Ekki hagur ESB að þurrka út landbúnaðinn

Innganga í ESB er ekki gerð til fimm heldur 50 ára í hið minnsta. Þið verðið því að komast af til lengri tíma hvað efnahagsmál og matvælabirgðir varðar. Þegar Finnar gengu í ESB var það markmið stjórnvalda að finna lausn til að styrkur finnsks landbúnaðar yrði tryggður við inngönguna. Hefði það ekki verið gert værum við nú illa stödd sem landbúnaðarsamfélag,“ sagði Pekka Pesonen, finnskur framkvæmdastjóri evrópsku bændasamtakanna COPA-Cogeca á hádegisfundi Samfylkingarinnar í gær.

Góð reynsla í landbúnaði
Pesonen sagði að reynsla samtakanna af aðild allra 27 landanna að ESB hefði gefið góða raun hvað landbúnað varðaði. „Eftir að Finnland gekk í ESB skipti landbúnaður alla máli og þannig ætti það líka að vera. Því að ef þú gleymir bændum og landbúnaði stefnirðu framtíðinni í hættu,“ sagði Pesonen.


„Um 90% vinnunnar fer fram innan hvers ríkis fyrir sig en um 10% innan ESB og engin ríkisstjórnanna getur litið fram hjá eða vanrækt landbúnað eigin lands. Þar sem landbúnaður hefur blómstrað hefur hann alltaf notið stuðnings eigin ríkisstjórnar og það hefur einnig gerst í Finnlandi,“ sagði Pesonen.


Hann sagði að almennt séð væri ekkert svæði innan ESB þar sem horfið hefði verið frá landbúnaði eða hann þurrkaður út. „Það væri ekki hagur evrópsks landbúnaðar, ekki heldur íslenskra stjórnvalda eða evrópskra stofnana að landbúnaður ykkar þurrkaðist út,“ sagði Pesonen.


„Það er ríkjandi sameiginleg landbúnaðarstefna innan ESB og slíka stefnu verður að útfæra þannig að allir hafi hag af þó það geti vissulega verið erfitt, sérstaklega eftir því sem aðildarríkjunum fjölgar,“ sagði Pesonen.


„Ég er nokkuð bjartsýnn fyrir ykkar hönd og sé ekki að íslenskur landbúnaður væri í hættu með aðild að ESB. Til skamms tíma gæti þó verið að fyrirkomulag sem hefur hentað ykkur vel reyndist ekki í samræmi við stefnu ESB. Í því lægi viss hætta en ríkisstjórnin yrði að taka það með í reikninginn í aðildarviðræðum. Það er því mikilvægt að ríkisstjórnir, eins og sú íslenska, rýni í erfiðleika bænda til að tryggja að íslenskri matvælaframleiðslu yrði ekki fórnað í þágu ESB,“ segir Pesonen.


Hann sagði inngöngu í ESB vissulega ekki vandalausa en að með henni myndu bændum og matvöruframleiðendum opnast ný tækfæri í alþjóðasamstarfi. „ESB er enn stærsta viðskiptasvæði í heimi með um 500 milljónir íbúa og það viðskiptasvæði stendur bændum og framleiðendum opið,“ sagði Pesonen.



Í hnotskurn
» COPA/Cogeca eru stærstu og mikilvægustu regnhlífarsamtök bænda í ESB með um 40.000 aðildarfélög frá allri Evrópu.
» Samtökunum tilheyra einnig bændasamtök landa utan ESB, þ.ám. Bændasamtök Íslands.
» Samtökin gæta m.a. hagsmuna bænda gagnvart ESB og leiðtogaráðinu.


back to top