Erfiðast að velja undaneldisdýrin

Í upphafi árs var Sigríður Pétursdóttir, bóndi á Ólafsvöllum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, sæmd hinni íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum fyrir störf sín að ræktun íslenska fjárhundsins. Þegar Sigríður hóf ræktun íslenska fjárhundsins á sjöunda áratug síðustu aldar var ræktunarstofninn mjög fátæklegur en með hugsjónastarfi sínu tókst henni ásamt örfáum öðrum ræktendum að bjarga kyninu.

“Þetta er mikil ánægja í raun og veru að fá þessa viðurkenningu fyrir það starf sem ég hef unnið. Þetta tók mörg ár og var ekki einfalt. Ég fékk eiginlega sjokk þegar mér var tilkynnt um orðuna, þetta var algjörlega óvænt og ég átti ekki von á neinu,” segir Sigríður aðspurð um viðbrögð hennar við orðuveitingunni á Bessastöðum í byrjun árs.


Ánægjulegast að þetta tókst
Það má segja að upphafið að ræktun Sigríðar á íslenska hundinum megi rekja aftur til ársins 1959 þegar hún og maður hennar, Kjartan Georgsson, fluttu úr Reykjavík og hófu búskap á Ólafsvöllum.
„Það sem mér finnst ánægjulegast við ræktunina mína á sínum tíma er að hún skyldi takast. En það sem mér fannst erfiðast var þegar ég valdi undaneldisdýrin og þurfti að láta lóga eða svæfa hluta því ekki var hægt að láta frá sér nema takmarkað af dýrum sem ekki voru ætluð til undaneldis. Þetta var engin „framleiðsla“, heldur nákvæm og ákaflega úthugsuð ræktun og því þurfti að velja og vera passasamur um hvað maður var að gera. Það var ekki endanlega hægt að velja undaneldisdýr nema þegar þau voru orðin ákveðið gömul og þegar hægt var að sjá eðli, skapferli, vöxt og feld. Það varð allt að passa heim og saman, eða svo nærri sem hægt var, við það sem ég var að leitast við að ná fram. Hundarnir urðu að vera orðnir upp undir sex mánaða þegar hægt var að meta þá og þá voru þeir orðnir hændir að manni. Þetta var mikil vinna en það er alltaf mikil vinna að vera með dýr,” útskýrir Sigríður.

Sjá nánar í 2. tbl. Bændablaðsins


back to top