Félagsráðsfundur FKS 16. mars 2010
Fundur í félagsráði Félags kúabænda á Suðurlandi 16.mars 2010
haldinn í fundarsal MS á Selfossi
1. Fundarsetning
Þórir formaður setti fund kl. 11 og bauð fundarmenn velkomna. Gengið var til dagskrár og tekið fyrst fyrir stefnumörkun FKS og Bssl til 2015.
2. Stefnumörkun FKS og og Bssl til 2015
Formaður kynnti málið en málið hafði verið kynnt á síðasta fundi félagsráðs. Nauðsynlegt væri að vinna stöðumat á einstökum þáttum og eins þyrfti að skoða þetta í samstarfi starfsmanna Bssl, dýralækna auk bænda sjálfra.
Arnheiði á Guðnastöðum fannst þetta verkefni gott í sjálfu sér m.t.t. mælanlegra markmiða.
Ásmundur í Norðurgarði velti fyrir sér hvað þyrfti til að takast á við þetta, spurning um hvað ætti að taka fyrir.
Bóel á Móeiðarhvoli velti fyrir sér hvort ekki þyrfti að setja af stað smáhóp til að vinna þetta áfram og þetta ætti þá að vera fyrir alla kúabændur á Suðurlandi.
Guðbjörg á Læk nefndi að LK væri að vinna að þessu verkefni sem þó snéri meira að ytra umhverfi greinarinnar en hér væri ætlunin að vinna inn á við.
Jórunn á Drumboddstöðum sagði þetta stórt verkefni og því væri þörf að afmarka verkið.
Ólafur í Hraunkoti tók undir með Jórunni og þörf væri að fá einn eða tvo aðila til að vinna að þessu máli í samstarfi við félagsráðið.
Pétur í Hvammi velti fyrir sér hvað gögn væru til úr SUNNU-verkefninu til að meta þetta, m.a. varðandi bústærð og afurðasemi einstakra búa m.t.t. árangurs.
Kjartan í Fagurhlíð og Ragnar í Birtingaholti veltu fyrir sér hvort ekki væri ástæða til að meta þetta út frá því sem til staðar er í SUNNU-verkefninu.
Katrín Birna á Ásólfsskála sagði að líta þyrfti á hvað væri til af gögnum til að vinna úr, m.a. hvað SUNNU-verkefnið gæfi af upplýsingum sem hægt væri að nota.
Samúel í Bryðjuholti velti fyrir sér gagnsemi svona verks, ganga yrði í verkið út frá aðstæðum hvers og eins.
Elín í Egilsstaðakoti taldi ástæðu til að velja úr ákveðin atriði til að stefna á.
Umræður urðu síðan um möguleikana með gögn sem þegar eru til m.a. úr SUNNU-verkefninu og skýrsluhaldinu.
Formaður taldi ástæðu til að vinna þetta áfram á næstu fundum. Jafnframt að vera í sambandi við Búnaðarsambandið um næstu skref.
3. Af vettvangi LK – Sigurður Loftsson formaður LK
Sigurður sagði frá helstu málum sem rædd hafa verið vegna komandi aðalfundar LK.
Meðal annars Evrópusambandsmálin, LK er í samvinnu við SAM um vinnu vegna umsóknar Íslands að ESB. Fyrrverandi formaður LK, Þórólfur Sveinsson, er verkefnisstjóri í þeirri vinnu.
Þá hefur verið í gangi stefnumörkunarvinna á vegum LK síðustu ár. Nú hefur verið ákveðið að vera með minni hóp og þá í samstarfi við Auðhumlu. Aðalfundurinn mun síðan taka afstöðu til framhalds málsins.
Þá eru lánamál kúabænda til umræðu og stjórnin mun leggja fram tillögu um þau mál á aðalfundinum. Spurning hvort nauðsynlegt er að koma upp miðstýrðu teymi til að vinna í þessum málum m.t.t. vinnu á einstaklingsgrunni hjá þeim búum sem þurfa sértækar úrlausnir.
Þá kæmi til umræðu á aðalfundi LK mögulegur kvótamarkaður, spurning um að leita í smiðju danskra kúabænda. Spurning hvað þarf að gera m.t.t. regluverks og hugsanlega er þörf á lagabreytingu.
Að síðustu hafa verið ræddar mögulegar breytingar á beingreiðslum m.t.t. B og C-greiðslna.
Loks ræddi Sigurður um framtíð starfsemi LK og hversu mikið eigi að vinna á hverjum tíma. Að mati Sigurðar er mikilvægt að viðhalda starfseminni á þessum umrótatímum og mögulega efla hana en töluverður tími framkvæmdastjóra fer núna í vinnu vegna umsóknar Íslands að ESB. Spurning hvað aðalfundurinn vill gera í starfsmannamálum.
Allnokkrar umræður urðu um framtíðarstarfsemi LK með tilliti til þeirra mála núna eru mest áberandi.
Guðbjörg á Læk spurði um tryggingamál kúabænda og framtíð Bjargráðasjóðs. Sigurður sagði að lítið hefði gengið að koma þeim málum áfram. Kúabændur hafi verið eina búgreinin sem vildi fara þá leið að fara úr Bjargráðasjóði og yfir í tryggingafélögin.
Sigurður formaður LK nefndi afgreiðslu búnaðarþings varðandi búnaðargjaldið, væntanlega mun stjórn LK leggja fram drög að ályktun um þau mál. Ræddi jafnframt um kostnað við sæðingastarfsemina og þá vinnu sem er í gangi milli LK og BÍ. Þá ræddi hann frumvarp til breytinga á búvörulögum, frumvarpið er nú til skoðunar hjá stjórnarþingflokkum. Eins og frumvarpið er núna þá yrði um að ræða frumvarp sem tæki á því að greiðslumarkshafar hafi forgang að innanlandsmarkaði og tilgreind sektarákvæði. Auk þess gengi frumvarpið út á að auðvelda heimavinnslu í mjólkurframleiðslunni.
Guðbjörg á Læk spurði um kynbótastarfið og tillögu sem LK lagði fyrir síðasta búnaðarþing.
Sigurður formaður LK sagði að þetta mál yrði rætt m.a. á ársfundi fagráðs í nautgriparækt sem haldinn verður 18.mars nk. á Hvanneyri.
Þórir á Selalæk ræddi um starfsleyfi fyrir nautgripabændur en tillaga var um þetta mál á síðasta búnaðarþingi. Þá spurði Þórir um hækkunarþörf á mjólkurverði til bænda.
Sigurður formaður LK sagði að mál hefðu ekki skýrst mjög mikið frá síðasta aðalfundi FKS. Nú væru komnar fyrstu tölur um áburðarverð, gengið hefur heldur styrkst og fóðurverð haldist svipað síðustu mánuði. Væntanlega sjáum við á næstu mánuðum gleggri tölur um rekstrarkostnað kúabúanna.
Guðbjörg á Læk ræddi tillögugerð til næsta aðalfundar LK; m.a. um Evrópusambandið, um mjólk utan greiðslumarks, skuldamál, verðlagningarmál, tryggingamál kúabænda, búnaðargjaldið, sæðingastarfsemina og um starfsemi LK.
Arnheiður á Guðnastöðum ræddi tillögugerð í svipuðum anda og Guðbjörg. Þörf er á að skerpa á ýmsu í starfsemi LK. Meðal annars varðandi faglegu þættina. Síðan þyrfti LK að vera enn meira leiðandi í öllum málefnum kúabænda. Varðandi skuldamálin; þar verður að athuga jafnræði fólks og kynna betur þau úrræði sem eru í boði.
Ragnar í Birtingaholti ræddi skuldamálin og nýjustu málin varðandi svínaræktina og þær afskriftir sem þar eru gerðar. Mikilvægt að efla starf LK ekki síst í ljósi þeirra verkefna sem blasa við.
Þórir á Selalæk ræddi ESB-málin og mikilvægi þess að halda áfram öflugu starfi LK þar.
Björn í Holti ræddi skuldamálin og nauðsyn þess að fá fagmenn sér til aðstoðar við skoðun einstakra pappíra.
Guðbjörg á Læk ræddi drög að breyttum samþykktum LK og um búnaðarlagasamning.
4. Tillöguvinna fyrir aðalfund LK og Bssl
Fundarmönnum skipt í þrjá vinnuhópa til að vinna áfram einstakar tillögur til að fara með inn á aðalfund LK.
Að loknum nefndarstörfum voru kynnt drög að tillögum til aðalfundar LK um búnaðargjald, búnaðarlagasamning, um réttarstöðu mjólkur innan greiðslumarks, um nautakjötsmál. Þá eru tillögur um mjólkurverðshækkun, lánamál kúabænda, starfsemi LK, um ESB-mál og Bjargráðasjóð.
Þórir formaður ræddi framgang tillagna þar til þær verða sendar til Baldurs Helga á fimmtudag.
5. Önnur mál
a.Guðbjörg á Læk nefndi opið hús á St-Ármóti á föstudaginn og hvatti fundarfólk til að mæta á staðinn.
b. Arnheiður á Guðnastöðum ræddi áburðarmál og hve seint áburðarverð eru að birtast. Slíkt er áhyggjuefni og síðan ólíðandi framkoma áburðarsala varðandi verð til einstakra aðila.
c. Jóhann í St-Hildisey nefndi íslenska kálfaduftið og aðgengi bænda að þessari vöru. Þetta er ekki núna í sölu hjá Fóðurblöndunni.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl 15.40
Runólfur Sigursveinsson