Félagsráðsfundur FKS 22. nóvember 2018
Félagsráðsfundur Félags kúabænda á Suðurlandi, haldinn í sal MS á Selfossi 22. nóvember 2018. Rafn Bergsson formaður setti fundinn kl. 11.10 og stjórnar fundi. Gestir fundarins eru Finnbogi Magnússon og Grétar Hrafn Harðarson frá Jötunn, þeirra innlegg er um innlenda fóðuröflun, hvernig getum við aukið hana og minnkað plastnotkun í landbúnaði.
Grétar Hrafn byrjaði á að fara aðeins yfir fóðrun kúa og íslenskan landbúnað. Síðustu ár hefur verið mikil afurðaaukning, vegna kynbóta og bætts aðbúnaðar og fóðrunar. Eins hefur kjarnfóðurnotkun aukist og orðið markvissari, sem fylgir aukningu í mjaltaþjónum á búum. Það er betra að hafa færri kýr og nýta þær vel. Kjarnfóðurgjöf er mikil og má áætla að meira en helmingur af mjólkinni sé framleidd af innfluttu kjarnfóðri. Er þetta ásættanlegt? Heimaaflað bygg er ekki nema lítill hluti af kjarnfóðurnokun. Íslensk kornrækt var mest 2011 þá um 5.000 ha en er í dag um 2.500 ha og uppskeran í dag um 7.000 tonn en var 2011 um 15.000 tonn.
Ástæða minni kornræktar má m.a. rekja til gengis krónunnar og veðurfarið hefur líka spilað inn í og ágangur fugla.
Framundan gæti þó verið blikur á lofti þar sem krónan er að veikjast og ný tækni við uppskeru korns er að ryðja sér til rúms, en það eru múgsaxarar með reytiborði. Sýnt var myndband af tækinu í notkun.
Jóhann Nikulásson, sagði frá heimsókn og fyrirlestri sem hann fór á um svona múgsaxara og mælti með þessu fyrir íslenskar aðstæður. Með þessu tæki væri hægt að uppskera mun fyrr og það væri bara gott að hafa hálmstubbana með til að auka fjölbreytileika fóðurs.
Umræður um fóðrið og hálminn, fjölbreyttara fóður sem er af hinu góða og möguleiki á að skjólsá með. Hálmurinn minni en gæði hans mögulega betri, hann er tilbúinn fyrr til notkunar.
Grétar talaði um að til að ná aukinni fjölbreytni í fóðuröflun þá er heilfóðrun lykillinn. Þá þurfum við að skoða annan kost í hönnun fjósa til að fóðurnýting verði sem best. Hópaskipting á kúm í fjósinu eftir því hvar á mjaltaskeiðinu þær eru, væri hægt að hafa a.m.k. 4 fóðurgerðir eftir því hvað þær þurfa. Grétar sýndi dæmi af fjósi sem hægt er að skipta niður í fóðurhópa.
Finnbogi kynnti lausn sem hann er að skoða og spurningin er: Eru turnar lausnin við plastvandamálinu? Turnar hafa breyst í áranna rás og sérstaklega eftir að þriggja fasa rafmagn komst á. Umræðan um plastnotkun er mikil í samfélaginu. Bændur vilja segjast vera umhverfissinnaðir, en hversu langt nær það? Litaða plastið sem allir sjá er það sem sker í augun og verra til endurvinnslu. Ef það þarf að nota plast þá ætti að nota eingöngu hvítt.
Finnbogi er í samstarfi við byggingaaðila á turnum í Kanada til að fá upplýsingar um mótagerð og kostnað við turnbyggingar.
Ýmsar leiðir til að minnka plastnotkun:
Pylsuvélar, sem pakka í eina pylsu og 15-30% minni plastnotkun, ekki hagkvæmt að hafa túnin mjög langt í burtu. Vélin pakkar heim við bæ þar sem pylsusamstæðan á að vera. Þarf að vera net.
Bjúgnagerð sparar um 50-60% er með plastsmokk sem heyinu er troðið í og sparar um 50-60% plast og fyllt á vélina með heyhleðslutæki eða múgsaxara, sleppum við net og sveigjanleikinn er mikill. Óhentugt þar sem langt er út á tún. Fóðrun getur verið slæm sérstaklega að vetri til, líkist flatgryfju.
Flatgryfjur/stæður spara 80-90% plast, mikil afköst og þarf að vanda sig við frágang svo fóðrið verði gott. Ef ræktunarland er langt í burtu þá þarf meiri tæki. Vetrargjöf getur verið snúin.
Turnar gömul tækni, plastnotkun næstum engin aðeins dúkur efst. Fóðurtap í turni er minna en í rúllum. Mikil afköst við heyskap ef afköst við heimkeyrslu eru nægjanleg. Turnar geta þó ekki alveg komið í stað rúllubagga. Gjafatækni auðveld mikil sjálfvirkni við tæmingu og hægt að tengja beint við sjálfvirk gjafakerfi. Rakastig fóðurs líkara því sem við erum með í rúllum en flatgryfjum.
Fjármögnun framkvæmda, breyting á heyskapartækni mun þýða mikinn kostnað fyrir bændur og ekki óeðlilegt að stjórnvöld komi að slíku viðbótarfjármagni. Miðað við umræðuna í dag er líklegt að auka gjöld verði sett á rúlluplast á næstu árum og mun það hækka verð verulega.
Tillaga Finnboga:
Ef lagt verður 2.000 kr. „mengunargjald“ til viðbótar á hvert kefli þýðir það gjaldtöku fyrir á bilinu 140-160 milljónir króna
Ef ríkið leggur annað eins á móti væri kominn sjóður með ca.300 milljónum árlega sem væri hægt að nota til stuðnings við framleiðendur.
Þessi sjóður yrði notaður til að styrkja ráðstafanir sem draga úr plastnotkun bænda með framlagi upp á 30-40% af stofnkostnaði.
Dæmi um slíkar framkvæmdir væri bygging turna og flatgryfja og notkun pylsu og bjúgnagerðarvéla.
Í dag vantar einhverja þróunarvinnu og styrk til að vinna að verkefni varðandi mótavinnu og annan kostnað við gerð turna. Hér á landi er steypa mjög dýr og ýmsir kostnaðarliðir sem þarf að skoða.
Jóhann var ánægður með erindin og hvatti til að Jötunn vélar stæði fyrir opnum fundi um þessi mál.
Næst var þá almennur fundur í félagsráði og fundarmenn voru: Rafn Bergsson, Hólmahjáleigu, Borghildur Kristinsdóttir, Skarði, Ágúst Ingi Ketilsson, Brúnastöðum, Jón Vilmundarson, Skeiðháholti, Bjarni Bjarnason, Hraunkoti, Magnús Örn Sigurjónsson, Eystri Pétursey, Sævar Einarsson Stíflu, Anne B. Hansen, Smjördölum, Samúel U. Eyjólfsson, Bryðjuholti, Karel Geir Sverrisson, Seli, Jóhann Nikulásson, Stóru-Hildisey 2 og Reynir Jónsson, Hurðarbaki, alls 12 fulltrúar.
Rafn hóf umræðu um hvort fara ætti í samþykktarbreytingar um það hvort að fólk verði að vera í LK ef það ætlar að vera í FKS. Hversu lengi á að bíða með þetta og hvað eigum við að gera?
Jóhann vildi hinkra með þessa breytingu og við stöndum frammi fyrir því að stokka upp félagskerfið alveg. Hann er í nefnd sem kemur með tillögu á næsta Búnaðarþing og menn verða að komast að samkomulagi um þetta, mál.
Miklar umræður voru um þetta og félagskerfið almennt. Hver er tilgangurinn með þessum félögum og af hverju erum við að borga í öll þessi félög t.d. Búnaðarsambandið og Búnaðarfélögin, sem eru orðin að mestu tækjaleigur. Það þarf nauðsynlega að finna rétta módelið sem flestir geta sætt sig við og félögin/bændur vinni saman sem ein heild, öflugar héraðamiðstöðvar sem þjónusta bændur.
Samþykkt var að bíða með breytingar fram yfir næsta Búnaðarþing 2020, til að þurfa ekki mögulega að breyta þessu aftur þá.
Rafn, varðandi félagsgjaldið væri gott að samræma það félagsgjaldi LK, þannig að gjaldið sé eitt gjald á bú. Er núna ígildi 50 kr/l á félaga, en mætti hækka í 75 kr/l. Þá gætum við fengið fleiri tengiliði við búin og aukinn fulltrúafjölda á aðalfund LK.
Eitt gjald fyrir búið ca. 100 kr/l og fá þá fleiri inn í LK ná að samræma, fundurinn var samhljóma um þetta. Stjórnin komi með tillögu á aðalfund.
Önnur mál:
Reynir telur að skoða þurfi álagsgreiðslur á nautakjöt sem í dag miðast við 250 kg og yngri en 30 mánaða. Telur að þarna séum við ekki að stuðla að betra kjöti og þetta þarfnist breytinga.
Samúel upplýsti að stjórn LK hefur ákvörðunarrétt um hver viðmiðunin er, 250 kg er vegna þess að kjötvinnslurnar vilja hafa gripina stærri og hugsunin var að hafa þetta einfalt kerfi.
Umræður um að ungum góðum nautum er verið að slátra áður en þau ná 250 kg og þá fá bændur ekki nóg fyrir þau. Hugsa þarf kerfið upp á nýtt og mögulega nýta flokkunarkerfið betur. Tillaga búin til sem stjórn mun svo betrumbæta:
Félagsráðsfundur vill koma þeirri tillögu til stjórnar LK að endurskoða álagsgreiðslur sem í dag miðast við 250 kg á UN grip allt að 30 mánaða. Fundurinn vill endurskoða þessa reglur um álagsgreiðslur og verði bundnar við aldur gripsins og að greinarmunur sé gerður á því hvort um graðnaut, uxa eða kvígu.
Anne, stefnumótun LK hvar er verkefnið statt í dag?
Stefnumótun er í vinnslu og eftir haustfundina voru fleiri atriði tekin inn í vinnuferlið, en næsta mál er að gefa þetta út. Félagsráði verður ekki leyft að lesa þetta yfir áður en þetta er gefið út.
Jóhann byrjaði umræðu um kosningar um kvótakerfið, hvernig staðið er að upplýsingum varðandi það. Vinna sú sem Háskólinn á Akureyri er að vinna fyrir LK og BÍ er hún nógu upplýsandi fyrir bændur. Greining á viðskiptamódelum fyrir kvóta er það sú kosningarvinna sem skilar sér til bænda?
Miklar umræður urðu um komandi kosningu um greiðslumark eða ekki greiðslumark sem í framhaldinu fór yfir í stöðu mjólkurframleiðslunnar vítt og breytt.
Fundi slitið kl. 15.10
Fundarritari Helga Sigurðardóttir.