ESB-aðild þýðir endalok svína- og kjúklingaræktar

Gangi Ísland í Evrópusambandið mun svínarækt og kjúklingarækt leggjast af á Íslandi. Þetta kom fram í máli Jóns Baldurs Lorange, hjá Bændasamtökum Íslands, á fundi um ESB og landbúnaðinn í gærkvöldi. Búnaðarfélag Mýramanna stóð fyrir fundinum.
Bændasamtökin hafa viðað að sér ítarlegum upplýsingum um landbúnað í Evrópusambandinu og hugsanleg áhrif inngöngu Ísland í bandalagið. Jón Baldur sagði að á Ítalíu fengju stærstu búin um 2,5 milljarða í styrki frá Evrópusambandinu á meðan meðalbúið væri að fá um 540 þúsund. Stærstu búin væru fyrirtækjasamsteypur sem væru með umfangsmikinn rekstur.

Jón Baldur sagði að gengi Ísland í ESB myndi kjúklingarækt og svínarækt leggjast af hér á landi. Aðrar kjötgreinar yrðu fyrir verðskerðingu, en þó minnst í nautakjöti og lambakjöti.


Jón Baldur sagði að ávinningur neytenda af aðild að ESB væri mun minni en gefið hefði verið í skyn. Verðlag hjá þeim þjóðum sem gengið hefðu í ESB hefði lækkað um 2% að meðaltali, en ekki 30% eins og sumir hefðu talað um. Hann kynnti einnig tölur sem sýndu að verð til bænda í ESB lækkaði stöðugt á meðan smásöluverðið hækkaði. Milliliðir væru að taka sífellt meira til sín.


Kolfinna Jóhannesdóttir, sem sæti á í samninganefnd Íslands vegna aðildarviðræðna við ESB, var einnig frummælandi á fundinum. Hún sagði að ávinningur af aðild og upptöku evru  fælist m.a. í stöðugra gengi og lægri vöxtum. Staðan í efnahagsmálum Íslendinga væri hins vegar þannig um þessar mundir að nokkur ár myndu líða þangað til við ættum möguleika á að taka upp evru.


Sigurjón Helgason, formaður Búnaðarfélags Mýramanna, sagði að fundurinn hefði verið velheppnaður og málefnalegur. Bændur hefðu áhuga á að kynna sér áhrif aðildar að ESB, en lítill stuðningur væri við aðild meðal bænda.


Mýraeldahátíð á laugardag
Fundurinn í gær var hluti af svokallaðri Mýraeldahátíð, en fjögur ár eru liðin frá sinueldunum miklu á Mýrum, sem eru mestu sinueldar sem brunnið hafa á Íslandi.


Á laugardag hefst vorhátíð við Lyngbrekku kl. 13. Fyrirtæki og stofnanir verða með sölu og kynningarbása. Einnig verður handverksfólk  á staðnum að selja sína framleiðslu. Boðið verður upp á kjötsúpu í boði sauðfjárbænda og Mýrarnaut á Leirulæk og Sláturhúsið á Hellu verða með naut á grillinu. Eitthvað verður af nýjum vélum frá vélafyrirtækjum landsins ásamt sýningu á fornvélum. Þá verður keppni í liðléttingafimi, liðléttingar eru tæki sem eru mikið notuð í landbúnaði í dag. Sett verður upp braut þar sem menn geta spreytt sig í hinum ýmsu þrautum. Um kl. 17.00 verður svo gert hlé á hátíðinni.


Kvöldvaka Vorhátíðarinnar hefst síðan kl. 20.30 og þar munu stjórna þeir Guðmundur Steingrímsson og Ingi Tryggvason. Fram koma: Samkór Mýramanna, Steinka Páls og ungir og efnilegir tónlistarmenn frá Laugagerðisskóla, Óskar Þór Óskarsson verður með myndasýningu, Karlakór Kjalnesinga, Sigurður Óli og félagar, Piparsveinabandið flytja tónlist. Vorhátíðin líkur svo á því að hljómsveitin Festival spilar til kl. 03.00.


back to top