Eðjuflóð í Svaðbælisá í morgun

Svaðbælisá, sem rennur rétt við Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum, flæddi yfir bakka sína í morgun. Í samtali við ruv.is segir Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri, að eðjuflóð hafi byrjað um kl. 9 í morgun, en farvegurinn var fullur af aur eftir fyrsta fljóðið í upphafi goss. Ekki hafa orðið teljandi skemmdir á vegamannvirkjum en að sögn almannavarnadeilda ríkislögreglustjóra fór vatn yfir varnagarða á 150 metra kafla.
Talið er að aurflóðið megi rekja til þess að gjóska, sem legið hefur á jöklinum neðan 1200-1300 metra hæðar, hafi flotið fram og hreinsast af 4-5 km2 svæði. Við úrkomuna í nótt hefur gjóskan orðið vatnsósa, fengið eiginleika vökva og flætt fram sem grautur af ösku og vatni.
Vinna er hafin við að styrkja varnargarðana við Þorvaldseyri.


back to top