Félagráðsfundur FKS 4. október 2011
Fundur haldinn í félagsráði Félags kúabænda á Suðurlandi í Björkinni á Hvolsvelli 4.október 2011.
1. Fundarsetning
Formaður, Þórir Jónsson Selalæk, setti fund kl. 20.30 og bauð fundarmenn velkomna, töluverð forföll eru vegna uppskerustarfa í korni. Þórir gat um starf félagsins frá síðasta fundi en það var m.a. þátttaka félagsins í viðburðnum „Kótelettunni“ sem haldin var á Selfossi. Gat um síðustu verðlagsákvörðun verðlagsnefndar frá því sumar og fjölmiðlaumfjöllun í kjölfarið.
2. Af vettvangi Mjólkursamsölunnar – Egill Sigurðsson og Einar Sigurðsson
Egill gat um að rekstur fyrirtækjanna væri réttu megin við núllið, salan gengur allvel. Það bíður ákvörðunar ráðherra greiðslumark næsta árs. Ljóst að það næst betri nýting á innvegna mjólk ár frá ári.
Send var út í sumar tilkynning um viðskiptasamninga við bændur og skilmála um þá. Gat um starfsemi Vesturmjólkur. Alveg klárt að þar er í gangi lögbrot varðandi innanlandsmarkaðinn, þ.e. umframmjólk er að koma inn á þann markað. Búið að vísa Þverholtsbúinu úr Auðhumlu vegna framkomu þeirra gagnvart fyrirtækinu og viðskipta við Vesturmjólk.
Varðandi samlagið á Ísafirði þá er óvissa um framtíð vinnslu þar. Verið að skoða málið m.a. hefur verið fundað í landbúnaðarráðuneytinu um málið.
Það er að koma á markað nýtt kálfaduft á markaðinn, tvær tegundir verða í boði og reiknað með að það verði samkeppnishæft í verði við innflutt duft.
Einar gat um þær breytingar sem hafa orðið í mjólkuriðnaðinum. Öll aukning í sölu síðustu ár hefur orðið í osti. Trúlega verður ekki mikil aukning úr þessu. Síðan hefur fólksfjöldinn á landinu áhrif á hverjum tíma en í raun fækkar neytendum allra síðustu ár. Síðan er það útflutningurinn, þar er greinileg aukning í skyrsölu og síðan er að hefjast útflutningur á „Hleðslu“ til Finnlands. Fór yfir þær breytingar sem hafa orðið vinnsluþættinum gagnvart einstökum samlögum síðustu tíu ár. Búið að fækka vinnslustöðvum og einfalda vinnslu á hverjum stað. Hagræðing síðustu ára hefur skilað sér vel. Kostnaður MS er um tveimur milljörðum minni í dag en hann var fyrir sex árum. Þetta hefur birst bæði í lægra vöruverði á markaðnum og eins hitt að ná að halda uppi afurðaverði til bænda. Hins vegar bíður töluverð fjárfesting, bæði á Selfossi og á Akureyri.
Markaðurinn krefst breytinga á neyslumjólkurpakkningum, þar munu verða breytingar á næstu árum yfir í skrúfuð lok á fernum. Allt þetta krefst fjárfestinga á næstum árum upp á milljarða.
Mikil hagræðing hefur orðið í flutningum síðustu ár. Gat síðan um þær breytingar sem standa fyrir dyrum hér á Suðurlandi m.t.t. flutninga.
Hins vegar hefur verri gengisþróun veruleg áhrif í ár m.t.t. kaupa á aðföngum erlendis frá. Allar þessar aðgerðir hafa þýtt verulega fækkun starfsfólks í iðnaðinum eða um 200 manns á síðustu árum.
Höfum enn viss tækifæri til lækkunar á kostnaði, útflutningur er um 30% meiri í magni í ár frá fyrra ári. Finnland lítur mjög vel út og áhugi er einnig í Bretlandi á skyri en hins vegar eru tollkvótar takmarkaðir eins og er.
Síðan eru sérleyfistekjur af skyri í Noregi og verið að byrja í Svíþjóð á markaðssetningu. Væntingar eru helstar í skyri og vonandi í smjöri í neytendapakkningum.
Þórir á Selalæk spurði um Vesturmjólk, þarf einstaklingur að fara í mál vegna þessa ?
Björn í Holti spurði um útflutning og tímalengd samnings við Norðmenn. Eins hvernig þessi ávinningur hagræðingarinnar síðustu ára skiptist milli bænda og neytenda.
Elín í Egilsstaðakoti spurði um kálfaduftið og hvort gæði þess yrðu sambærileg við það sem er nú þegar á markaði.
Egill Sigurðsson svaraði vegna Vesturmjólkur, þar gæti verið þörf á að einstaklingur fari af stað, skýrist væntanlega eftir þetta ár þar sem nú er orðið ljóst að þar er umframmjólk greinilega á ferð á innanlandsmarkaði. Stjórnvöld virðast ekki ætla að gera neitt til að stemma stigu við þessu. Síðan þurfa menn að hugsa málið varðandi heimavinnsluna og þróun hennar.
Varðandi kálfaduftið þá yrði það að sambærilegum gæðum og það innflutta og samkeppnishæft í verði.
Ágúst í Bjólu spurði um hvort ekki væri ástæða til kæra yfirvöld til Umboðsmanns Alþingis.
Einar Sigurðsson svarði Birni um sérleyfissamning við Norðmenn, hann er til langs tíma. Síðan varðandi ávinninginn af hagræðingunni þá sýndist honum að hann kæmi ívið meira fram gagnvart bændum, hugsanlega um 60% en þá um 40% til neytenda.
Ómar í Lambhaga velti fyrir sér mögulegri málsókn vegna Vesturmjólkur. Spurning hvort fyrirtækið, MS, hafi plan vegna fjölmiðlaumfjöllunar sem kæmi samhliða eða í kjölfarið.
Valdimar í Gaulverjabæ nefndi að t.d. hefði hann reynslu af því frá því í sumar að á einum ferðaþjónustubæ hefði eingöngu verið á boðstólum skyr sem örugglega var unnið úr umframjólk frá bónda. Síðan varðandi ferðamannaaukninguna, er nóg gert varðandi markaðssetningu mjólkurvara til þeirra?
Einar Sigurðsson nefndi að hægt er svara mönnum á mismunandi hátt, sbr. umfjöllun nýlega um grein um osta og síðan hvernig fréttaflutningur var síðan næstu vikur á eftir, um hleðsluna, skyrið og fl.
Varðandi ferðamanninn þá er fylgst með þeirri þróun sem er að eiga sér stað, t.d. er mikil sala í júlí.
Bóel á Móeiðarhvoli velti fyrir sér sölunni á vörum frá Vesturmjólk, m.a. er hluti varanna, jógúrt, markaðssettur með ímynd Latabæjar.
3. Af starfsemi stjórnar LK – Sigurður Loftsson
Sigurður ræddi viðurlög í núgildandi búvörulögum, þar eru ákvæði varðandi skýrsluskil en ekki vegna sölu á mjólk á innanlandsmarkað utan greiðslumarks.
Fyrsti haustfundur LK verður í Þingborg í næstu viku. Stærsta mál þeirra funda er stefnumörkun LK.
Samkvæmt fjárlagafrumvarpi virðast upphæðir vera, skv. breytingum á mjólkursamningi frá árinu 2009, og hækka því um 5% frá fyrra ári.
LK mun ekki leggja til breytingu á hlutfalli milli A, B og C –greiðslna í komandi greiðslumarksreglugerð. Ræddi síðan óframleiðslutengdan stuðning fyrir næsta ár.
Tvær hækkanir hafa orðið á þessu ári á afurðaverði frá afurðastöð. Alls er þetta 77,63 kr/l í dag og heildarstuðningsgreiðslur með öllu er um 50 kr/l.
Verðlagsgrundvöllurinn mældi síðast að verð ætti að vera um 166 kr/l miðað við síðustu verðákvörðun. LK hefur lagt áherslu á heildarendurskoðun verðlagsgrundvallar. Ýmsar stærðir þar eru barn síns tíma. Verðlagsnefndin hefur ekki hist eftir síðustu verðákvörðun en beðið er útreiknings miðað við 1.sept 2011 og eins niðurstaðna búreikninga vegna ársins 2010.
Björn í Holti spurði um fóðursjóð og hvernig hann birtist í fjárlagafrumvarpi. Þetta kæmi í umræðu sem fjármunir til stuðnings bændum.
Sigurður í Steinsholti taldi að þetta væri væntanlega millifærslusjóður.
Þórir á Selalæk ræddi óframleiðsutengdan stuðning og slíkt þyrfti að takmarka.
Sævar í Stíflu spurði um endurskoðun verðlagsgrundvallar, hvernig á að vinna slíkt.
Sigurður í Steinsholti sagði að hugsanlega mætti nýta gögn úr Dk –búbót til að meta breytilega kostnaðinn. En hvernig ætti að vinna þetta áfram er óljóst.
Þórir á Selalæk spurði um framsetningu á stefnumörkuninni.
Sigurður í Steinsholti sagði um væri að ræða tvær mismunandi framsetningar, annars vegar blaðkálfur sem birtist m.a. í Bændablaðinu 13.okt og einnig sem netútgáfa. Síðan styttri útgáfa sem send verður í pósti heim til hvers kúabónda.
Þórir á Selalæk spurði um útflutningsstefnu MS á næstunni, er t.d. möguleiki að stefna að ákveðnu marki í lítrum eða í hlutfalli af innanlandssölu.
Egill á Berustöðum sagði að það gæti vel komið til greina en þá verði menn að vera tilbúnir að taka sveiflum.
Einar Sigurðsson nefndi að hægt væri að auka magnið í útflutning verulega, og þá í skyri án þess að auka verulega við núverandi framleiðslu.
Sigurður í Steinsholti ræddi útflutningsverð og nýting fasta kostnaðarins með tilkomu aukinnar framleiðslu og verðþróunar í nágrannalöndum.
Ómar í Lambhaga spurði um Finnlandsmarkað og af hverju er sá markaður nú að gefa þessi verð.
Einar Sigurðsson sagði að söluaðferðin í Finnlandi gengi út á innflutningsfyrirtækið tæki áhættuna, þar væru einfaldlega mjög kröftugir einstaklingar að vinna að málum. Söluaðferðir eru mismunandi eftir löndum.
4. Önnur mál
a. Elín í Egilsstaðakoti ræddi um árgjaldið í Huppu og fyrirkomulagið á gjaldtökunni. Er ósátt við þessa gjaldtöku.
Sigurður í Steinsholti sagði að þetta mál hefði komið fyrst komið í umræðu í fagráði nautgriparæktar og síðan hefði verið tekist á um þetta gagnvart stjórn BÍ og þessu mótmælt.
Miklar umræður um málið og ákveðið að stjórnin semji drög að ályktun þar sem þessu árgjaldi er mótmælt og málsmeðferðinni.
b.Elín í Egilsstaðakoti ræddi slakar merkingar í verslunum m.t.t. uppruna. Oft væri erfitt að sjá hvort t.d.kjötvara væri íslensk eða innflutt. Nauðsynlegt er að vekja athygli á þessu.
Sigurður í Steinsholti sagði þetta þarfa umræðu og spurning hvað hægt væri að gera. Væntanlega gæti LK beitt sér með viðræðum við kjötvinnslur um nauðsyn góðra merkinga.
Bóel á Móeiðarhvoli ræddi sama mál og nauðsyn aðgreiningar eftir uppruna.
c. Þórir á Selalæk nefndi að ákveðið hefði verið hafa opinn dag á Stóra Ármóti 11.nóv. nk. Óskað hefur verið eftir þátttöku félagsins í þeim degi. Jafnframt ræddi hann kúasýninguna sem halda átti síðastliðnu sumri og fella þurfti niður vegna þátttökuleysis.
d. Runólfur Sigursveinsson sagði frá stöðu skuldamála hjá bændum. Meðal annars er komin út skýrsla á vegum nefndar á vegum eftirlitsnefndar á vegum efnahags- og viðskiptaráðherra um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins. Þar er sérstaklega fjallað um sértæka skuldaaðlögun Arionbanka. Enn er beðið endurútreiknings á erlendum lánasamningum frá Arionbanka. Landsbankinn og Íslandsbanki hafa þegar unnið í þeim málum og flestir hafa fengið endurútreikning þaðan og allmargir gengið frá endurfjármögnun búanna á þeim grunni.
e. Runólfur Sigursveinsson sagði frá að því að um 150 heysýnaniðurstöður hafa borist bændum á Suðurlandi, orkugildi er breytilegt – og breytilegra en oft áður. Milli 25 og 30 kúabændur munu taka þátt í Nor-For verkefninu í vetur og fyrstu niðurstöður efnagreininga vegna þess eru komnar til bænda og farið verður í það fylgja þeim eftir með fóðuráætlunum.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 00.35
Runólfur Sigursveinsson
fundarritari