Ekki áformað að flytja stjórnsýsluverkefni frá BÍ til Matvælastofnunar

Fjárlagafrumvarp næsta árs gerir ekki ráð fyrir flutningi stjórnsýsluverkefna frá Bændasamtökunum til Matvælastofnunar, enda þóttt Ríkisendurskoðun telji þessa breytingu brýna. Síðasta vetur gaf Ríkisendurskoðun út tvær skýrslur sem fjölluðu um eftirlit með framkvæmd búvörusamninga og útvistun stjórnsýsluverkefna á sviði landbúnaðar til Bændasamtakanna. Samkvæmt seinni skýrslunni telur Ríkisendurskoðun óæskilegt að Bændasamtökin sinni bæði framkvæmd verkefna og eftirliti með þeim og því sé brýnt að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hafi frumkvæði að því að endurskoða stjórnsýslu landbúnaðarmála.

Fram hefur komið í fréttum að hægt hefur gengið að færa verkefni frá Bændasamtökunum til Matvælastofnunar vegna fjárskorts. Þetta kemur raunar fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir sjö mánuðum. Jón Gíslason, forstjóri Matvælastofnunar, segir í svari við fyrirspurn fréttastofu að stofnunin geti tekið við verkefnum Bændasamtakanna ef fjármagn til þeirra fylgir.


Ráðuneytið tekur hins vegar ekki undir nauðsyn þess að færa verkefnin á milli og svarar því til að Bændasamtökin taki tiltölulega hóflegt gjald fyrir veitta þjónustu og ljóst sé að tilflutningur þessara verkefna til Matvælastofnunar muni þýða aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. Ríkið greiðir samtökunum alls tæpar 400 milljónir króna í ár vegna ýmissa verkefna á þessu sviði. Af fjárlagafrumvarpi næsta árs má ráða að ekki standi til að bregðast við þessum ábendingum Ríkisendurskoðunar því ekki er gert ráð fyrir að verkefni og framlög úr ríkissjóði flytjist frá Bændasamtökum til Matvælastofnunar.


back to top