Félagsráðsfundur FKS 28. ágúst 2003
FUNDUR Í FÉLAGSRÁÐI FÉLAGS KÚABÆNDA Á SUÐURLANDI, HALDINN AÐ HLÍÐARENDA HVOLSVELLI 28. ÁGÚST 2003
1. FUNDARSETNING
Sigurður Loftsson setti fund kl. 21.00 og bauð hann fundarmenn velkomna og þá sérstaklega Snorra Sigurðsson framkvæmdastjóra LK.
2. EINSTAKLINGSMERKINGAR NAUTGRIPA
Snorri kynnti stöðu málsins. Skyldumerking er staðreynd frá 1. september 2003.
Á fundi með ráðamönnum Landbúnaðaráðuneytis var gengið frá munnlegu samkomulagi að það myndi kosta rekstur kerfisins fyrstu þrjú árin. Varðandi endurmerkingar má ætla að þær gætu orðið að jafnaði 3 til 5% miðað við reynslu erlendis frá.
Til að byrja með verður hægt að fá merki vegna þessa án raðnúmers gripsins en umráðamaður verður að skrifa á merkið númer viðkomandi grips. Þetta fyrirkomulag hefur hlotið samþykki yfirdýralæknis. Um þátttöku sláturhúsanna varðandi vinnu við aflestur merkjanna er ekki vitað en lögð er áhersla á að ekki komi til aukakostnaðar fyrir bændur vegna þessa þáttar.
Yfirdýralæknisembættið mun sinna eftirlitshlutverki við merkingakerfið heima á búunum og samkvæmt upplýsingum frá landbúnaðaráðuneytinu mun ekki koma til aukakostnaðar vegna þessa þáttar. Hins vegar ef í ljós kemur að reglur hafi verið brotnar þá mun viðkomandi bera allan kostnað af eftirliti.
Varðandi sölu búpenings á fæti þá verður það þannig útfært fram til 31.12.2004, að kaupandi gripanna mun setja númer í viðkomandi grip. Eftir 1. janúar 2005 fylgir upprunamerki frá seljanda. Skráning getur bæði orðið á Netinu og handskráð.
Snorri kvaðst viðurkenna að tölur yfir kostnað við þetta kerfi hefðu komið seint inn.
Verðið í dag er í raun áætlun. En kostnaður við kerfið og fjármunir sem fara í verkefnið verða alveg aðgreindir og ekki notaðir í annað.
Kostnaður við merki verður kr. 240 til 280 fyrir bændur.
Sigurlaug Nýjabæ sagði fyrst hafa verið talað um 40 krónur svo hlutir hefðu hækkað mikið síðan fyrst var rætt um þessa hluti. Henni fannst málið illa kynnt. En hins vegar væri enginn að kalla eftir þessu og kostnaður væri of mikill. Hún kvaðst hins vegar sjálf hafa samþykkt að taka þátt í þessu á aðalfundi LK.
Grétar í Þórisholti sagði kostnað við þetta töluverðan og honum yrði væntanlega ekki velt yfir til neytenda frekar en öðru.
Snorri sagði einfaldlega gerðar kröfur til þessara hluta í dag. T.d. til að halda í útflutningsleyfi og slíkt. ESB gerir kröfu um þetta og jafnvel Ameríkumarkaður einnig.
Hann taldi af og frá að bakka út nú. Kerfið héldi hins vegar utan um allan kostnað og hann taldi að hann myndi lækka þegar frammí sækti. Einnig fengist með þessu öflugur gagnagrunnur.
Birna á Reykjum sagði ekki hægt að gera stórt mál úr þessum kostnaði. Hann væri ekki sligandi. Menn keyptu sér mjólkurkvóta fyrir milljónir en sæju síðan ofsjónum yfir 5000 til 7000 krónum í merki á ári.
Sigurður sagðist ekki efast um að nautgripabændur væru að gera hlutina eins vel og þeir gætu, en það væri því miður ekki nóg. Þeir þyrftu að sanna það.
Sigurlaug í Nýjabæ sagðist vera leið yfir að stöðugt væri horft yfir yfir öxlina á sér af mörgum aðilum. Forræðishyggjan væri nóg fyrir.
Sigrún Ásta kvaðst ekki skilja þessa umræðu. Menn hefðu beðið um þetta sjálfir og henni fyndist þetta sjálfsagt mál.
Runólfur taldi kynningu áfátt. Forvinnan var því miður sein og of margir lausir endar enn.
Snorri kvaðst taka undir það. LK hefði viljað prufukeyra þetta mun fyrr, en það hefði því miður ekki tekist.
3. BÚVÖRUSAMNINGAR
Egill á Berustöðum sagði vinnu hafa að mestu legið niðri í sumar. Nú í september. verður úrslitastund varðandi gang WTO viðræðna. Ef hlutir verða negldir niður þar mun það hafa áhrif á samningsviðræður.
Mjög mikið atriði er nú hvernig umhverfi og sölufyrirkomulag mjólkurafurða verður næstu mánuði.
Einnig yrði að hugsa upp kerfi, ef mönnum verður stillt þannig upp við vegg að stuðningur verði í öðru formi en nú.
Egill sagði umræðu um kvótaverð og kvóta pirra suma. LK hefði hins vegar og aðalfundir lagt áherslu á að hann yrði áfram. Hins vegar væru ekki allir hressir með ummæli Guðna ráðherra og einnig er formaður Bændasamtakanna tók undir þau (varðandi kvótaviðskipti). Tímarammi varðandi samning er þröngur og hann yrði í raun að liggja fyrir er kæmi að næsta Búnaðarþingi.
Snorri sagði líkur á ekki væri hægt að nota núverandi kerfi óbreytt. Samt væri búgreinin sú sem gengi einna best, kerfið afar gegnsætt og hefði sýnt sig að virka. Hátt kvótaverð er að trufla samningagerð. Það truflar áhrifamenn. Hann taldi nauðsynlegt að leggja af landshlutapot i kvótaviðskiptum.
Oft væri sagt að hlutir væru svona eða hinsegin innan ESB. Þess vegna yrðu þeir að vera svo einnig hérlendis. Snorri sagði hins vegar við nánari eftirgrennslan hlutina oft breytilega milli landa. Þetta ættu Íslendingar einnig að gera. Engin ástæða væri til að gleypa hluti hráa. Stjórnmálamenn segðu jafnvel að stefna ESB í landbúnaðarmálum væri stefnumarkandi fyrir Ísland. Síðan er þessi stefna væri skoðuð kæmi í ljós mikill sveigjanleiki.
4. SÖLUMÁL MJÓLKUR OG KJÖTS
Snorri sagði enn samdrátt í sölu á drykkjarmjólk. Jafnvel meiri nú í sumar en áður.
Nýjar bragðtegundir í skyri hefðu hins vegar slegið í gegn. Nýtt markaðsátak er í undirbúningi hjá markaðsnefnd. Verkefni hennar er einungis drykkjarmjólk, rjómi og súrmjólk.
Staðan í kjötmálum er slæm. Hann tók sem dæmi kílóverð uppá kr.949 á kýrhakki og kr.1279 nautahakki.Verð á svínahakki hefði verið í sömu verslun hins vegar 399 kr/kg. Snorri kvaðst alveg skilja fólk að velja frekar svínahakkið, þegar verðmunur er þvílíkur. Allir vissu hins vegar að verðlag svínaafurða væri langt undir raunkostnaði þessa mánuði.
Ekki er löng bið eftir slátrun á ungneytum á öðrum svæðum en á Suðurlandi.
Rædd erfið staða á kjötmarkaði frá ýmsum hliðum
5. ÖNNUR MÁL
Birna á Reykjum minntist á Fjársýslu ríkisins og að jafnvel væri tekið af beingreiðslum þó reikningar væru ekki komnir á eindaga.
Sigurlaug minntist á kvíguskoðun. Óánægð með hvað dregist hefur að skoða á bæjum.
Komið inná mikinn heyskap. Grétar í Þórisholti kvaðst leiður á að ráðunautar væru að tala um henda heyi.
Runólfur kvað þá aðeins vera að segja frá hve dýrt væri að setja plast á hey, sem vitað væri að enginn gæti nýtt. Orð hans hefðu einnig verið slitin úr samhengi af fjölmiðlum, en hann kvaðst mótmæla því að þessi orð hefðu skaðað bændur á einhvern hátt.
Daníel í Akbraut kvaðst hissa hve mjólkursöluleyfi og athugasemdir skiluðu sér seint til framleiðenda.
Fundi slitið kl. 01.00
Valdimar Guðjónsson,
fundarritari