Drapst úr hestaheilabólgu
Íslenskur hestur á búgarði í Bandaríkjunum drapst nýlega af völdum hestaheilabólgu. Veikin berst með moskítóflugum og getur ógnaði lífi dýra og manna. Hesturinn var á búgarði ræktandans Johns Dur í bænum Henniker í New Hampshire-ríki í Bandaríkjunum. Bæjarblaðið Concord Monitor greinir frá þessu en þar segir að hesturinn, sem mun hafa komið í heiminn fyrir átján mánuðum, hafi veikst af hestaheilabólgu í byrjun mánaðarins og síðan drepist af völdum sjúkdómsins á fimmtudaginn fyrir viku.
Sjúkdómurinn berst með moskítóflugum sem nokkuð mun vera um á svæðinu á þessum árstíma. Dur segir í viðtali við blaðið að nítján hestar séu á búgarðinum og hesturinn sem hér um ræði hafi verið sá eini sem ekki hafi verið bólusettur fyrir veirunni sem veldur sjúkdóminum. Samkvæmt vefsíðu Durs eru hestar á búgarði hans afkvæmi stóðhestsins Tjalds frá Hólum sem aftur er undan Kolfinni frá Kjarnholtum sem aftur er undan Hrafni frá Holtsmúla. Ekki hefur fengist staðfest hvort hesturinn sem drapst sé undan Tjaldi.
Fregnir af dauða hestsins bárust um leið og greint var frá því að þriggja ára stúlka í þorpinu þar sem búgaðurinn er hefði veikst af hestaheilabólgu eftir moskítóbit. Þetta mun vera fyrsta tilfelli í mönnum vestra í ár en þar eru dæmi um að veikin hafi borist í fólk og í verstu tilvikum dregið sjúklinga til dauða. Gripið hefur verið til varúðarráðstafana og eitrað fyrir moskítóflugum á nokkrum svæðum.
Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir og sérfræðingur í hestasjúkdómum, sagði í samtali við fréttasstofu að ekki væri hætta á að veikin bærist til Íslands. Hún hefði aldrei greinst hér eða á Norðurslóðum enda væru það aðeins moskítóflugur sem bæru hana í dýr og menn.
Heimasíða John Dur