Félagsráðsfundur FKS 16. mars 2011
Fundur haldinn í félagsráði Félags kúabænda á Suðurlandi haldinn á Selfossi 16. mars 2011.
1. Fundarsetning
Formaður Þórir Jónsson Selalæk setti fund kl.11 og bauð fundarmenn velkomna og kynnti dagskrá.
2 .Fréttir af Búnaðarþingi
Guðbjörg á Læk kynnti helstu mál sem voru til umfjöllunar og snerta kúabændur sérstaklega og fór yfir vinnulag þingsins.
Sigurður Þór á Önundarhorni spurði um framtíð Hótel Sögu og aðsetur Bændasamtakanna.
Guðbjörg svaraði því til að málefni hótelanna væru í sífelldri endurskoðun.
Kjartan í Fagurhlíð ræddi niðurgreiðslu á rafhitunarkostnaði og mikilvægi þess að koma því máli áfram. Þá ræddi hann framtíð leiðbeiningaþjónustunnar og hvort eitthvað nýrra væri að frétta.
Guðbjörg á Læk svaraði því til að áfram yrði unnið að þeim málum og gat um ályktun í því sambandi.
Samúel í Bryðjuholti spurði um sæðingarstarfsemina og hvað hefði verið gert í þeim efnum á þinginu.
Katrín Birna í Ásólfsskála og Elín í Egilsstaðakoti veltu fyrir sér málafjölda sem snerta kúabændur sérstaklega og hvort þarna væru ekki mál sem ætti fyrst og fremst erindi til búgreinafélaganna. Nokkur umræða varð um tímasetningu aðalfunda búgreinafélaganna annars vegar og Búnaðarþings hins vegar.
Guðbjörg á Læk ræddi ályktun Búnaðarþings um málefni umframmjólk og sölu á inanlandsmarkaði.
Þórir á Selalæk ræddi mál sem ætti erindi inn á aðalfund LK, t.d. varðandi framkvæmd kvótamarkaðar og hvernig staðið hefur verið að þeim málum af hálfu ráðuneytis. Þau vinnubrögð eru mjög ámælisverð.
Jóhann í St-Hildisey ræddi samskipti ráðuneytis og LK varðandi ýmis mál.
Þórir á Selalæk ræddi mögulega tillögu um meðferð umframmjólkur og eins um tímasetningu Búnaðarþings og aðalfunda búgreinafélaganna.
Málin rædd vítt og breytt, sérstaklega skörun á málum sem ættu frekar erindi inn á aðalfundi búgreinafélaganna en inn á Búnaðarþing.
Andrés í Dalsseli kynnti tillögu um samráð fulltrúa bænda í verðlagsnefnd við trúnaðarmenn kúabænda áður en fulltrúar bænda bænda í verðlagsnefnd skrifa undir ákvarðanir verðlagsnefndar búvöru.
Jóhann í St-Hildisey velti fyrir sér hverjir ættu að vera trúnaðarmenn í þessu tilviki, bæði með tilliti til fulltrúa LK og BÍ.
Andrés í Dalsseli taldi eðlilegt að aðalfundafulltrúar yrðu kallaðir til, t.d. í gegnum tölvupóst.
Jóahnn í St-Hildisey sagði vinnuferli vera þannig núna að áður en fulltrúi LK samþykkir ákvörðun verðlagsnefndar er viðkomandi tillaga borin undir stjórn LK.
Elín í Egilsstaðakoti ræddi hversu seint hækkanir kæmu fram á mjólkurverði, löngu eftir að viðkomandi aðfangahækkanir koma fram. Þarna eru kúabændur að líða fyrir tímaþáttinn sem líður frá því að hækkanir verða á aðfangaverði og síðan hækkun til bænda.
Bóel Anna á Móeiðarhvoli ræddi hvaða reglur væru í gildi um tíðni funda í verðlagsnefnd og nauðsyn þess að hún kæmi oftar saman til verðákvarðana.
Jóhann í St-Hildisey taldi að verðlagsnefnd ætti að uppfæra grundvöllinn á þriggja mánaða fresti.
Jórunn á Drumboddsstöðum ræddi hvaða leiðir væru til staðar til að koma upplýsingum á framfæri til að vekja athygli á stöðu kúabænda á hverjum tíma. Er mjög þýðingarmikið fyrir okkur að koma upplýsingum á framfæri.
Jóhann í St-Hildisey ræddi upplýsingagjöf m.a. í gegnum heimasíðu LK. Aukin áhersla hefur verið á slíkt.
Katrín Birna á Ásólfsskála ræddi um málflutning t.d. ríkisútvarpsins m.t.t Evrópuumræðu, umræðan er með mjög mikla slagsíðu.
Sigurður Þór á Önundarhorni ræddi mikilvægi þess að rækta persónuleg sambönd við fjölmiðla.
Björn í Holti ræddi möguleika á að fá t.d. Hagfræðistofnun Háskólans til að reikna út afleiðingar þess t.d. að minnki framleiðsla mjólkur um 40% við inngöngu, hvað þýðir það í raun?
Guðbjörg á Læk ræddi um að leita í smiðju Norðmanna – þeir hafa reynslu frá fyrri aðildarumsókn til að koma vitrænni umræðu á framfæri.
Bóel Anna á Móeiðarhvoli ræddi ræktunarmál búgreinarinnar og velti fyrir sér hvort ætti að koma tillögu um það áfram til aðalfundar LK.
Jórunn á Drumboddsstöðum ræddi t.d. að leita í smiðju verkefnisins Inspired by Iceland varðandi kynningarmál.
Guðbjörg á Læk ræddi þörf á tillögu þess efnis að styðja ályktun Búnaðarþings varðandi Evrópumálin.
Þórir á Selalæk lagði til að loknu matarhléi yrði starfað í nefndum til að vinna að tillögugerð fyrir aðalfund LK.
3. Tillögur fyrir aðalfund LK
Eftirfarandi tillögur voru kynntar að lokinni tillögugerð:
a. Um vinnubrögð ráðuneytis um fyrirkomulag kvótamarkaðar
b. Tillaga um stuðning við ályktun Búnaðarþings um Evrópumálin
c. Gagnrýni á breytingu á fyrirkomulagi fóðureftirlits
d. Um kynningarmál búgreinarinnar
e. Um verðlagsmál og nánara samráð fulltrúa bænda í verðlagsnefnd við trúnaðarmenn sína.
f. Tillaga um skoðun á þjóðhaglegum áhrifum samdráttar matvælaframleiðslu á Íslandi í kjölfar mögulegrar inngöngu Íslands í ESB.
g. Tillaga til fagráðs í nautgriparækt varðandi skráningu skapeiginleika og mjalta.
h. Um endurskoðun á tímasetningu Búnaðarþings.
i. Tillaga sem samþykkt var á síðasta aðalfundi FKS um markaðssetningu mjólkur utan greiðslumarks.
Ákveðið að stjórn FKS fullvinni tillögurnar og komi þeim síðan áfram til LK.
4. Kynning á repju og nepjurækt til olíuvinnslu. – Ólafur Eggertsson Þorvaldseyri
Ólafur kynnti samstarf sitt við Siglingastofnun og fleiri aðila varðandi þess ræktun. Sagði að ef lífdísill væri 5% af heildarolíunotkun landsmanna þá þýddi það 15.000 tonn eða 15.000 hektarar í ræktun. Slíkt verður ekki gert nema á löngum tíma.
Fór síðan yfir uppskeruvæntingar, bæði í repjuolíu, hrati og hálmi.
Verðmæti fóðurmjölsins fer langt með að borga ræktunarkostnað á hektara miðað við verðlag á öðrum próteingjöfum. Þá er miðað við 150.000 kr/ha ræktunarkostnað.
Sáð er í júlimánuði og borinn er á um helmingur þess áburðar sem plantan þarf og síðan aftur næsta vor, seinni helminginn. Plantan kemur vel upp fyrir veturinn og þarf að ná góðri rótfestu til að draga úr líkum þess að hún drepist yfir veturinn vegna frostlyftingar jarðvegs. Greinilegt er að frjósemi landsins þarf að vera mikil og reyna ætti, til að byrja með, að prófa ræktun á slíku landi. Síðan verður framtíðin að leiða í ljós hvort hægt verði að finna afbrigði sem hægt er að sá snemma að vori og uppskera að hausti
Í tilraunverkefni bænda og Siglingastofnunar og fleiri aðila sem hófst árið 2008 var sáð fyrsta árið á 9 stöðum á landinu í júlí en uppskorið haustið 2009 á þremur stöðum, Þorvaldseyri, að Ósum á Vatnsnesi og á Möðruvöllum í Eyjafirði. Sumarið 2009 sáði Ólafur aftur í byrjun ágúst en ljóst var í mars 2010, fyrir eldgosið í Eyjafjallajökli, að of mikil frostlyfting var þá þegar orðin og plönturnar höfðu nær allar drepist.
Ólafur lagði áherslu á að ef bændur vildu skoða þessa möguleika hjá sér þá þyrftu þeir fyrst að hafa í huga að velja gott land, prófa ræktunina í smáum stíl með það að markmiði að nota uppskeruna bæði til fóðurs og eins til olíuframleiðslu, hvort sem það yrði til nota á vélar eða sem matarolía.
Vel liti út með ræktunina núna á Þorvaldseyri og svo virtist að plönturnar kæmu vel undan vetri.
Að loknu erindi Ólafs urðu miklar umræður um möguleika sem kynnu að felast í þessari ræktun og einnig um praktísk atriði varðandi val á landi, áburðargjöf og vinnslubúnað sem þarf til..
Þórir á Selaæk þakkaði Ólafi fyrir ítarlegan fyrirlestur og umræðurnar og sleit síðan fundi um kl.15.40.
Runólfur Sigursveinsson
ritaði fundargerð