Dýralæknaþjónusta á gossvæðinu verður tryggð
Halldór Runólfsson yfirdýralæknir segir að mikil samvinna sé af hálfu Matvælastofnunar við viðbragðsaðila á áhrifasvæði eldgossins í Eyjafjallajökli. „Héraðsdýralæknar og búfjáreftirlitsmenn eru að vinna náið með bændum vegna öskufalls og það er búið að hafa samband við alla dýraeigendur á svæðinu um að taka dýr inn og huga að þeim. Leiðbeiningar okkar hafa verið á vefsíðu stofnunarinnar, mast.is og ég hef líka bent mönnum á forsíðu Bændablaðsins frá 25. mars, þar er góð umfjöllun um þetta allt. Það sem við sögðum varðandi gosið á Fimmvörðuhálsi gildir allt ennþá. Svo hafa hins vegar komið upp auka mál vegna Eyjafjallasvæðisins og Mýrdalsins því að vegurinn við Markarfljót er jú rofinn og Mýrdalssandur á tímabili lokaður þá voru menn dýralæknislausir á svæðinu.“
Halldór segir að búið sé að ganga frá því að ef nauðsyn krefði að þá yrði dýralæknum flogið í áríðandi vitjanir. „Það var í gær staðsett þyrla við Hótel Rangá sem hægt hefði verið að nota ef með hefði þurft en til þess kom þó ekki. Það eru aðrar lausnir líka sem hægt er að notast við en við erum jafnvel að velta því upp hvort hægt verði að koma dýralækni fyrir á svæðinu tímabundið, til að mynda á Skógum, til að tryggja þetta. Við erum að vinna að lausn á því.“
Ómögulegt er að segja til um þróun eldgossins og jafnframt hvernig vindáttir muni snúast. Umtalsverð eiturefni eru í öskunni frá eldgosinu og mun meira flúormagn heldur en var í gosinu á Fimmvörðuhálsi tila að mynda. Af þeim sökum brýnir Halldór það fyrir bændum um allt land að búa sig undir aðgerðir vegna mögulegs öskufalls. „Þar sem ekki verður hægt að taka búfé á hús verða menn að tryggja nægt hey og umfram allt hreint, rennandi vatn. Ég get ekki undirstrikað þetta nógu oft. Bændur um allt land verða að gera ráð fyrir þeim möguleika að öskufall verði á þeirra svæði og vera tilbúnir. Það er mögulegt að menn verði hreinlega að koma t.a.m. hrossum í aðhald og þrengja að þeim á stöðum með vatni og heyi og koma þar með í veg fyrir að þau séu að bíta eða drekka vatn úr pollum.“