ESB endurskoðar landbúnaðarstefnu sína
Dacian Ciolos, landbúnaðarstjóri ESB, telur nauðsynlegt að endurskipuleggja hina sameiginlegu landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins (CAP) en hann kynnti í gær tillögur að breytingum á umdeildu niðurgreiðslukerfi ESB sem taka á gildi 2014. Tillögurnar verða án ef mjög umdeildar og mikið ræddar á komandi mánuðum en samkvæmt þeim stefnir ESB að landbúnaðarstefnu sem verður grænni og réttlátari en sú sem nú er fylgt. Dregið verður úr niðurgreiðslum og þær tengdar umhverfismálum í auknum mæli.
Til þessa hafa um 40% af árlegum útgjöldum ESB, sem alls eru upp á 140 billjónir evra, farið til landbúnaðarmála. Nú er lagt til að um 30% af beinum styrkjum til bænda verði háð þáttum tengdum umhverfismálum. Liður í slíkum aðgerðum er fjölbreytni í ræktun, það að viðhalda beitarhögum til frambúðar og að friða að minnsta kosti 7% ræktanlegs lands svo þar verði umhverfisvænt griðland gróðurs, dýra og skordýra.
Fulltrúar Bretlands og Ítalíu hafa nú þegar gagnrýnt tillögurnar harðlega.
Ciolos sagði að umbæturnar jöfnuðust á við U-beygju í landbúnaðarmálum og beindu 12 milljónum bændabýla í ESB inn á leið „sjálfbærra vinnubragða“. Ciolos vill setja 300.000 evra þak (48 milljónir kr.) á greiðslur til einstakra býla á ári til þess að jafna niðurgreiðslum út í þágu réttlætis. Auk þess verði tekinn upp stigvaxandi skattur á allar greiðslur umfram 150.000 evrur á ári (24 milljónir kr.).
Mikið vélvædd bændabýli gætu orðið fyrir meiri skerðingu en þau sem eru með mikið vinnuafl. Þjóðverjar, Hollendingar og Bretar, þar sem m.a. konungsfjölskyldur þiggja háa landbúnaðarstyrki, mótmæla harðlega skerðingu styrkja og telja það geta leitt til þess að stórum býlum verði skipt upp.
Sjá nánar:
Legal proposals for the CAP after 2013