Félagsráðsfundur FKS 2. mars 2017

Félagsráðsfundur Félags kúabænda á Suðurlandi 2. mars 2017, haldinn á Stóra-Ármóti
Rafn Bergsson formaður, setti fundinn kl. 11.15.
Þar sem þetta var fyrsti fundur Rafns bað hann fundarmenn að kynna sig. Á fundinum voru: Rafn Bergsson, Hólmahjáleigu, Borghildur Kristinsdóttir, Skarði, Karel Geir Sverrisson, Seli, Reynir Jónsson, Hurðarbaki, Jóhann Jensson, Fit, Magnús Árni Eyjólfsso, Eystri Pétursey, Arnór Hans Þrándarson, Þrándarholti, Ragnar Finnur Sigurðsson, Litla-Ármóti, Guðmundur Jónsson Berjanesi, Bjarni Bjarnason, Hraunkoti, Jökull Helgason, Ósabakka, Anne Hansen, Smjördölum, Samúel Unnsteinn Eyjólfsson, Bryðjuholti sem voru fulltrúar á fundinum, eins var Ásmundur Lárusson, Norðurgarði sem fulltrúi FKS á aðalfund LK boðaður til að ræða tillögur til aðalfundar.
Kosningar
Samúel tilkynnir að hann gefi ekki kost á sér áfram til ritarastarfa. Enginn gaf kost á sér en Reynir Þór Jónsson var kosinn ritari með 7 atkvæðum, Ágúst Ingi Ketilsson á Brúnastöðum fékk 3 atkvæði og aðrir færri. Þá átti að kjósa gjaldkera og gaf Borghildur Kristinsdóttir kost á sér til áframhaldandi setu og var kosin með lófaklappi.
Næst voru kosningar á aðalfund Búnaðarsambands Suðurlands, fulltrúar á fundinn verða Borghildur Kristinsdóttir (11), Rafn Bergsson (10), Reynir Jónsson (9), Karel Geir Sverrisson(6), Samúel U Eyjólfsson(5) til vara Ágúst Ingi Ketilsson(4), Anne B. Hansen (3), Bóel Anna Þórsdóttir (2), Jón Vilmundarson (2), Páll Jóhannsson (2).
Tillögur fyrir aðalfund LK
Samúel kynnti nokkrar tillögur fyrir aðalfund LK frá stjórn LK. Hann sagði frá hvernig gengi að fá félaga í LK sem gengur þokkalega, hann upplýsti fundinn um að heimilt er að gerast hollvinur LK og greiðir 4.000 kr. árgjald, svo fremi sem þú stundir ekki nautgriparækt.
Tillögur stjórnarinnar eru um aðlögun að nýju kerfi og breytingar á samþykktum LK, sem þarf að laga betur miðað við nýtt kerfi.
Tillaga um að kanna ávinning þess að nota óerfðabreytt fóður fyrir kýr, svipað og sauðfjárræktin hefur gert.
Tillaga um að upprunamerkingar og upplýsingagjöf til neytenda verði skýrari og betri eins að viðurlög verði skýr og sektarákvæði sett.
Tillaga um endurskoðun á stefnumörkun í kjöt- og mjólkurframleiðslu, sem gerð var til 2021.
Tillaga um að gæta jafnræðis varðandi innflutning og þess sem verið er að framleiða hérlendis, að innflutningur sé háður sömu framleiðslukröfum og bændur hér þurfa að lúta.
Tillaga þess efnis að fá Landbúnaðarráðuneytið til að liðka til varðandi nýtingu á jörðum í þeirra eigu. Bæði varðandi sölu á ríkisjörðum og aðra nýtingu á jörðunum.
Tillaga til um að auka kennslu og kennsluefni í nautgriparækt hjá Landbúnaðarháskóla Íslands.
Þetta er svona í meginatriðum efni tillaganna sem stjórn LK leggur fyrir aðalfund.
Umræður
Jökull Helgason, tók til máls og vill kanna möguleika á nýju tryggingafélagi sem er hagkvæmara fyrir bændur. Kynnti úttekt frá Runólfi Sigursveinssyni varðandi tryggingar og lauslega má reikna með að mjólkurframeiðendur séu að greiða 1,2 kr/ltr – 2 kr/ltr. Jökull vildi að skoðaður væri sá möguleiki að stofna tryggingasjóð/tryggingafélag fyrir bændur.
Miklar umræður sköpuðust og menn almennt tóku undir að skoða mætti þessi mál gaumgæfilega. Bændur oft ekki duglegir að sækja þær bætur í tryggingarnar sem þeim ber. BÍ á sjóð sem á að virka sem eins konar Bjargráðasjóður og spurning hvort þetta gæti unnið saman. Hagkvæmt væri fyrir bændur að greiða í sjóð sem safnast ekki upp, eftir einhver ár færð þú afslátt ef þú hefur ekki þurft að nýta þér að taka út tryggingabætur.
Umræður um byggingareglugerðir og mismun milli úttektaraðila hversu harðir þeir eru á að framfylgja kröfum. Mikill kostnaður hjá bændum við að koma upp góðu brunavarnakerfi sem kemur svo ekki til lækkunar á tryggingum, eins og víða er erlendis. Guðmundur Hallgrímsson var með úttekt á búum varðandi ýmsa öryggis- og brunavarnaþætti en þátttaka bænda var dræm. Það mætti líka skoða útboð í tryggingar hjá tryggingafélögum, sem væri á landsvísu.
Ragnar vildi að félagsgjaldið væri tengt þeim greiðslum sem fengjust beingreiðslur út á, en ekki heildarinnlegginu, hvort sem það er mjólkurframleiðsla eða nautakjötsframleiðsla.
Umræður um félagsgjaldið til LK, kostnaður við aðalfund og haustfund. Ljóst er að skera þarf niður í þessum kostnaðarliðum, þó ekki þannig að þeir bændur sem taka að sér trúnaðarstörf skaðist á því.
Önnur mál
Umræður um reglugerð varðandi lífræna framleiðslu, fiskimjöl er orðin bannvara, skoða þarf af hverju. Fiskimjöl var á undanþágu en er það ekki lengur.
Rafn minntist á hvort eitthvað væri að gerast með biðlista hjá sláturhúsum á gripum í slátrun. Misjafnt milli sláturleyfishafa hversu langur listinn er, umræður, misjafnt hvernig þetta er milli sláturhúsa.
Reynir vildi ræða Huppuforritið, það er svo mikið lokað fyrir bændur. Ekki hægt að skoða afkvæmin sem til eru undan ákveðnum nautum, vildi skoðað þetta varðandi gerð gripa. Af hverju er Huppa ekki eins opin og Worldfengur.
Magnús vildi gera smáforrit frekar en að að aðlaga Huppu að farsíma.
Rætt var um ræktun nautgripa sem er í mikilli framför og bændur merkja gæði gripa að aukast. Það þarf að hlusta á ræktendur varðandi nautsmæður því oft þarf að taka meira tillit til geðslags. Þá er líka nauðsynlegt að bændur láti vita ef upp koma gallar í nautsmæðrum, sem ekki eru sýnilegir í fyrstu.
Arnór ræddi um erfðabreytt fóður en bændur ættu ekki að óttast þetta svona mikið í þessu samhengi er þessi breyting óveruleg og skiptir ekki máli. Það eru fleiri kostir en gallar sem fylgja þessu.

Tillögur frá félagsráðsfundi

Tillaga 1 frá Félagi kúabænda á Suðurlandi til aðalfundar LK 2017
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24.-25. mars 2017, beinir því til stjórnar LK að fara yfir tryggingamál bænda. Möguleikar að stofna nýtt tryggingafélag fyrir kúabændur, ef það gengur ekki að stuðla að sameiginlegu útboði fyrir kúabændur.
Greinargerð:
Minnisblað frá Runólfi Sigursveinssyni, fagstjóra rekstrar hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, febrúar 2017.
Við lauslega skoðun á allnokkrum ársreikningum vegna ársins 2016 og að hluta vegna ársins 2015 virðist tryggingarpakki búanna eins og hann er skráður í bókhaldi viðkomandi búa – liggja á milli 1,2 kr/ltr – 2 kr/ltr á framleiðslumagn búanna í mjólk.
Þannig mætti álíta að kostnaður vegna þessa þáttar væri á ári, miðað við 150 milljón lítra framleiðslu í heild, væri á bilinu 180 milljónir króna og upp í um 300 milljónir, meðaltalið á þeim búum sem skoðuð voru sérstaklega var 1,5 kr/ltr sem samsvarar um 225 milljónum króna á ári.
Inni í þessum tölum eru væntanlega fasteignatryggingar, brunatryggingar, trygging bústofns og slysatryggingar, oftar en ekki eru tryggingar véla og tækja færðar með rekstrarkostnaði vélanna, (kostnaður vegna búvéla).
Tillaga 2 frá Félagi kúabænda á Suðurlandi til aðalfundar LK 2017
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24.-25. mars 2017, beinir því til forritara Huppu að einfalda forritið og gera það auðveldara í notkun fyrir bændur. Í dag er forritið of þungt í vöfum og lengi að vinna, forritið er ekki farsímavænt. Kanna þarf möguleika á að búa til smáforrit, þar sem hægt er að skrá/sækja helstu upplýsingar.
Tillaga 3 frá Félagi kúabænda á Suðurlandi til aðalfundar LK 2017
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24.-25. mars 2017, beinir því til forritara Huppu að opna á fleiri möguleika og gera það líkara því sem hægt er að skoða um gripi í Worldfeng. Til dæmis til að skoða afkvæmahópa og tengja forritið betur við nautaval.
Rafn sleit fundi kl. 14.14
Fundarritari félagsráðsfundar Helga Sigurðardóttir


back to top