Ekki mikil flúormengun í öskunni að svo stöddu

Jarðvísindastofnun Háskólans hefur birt niðurstöður mælinga úr öskusýni frá Kirkjubæjarklaustri, safnað um kl. 1 aðfararnótt 22. maí 2011. Öskufall var þá um 9,4 g pr fermetra. Eins og í undanförnum Grímsvatnagosum er fyrsta askan hreint glerríkt berg með mjög lítið magn efna á yfirborði og inniheldur hún 5-10 mg/kg af vatnsleysanlegum flúor á yfirborði. Þolmörk í fóðri nautgripa eru talin vera 30-40 mg/kg þurrefnis í fóðri og 2,5-4,0 mg/lítra drykkjarvatns. Þolmörk hjá sauðfé eru oftast sett við 70-100 mg/kg þurrefnis í fóðri og 12-15 mg/lítra drykkjarvatns.
Sýrustig skolvatns (1g aska, 5g vatn) er veikbasískt – pH 8,6, sem bendir til að askan hafi sundrast í vatnsgufu eins og í upphafi annarra Grímsvatnagosa. Við þær aðstæður leitar sýra úr eldfjallagasi í gufuna og þéttivatn úr henni. Nái eldvarpið að þurrkast upp má vænta mun meiri efnamengunar.
Eins og áður sagði er askan glerkennd og getur haft særandi áhrif á slímhimnur í öndunarfærum, meltingarfærum og augum skepna. Mikilvægt er að forða skepnum undan öskufalli og hýsa þær eða flytja annað ef mögulegt er. Tryggja þarf skepnum á útigangi hreint drykkjarvatn og gefa þeim gott fóður vel og oft.

Jarðvísindastofnun HÍ


back to top