Fær bætur vegna slyss við kúasmölun

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann til þess að greiða 19 ára stúlku nærri tvær milljónir króna í skaðabætur vegna slyss sem hún varð við kúasmölun hjá manninum.

Slysið varð árið 2002 þegar stúlkan var 14 ára en þá var hún að reka nýborna kú ásamt föður mannsins. Kýrin réðst skyndilega á stúlkuna og stangaði hana kviðinn og stappaði svo á höfði hennar. Stúlkan slasaðist nokkuð og var varanlegur miski og örorka metin 5 prósent.

Fór hún fram á bætur frá manninum vegna slyssins en hann hélt því fram að með lágmarksaðgæslu stúlkan geta afstýrt slysinu. Um óhappatilviljun hafi verið að ræða.


Dómurinn féllst ekki á það og segir að föður mannsins hafi mátt ljóst vera að rekstur á nýborinni kú gat verið áhættusamur. Um saknæmt gáleysi hefði verið að ræða af hans hálfu. Þar sem hann hafi starfað fyrir son sinn við að reka kúna beri sonurinn ábyrgð á svo fór sem fór.


back to top