Eldgosið reynir mjög á bændur
Ljóst er að eldgosið í Eyjafjallajökli hefur reynt mjög á þolrif þeirra bænda sem á svæðinu búa. Það er erfitt að horfa upp á slíkar hamfarir að maður tali nú ekki um þá nagandi óvissu sem um framhaldið ríkir. Á slíkum stundum er mikilvægt að fólk finni fyrir og fái stuðning og ekki verður annað séð en að öll þjóðin hafi samúð með bændum á svæðinu og sé öll af vilja gerð til þess að styðja við bakið á þeim. Þá verður að segjast eins og að aðgangsharka fjölmiðla er oft á tíðum full mikil og brýnt að fólk sem orðið hefur fyrir áföllum sem þessum fái frið og andrými til þess að íhuga sína stöðu og meta ástandið.
Áföll á borð við þessi eru ávallt erfið viðfangs og þrátt fyrir stuðning er ljóst að einhverjir bændur munu gera hlé á búskap sínum en nú þegar hefur verið tilkynnt um slíkt á tveimur búum. Þessi bú eru á því svæði sem orðið hefur hvað verst úti af völdum öskufalls.
Í gær tilkynnti Kristinn Stefánsson á Raufarfelli að hann og fjölskylda hans hyggist bregða búi, a.m.k. um sinn. Þá hefur fjölskyldan á Þorvaldseyri sent frá tilkynningu þar sem fram kemur hún hefur ákveðið að gera hlé á ræktun og búskap á Þorvaldseyri. Tilkynningin fer hér á eftir:
Fréttatilkynning frá Þorvaldseyri
„Í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru á Þorvaldseyri eftir gosið í Eyjafjallajökli hefur fjölskyldan hér ákveðið að gera hlé á ræktun og búskap um sinn.
Í þessari ákvörðun okkar felast alls ekki nein áform um að bregða búi og heldur ekki áform um að flytja heimili okkar frá Þorvaldseyri. Engu að síður verður að horfast í augu við staðreyndir og gefa jörðinni tækifæri til að jafna sig þegar þessu linnir. Hér hefur ekki aðeins orðið mikið öskufall heldur hefur aurflóð einnig ógnað öryggi staðarins. Eins og nú horfir er ekki réttlætanlegt að stunda ræktun svo sem gras-, korn- og hveitirækt eins og við höfum gert. Miklar líkur eru á öskufoki ofan úr fjallinu á næstu misserum með tilheyrandi skaða á gróðri.
Við höfum ekki í hyggju að lóga gripum eða senda í sláturhús en þurfum að huga að því að koma þeim fyrir annars staðar. Við þessar aðstæður, þegar búast má við að á löngum köflum verði ekki hægt að vera utandyra, er hvorki hægt að ætla fólki eða búpeningi að rekinn sé
búskapur á jörðinni.
Við heimilisfólkið á Þorvaldseyri erum afar þakklát þeim fjölmörgu sem sýnt hafa okkur stuðning og velvilja og hvatt okkur áfram undanfarna daga. Við hyggjumst ekki leggja árar í bát og munum leita allra skynsamlegra ráða til að unnt verði að halda áfram eðlilegum búskap
á Þorvaldseyri sem fyrst.
Við þurfum nú ráðrúm til að sinna þessum málum og væntum skilnings á því að við munum ekki geta sinnt fyrirspurnum og heimsóknum fjölmiðla eins og við höfum reynt að gera að undanförnu.
Á Þorvaldseyri, 21. apríl 2010,
fyrir hönd fjölskyldunnar,
Ólafur Eggertsson.“