Eignamyndun á sér stað í sveitum

Einar K. Guðfinnsson, landbúnaðarráðherra, sagði á Alþingi í dag, að eftirspurn væri eftir bújörðum, lögbýlum í ábúð væri að fjölga gagnstætt því sem áður var og eignamyndun ætti sér stað í sveitum landsins. Sagði hann fá dæmi um jarðasöfnun á landsbyggðinni.

Einar var að svara Jóni Bjarnasyni, sem hóf umræðu utan dagskrár um uppkaup á jörðum og verndun landbúnaðarlands en Jón lýsti áhyggjum af vaxandi uppkaupum auðmanna á jörðum og nefndi nokkur dæmi þar um. Vísaði hann til þess, að í Danmörku og fleiri nágrannalöndum væru gerðar strangar kröfur um ábúð og nýtingu á bújörðum, sem skiptu um eigendur.


Einar spurði, hvort ríkið ætti að reyna að koma í veg fyrir að fólk úr þéttbýli setjist að á landsbyggðinni. Hann sagði, að miklar búháttabreytingar hefðu orðið í landbúnaði á undanförnum misserum og landið væri tekið undir nýja atvinnustarfsemi. Ljósin, sem slokknuðu í sveitum landsins fyrir nokkrum árum, hefðu kviknað á ný.


Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar, sagði að breytingarnar hefðu orðið til góðs, verð á jarðnæði hefur hækkað og gefið mörgum bóndanum tækifæri til að innleysa tekjur úr ævistafi sínu. Hann sagðist hins vegar ekki útiloka, að til bóta væri að setja einhverjar reglur til að styrkja not lands til landbúnaðar.


back to top