Fallist á þjóðlendur jarða á Síðumannaafrétti
Tveir dómar í þjóðlendumálum gengu í Hæstarétti í gær og vann íslenska ríkið annað málið en tapaði hinu. Í fyrrnefnda málinu kröfðust landeigendur þess að úrskurður óbyggðanefndar yrði felldur úr gildi að því er varðaði mörk þjóðlendu á Síðumannaafrétti gagnvart eignarlöndum jarðanna Mörtungu, Prestbakka og Prestbakkakots og að mörkin yrðu dregin eftir nánar tilgreindum merkjum.
Í málinu lá aðeins fyrir ein heimild um að merki jarðanna næðu svo langt til norðurs sem krafa landeiganda miðaði við, en aðrar fyrirliggjandi heimildir voru á annan veg. Ekki féllst Hæstiréttur á að varða, sem landeigendur töldu aðalkröfu sína fá stuðning af, réði norðurmörkum jarðanna en hvorki lá nokkuð fyrir um aldur hennar og hlutverk né var vísað til hennar í landamerkjabréfi. Að öllu þessu virtu var kröfum landeigenda um breytingu á mörkum eignarlands þeirra og þjóðlendu hafnað.
Í hinu málinu snerist deilan um úrskurð óbyggðanefndar um Fljótshverfi í Skaftárhreppi þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að mörk þjóðlendu og eignarlanda jarðanna Núpsstaðar, Rauðabergs, Kálfafells, Blómsturvalla og Núpa yrðu dregin eftir jaðri Vatnajökuls, eins og hann var 1. júlí 1998. Áfrýjandinn, íslenska ríkið, krafðist ógildingar á úrskurði óbyggðanefndar og að nánar tilgreind mörk þjóðlendu og eignarlanda yrðu viðurkennd. Í málinu lágu fyrir ýmsar heimildir um merki jarðanna og allt frá elstu heimildunum var vissum merkjum þeirra ótvírætt lýst til jökuls. Þar sem jarðirnar lágu saman í röð við jaðar jökulsins á landsvæði þar sem líkt var farið um að því er varðar notkun, gróðurfar, landslag og aðra staðhætti þótti engin haldbær ástæða til að ætla að þetta land hefði aðeins að hluta orðið háð beinum eignarrétti. Var því dæmt að lönd á framangreindu svæði væru eignarland.