Eiga bændur að rækta korn?

Þessa dagana eru bændur mikið að spyrja ráðunauta út í kornrækt, tilkostnað við hana og hvort að hún borgi sig yfirleitt. Því er til að svara að það er að sjálfsögðu háð uppskeru á hektara, þ.e. deilistærðinni sem tilkostnaðinum er dreift á. Undanfarin ár hafa ráðunautar BSSL reiknað út að núllpunkturinn við kornræktina er á bilinu 3,3 – 3,5 tonn/hektara sé kornið þurrkað og er þetta vor engin undantekning frá því. Sé kornið votverkað með própíonsýru má gera ráð fyrir að uppskeran megi vera eitthvað lægri.

Uppskera á sunnlenskum ökrum hefur í mörg ár dansað í kringum þennan núllpunkt svo ráðlegging um hvort bændur eiga að rækta korn er ekki alltaf einföld. Trúlega er best að hver og einn bóndi setji upp sínar forsendur sjálfir og meti svo hagkvæmnina í kjölfarið. Eðlilegt er að hafa í huga það verð sem er á sambærilegu innfluttu korni til samanburðar, komnu heim á hlað.

Í þessum tilgangi hefur verið sett upp kornræktarlíkan (excel)  hér inn á heimasíðuna undir „Jarðrækt > Kornrækt > Hagkvæmni“. Jafnframt er hnappur inn á líkanið nú á forsíðu vefsins hér neðar til hægri.  Í líkaninu getur hver og einn sett inn sínar eigin forsendur eins og hann metur þær og að lokum smellt á hnappinn „Núllpunktur uppskeru“. Líkanið reiknar þá út hver uppskeran þarf að vera af hverjum hektara til að hafa fyrir kostnaði. Þær forsendur sem fyrir eru í líkaninu þegar það er opnað í fyrsta sinn eru þær forsendur sem gefa fyrrnefnda 3,3-3,5 t/ha sem núllpunkt.

Þeir sem gefa sér tíma til að leika sér með líkanið munu fljótlega komast að því að í kornræktinni er fólgin allnokkur stærðarhagkvæmni og ræður afkastageta tækja þar töluverðu um. Því er ekki úr vegi að bændur kanni verð og afköst verktaka áður en þeir fara sjálfir að vinna á ökrunum. Lykillinn að hagkvæmri kornrækt og fóðuröflun almennt er samvinna og samnýting á tækjakosti.

Kornræktarlíkan BSSL 


back to top