Erlend bændasamtök senda íslenskum bændum kveðjur og hvatningarorð
Bændasamtökum Íslands hafa borist kveðjur og hvatningarorð til bænda á Íslandi vegna áhrifa eldgossins í Eyjafjallajökli. Norsku bændasamtökin, Norges bondelag, sendu í dag bréf til BÍ þar sem forsvarsmenn þeirra lýstu yfir stuðningi við þá bændur sem nú berjast við náttúruöflin og bjóða aðstoð sína ef þörf krefur. Þá sendi David King, aðalritari Alþjóðasamtaka búvöruframleiðenda, IFAP, íslenskum bændum góðar kveðjur og ítrekaði samstöðu IFAP með þeim. Kveðjur hafa borist víðar frá erlendum bændum og samtökum þeirra, m.a. frá Finnlandi og Svíþjóð.
Erlendir fréttamiðlar hafa einnig haft samband við BÍ og eru áhugasamir um aðstæður bænda sem eru á áhrifasvæðum eldgossins.
Bændasamtökin hafa sent þakkarbréf til erlendra samstarfsaðila, vina og velunnara bænda, þar sem farið er yfir gang mála og hvaða áhrif eldgosið í Eyjafjallajökli hefur á íslenskan landbúnað.