Erfðaframfarir skila meðalbúinu yfir 100 þús. kr. á ári
Nú stendur yfir ráðstefna um nautgriparækt á Hótel Sögu í Reykjavík. Á ráðstefnunni hefur margt fróðlegt komið fram en hún hófst á erindi um ræktunarárangur síðustu 30 ára sem Ágúst Sigurðsson flutti. Erindið var unnið upp úr rannsókn sem Ágúst og Jón Viðar Jónmundsson gerðu og voru niðurstöður hennar birtar í Icelandic Agricultural Sciences (www.ias.is) fyrir skömmu. Í erindinu kom fram að erfðaframfarir hafa skilað okkur síðasta áratuginn aukningu í nyt sem nemur 33 kg af mjólk á grip á ári eða 1,2 kg próteins. Ef við reiknum þessa afurðaaukningu til verðs þá nemur aukningin rúmlega 2.500 kr/grip á ári og er þá eingöngu verið að tala um framfarir í mjólkurmagni.
Fyrir 40 kúa bú eru þetta þá rúmlega 100 þús. kr. á ári eða rúmlega 1 millj. króna á einum áratug. Við þetta má svo bæta framförum í öðrum eiginleikum og svo kostnaðarlækkun vegna færri gripa til þess að framleiða sama magn af mjólk.
Erindin og glærurnar verða birtar á vefnum þannig að menn geta kynnt sér þau innan skamms.
Bein útsending frá ráðstefnunni