún stendur nú í 12.019 kg mjólkur.
Frekari upplýsingar um niðurstöður skýrsluhaldsins má sjá með því að smella hér.