Félagsráðsfundur FKS 29. sept. 2009

Fundur félagsráðs Félags kúabænda á Suðurlandi
29.sept 2009 kl 20.30 haldinn í Árhúsum Hellu



1. Fundarsetning
Þórir Jónsson formaður setti fund og bauð fundarmenn velkomna, gengið var til fyrirliggjandi dagskrár.


2. Mjólkurframleiðslan, staðan í dag – Egill Sigurðsson stjórnarformaður Auðhumlu
Egill á Berustöðum sagði frá metinnvigtun sl. verðlagsár eða 126,3 milljónir lítra. Greiddar voru 40 kr/l fyrir umframmjólk, sú ákvörðun var tekin sl. haust og þá voru aðrar aðstæður á mörkuðum en hafa verið síðustu mánuði. Á haustfundi  Auðhumlu verður væntanlega rætt um verð fyrir umframmjólk á þessu verðlagsári. Salan hefur verið þokkaleg á innanlandsmarkaði, 118 milljónir á próteingrunni og um 115 milljónir á fitugrunni. Hins vegar færist salan meira á ódýrari vöruflokka. Afkoma fyrstu 8 mánuði ársins er heldur undir væntingum, tapið á útflutningi meira en reiknað var með, umbúðakostnaður mun meiri en reiknað var með í áætlunum vegna gengisstöðu íslensku krónunnar og loks færsla á sölu úr framlegðarhærri vörum yfir í ódýrari vörur.
Töluverðar fjárfestingar eru í tæknibúnaði, helst varðandi G-vöruflokkinn.
Egill ræddi nánar útflutningsmálin, verðákvörðun mun bíða um sinn vegna óvissu um markaðsaðstæður. Bandaríkjamarkaður tekur við um 110 tonnum sem er mun minna en reiknað var með. Endurskipulagning stendur yfir varðandi útflutningsmálin og beint samband verður milli söludeildar MS og WholeFoods verslananna. Söludeild MS mun sjá um öll útflutningsmál á næstu misserum.
Fram kom í máli Egils að á fulltrúafundi í haust verði ræddar  m.a. leiðir til að lækka kostnað við flutning mjólkur frá bændum, hvort hægt er að hagræða enn frekar í þeim þætti. Auk þess yrðu rædd á fulltrúafundi ýmis skipulagsmál mjólkurvinnslunnar. 
Að lokum sagði Egill að sitt mat væri að ýmis sóknarfæri lægu í stöðunni þó svo  óvissan væri mikil almennt í samfélaginu.
Þórir á Selalæk spurði um úttekt á flutningi mjólkur frá bændum til mjólkurbúa, Egill sagði að reiknað væri með að úttekt yrði lokið fyrir fulltrúafund í haust.
Ómar í Lambhaga lagði til að fara yrði varlega í að ákvarða verð á umframmjólk, betra hefði verið að endurskoða ákvörðun á liðnu verðlagsári m.t.t. breytinga á markaðsaðstæðum.
Egill sagði að vissulega hefði þetta komið til umræðu innan stjórnar en hún hefði metið það svo að ekki hefði ásættanlegt að breyta upphaflegu ákvörðun um 40 kr/l.
Jóhann í St-Hildisey ræddi um hvort yrði gæðamunur á mjólk ef farið yrði í að leggja áherslu á þriggja daga mjólk.
Egill sagði að þessi þáttur yrði skoðaður í úttektinni.
Jóhann í St-Hildisey ræddi einnig um breytingu á búvörulögum m.t.t. hvaða möguleikar eru á að ná henni fram í ljósi orða m.a. Ólafs í Mjólku og landbúnaðarráðherra í fjölmiðlum.
Samúel í Bryðjuholti ræddi stöðu Mjólku og hvort framhald yrði á viðskiptum við þá aðila sem eru með þann rekstur núna.
Egill svaraði því að hann reiknað með því, að því tilskyldu að fyrirtækið stæði í skilum varðandi greiðslur.
Jóhann í St-Hildisey spurði um þróun í vinnslu mjólkurdufts. Egill sagði að verið væri að vinna í þeim málum á Selfossi.
Elín í Egilsstaðakoti ræddi samskipti og samkeppni í þessum geira og eins nauðsyn þess að svara ákveðnum atriðum sem hafa komið fram í fjölmiðlum  á síðustu vikum.
Egill hvatti til að einstakir bændur  létu í sér heyra um þessi mál. Slíkt væri ávallt sterkt.


3. Af vettvangi Landssambands kúabænda –  Baldur Helgi Benjamínsson og Sigurður Loftsson
Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri LK ræddi fyrst heimsíðu LK, www.naut.is – Ástæða er til að vera á varðbergi um að setja á síðuna reglulega efni til að halda síðunni lifandi. Hvatti einnig bændur til að nýta sér spjallborðið sem er misvirkt.
Þá ræddi Baldur Helgi fóðurtryggingar bænda og þá vinnu sem þarf að eiga sér stað varðandi endurnýjun texta í skilmálum tryggingafélaganna.
Baldur Helgi  ræddi nautakjötsmál, verð hefur verið að mestu óbreytt  frá því mars 2008. Mikið framboð á svínakjöti og hátt hlutfall kindakjöts fer á erlendan markað. Mjög versnandi afkoma er í nautaeldinu vegna aðfangahækkana, heldur minni ásetningur um 2,2% samdráttur fyrstu 8 mánuði ársins 2009 miðað við sömu mánuði 2008. Búið að ræða við helstu sláturleyfishafa í nautakjöti.  Lítilsháttar samdráttur í sölu síðustu 12 mánuði, hakkið selst vel en erfiðar að eiga við dýrari vöðva, þó ekki lundir.
Þórir á Selalæk velti fyrir sér framleiðslukostnaði, kr/kg kjöts, hvort ástæða væri til að birta viðmiðunarverð samanber fréttir af málefnum svínabænda þar sem sagt er frá að svínabændur væru að selja kjötið undir framleiðslukostnaði.
Þá sagði Baldur Helgi  frá ársfundi  IDM sem hann sótti nýlega. Mikil óánægja er hjá evrópskum kúabændum vegna lágs verðs og framleiðslan núna síðustu mánuði rekin með miklu tapi. Hins vegar eru langtímahorfur góðar í sölu mjólkurvara. ESB mun halda sig við að kvótakerfi í mjólkurframleiðslu verði aflagt frá og með árinu 2015 og markaðurinn muni að mestu ráða frá þeim tíma.
Baldur Helgi ræddi stöðuna á kjarnfóðurmarkaðnum. Fóðurfyrirtækin eru mjög skuldsett og vel má færa rök fyrir því að verðið á kjarnfóðrinu tengist að hluta ákvörðun verðlagsnefndar á hverjum tíma.
Verð á kjarnfóðri til bænda í Danmörku er 34-38 kr/ísl  (Dkr 24,44). 
Loks ræddi Baldur Helgi tillögur starfshóps um gæðamál mjólkur og flokkun. Tillögurnar snúa að því að verðskerðingin verði á vikugrunni í stað mánaðarinnleggs, á sama hátt varðandi lyfjaleifar.  Verðskerðing vegna  frjálsra fitusýra tekin upp 1.janúar 2011. Mörk við 1.flokk verði við >1,1 mmól/l falli mjólkin í 2.flokk og í 3.flokk þegar niðurstöður eru hærri en 1,8 mmól/l. Verðskerðingar verði 5% vegna 2.flokks og 15% vegna 3.flokks.  Loks fela tillögur starfhópsins í sér að gæðabónus á mjólk til bænda taki mið af verðþróun mjólkur á hverjum tíma.
Sigurður Loftsson formaður LK ræddi umsókn Íslands að ESB og sagði frá þeirri vinnu sem LK og SAM ákváðu að sinna sameiginlega varðandi umsóknina. Þórólfur Sveinsson var fenginn til að sinna þessu starfi sérstaklega. Unnin var umsögn til utanríkismálanefndar í sumar og mætt á fund utanríkisnefndar. Álit LK og SAM var að hafna bæri þingsályktunartillögunni. Verkferli og vinnulag  hjá stjórnvöldum er töluvert annað en ætla mátti út frá áliti utanríkismálanefndar. Jafnframt gagnrýndi formaður LK það að spurningalistar væru ekki á þjóðtungu þess lands sem sækir um aðild. Sumar spurningar eru pólitískar í eðli sínu og snúa síðan að ýmsum öðrum sviðum, eins og um byggðamál. Væntanlega verður skipuð samninganefnd þegar ráðherraráð ESB hefur samþykkt að ganga til viðræðna við íslendinga. Loks þarf að velta fyrir sér áhrifum þess ef sameina á landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið við iðnaðarráðuneytið  en það er ákvæði um slíkt í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar.
Þá ræddi Sigurður núgildandi ákvæði um verðlagsár, þ.e. að þetta verðlagsár er 16 mánuðir, fram til áramóta 2010/2011. Einnig gat Sigurður um breytingar á C-greiðslum samkvæmt núgildandi reglugerð.
Þá ræddi Sigurður verðlagsmál, heildsöluverð hækkaði um 4,47% 1.ágúst, í þessum áfanga náðist að leiðrétta ca. 40% af áætlaðri framlegðarskekkju drykkjarmjólkur, móti lækkaði rjómi lítillega. Verðlagsgrunnur kúabús (1.júní 2009) sýndi hækkunarþörf upp á 1,45% án leiðréttra fjármagnsliða, hefði sá liður komið inn þá hefði hækkunarþörfin verið 3-4%. Vaxtaliðurinn hefur lækkað umtalsvert frá síðasta hausti. Hækkunarþörfin 1.sept verður væntanlega þó nokkur, m.a. vegna hækkunar á kjarnfóðri og plasti. Verðlagsgrunnur ekki enn tilbúinn vegna 1.september. Mikilvægt er að hafa nýjar upplýsingar um afkomuþróun greinarinnar, m.a. að láta af hendi bókhaldsgögn til úrvinnslu í BÍ.
Einnig ræddi Sigurður vinnulag við skiptingu  markaðstekna milli bænda og iðnaðarins. Spurning hvort verðákvörðun verði eingöngu á heildsölustigi og síðan skipti menn með sér kökunni.
Sigurður ræddi breytingar á búvörulögum sem ætlunin er að reyna að ná í gegn nú á haustþingi. LK mun leggja mikla áherslu á þetta mál á næstu vikum. Einnig hafa málefni heimavinnslu mjólkurafurða komið á borð stjórnar LK. Þar vantar upplýsingar um framleiðslumagn frá framleiðendum. Vilji er til þess hjá flestum þessara framleiðenda að gera slíkt en jafnframt vilja þessir aðilar einnig skoða möguleika á að  þessi framleiðsla verði utan greiðslumarks.
Framundan eru haustfundir LK. Fyrsti fundur og þá með ráðherra verður haldinn í  Eyjafirði þann 15.október.
Sigurður ræddi loks stuttlega útivist nautgripa og hvernig þau mál þróuðust síðasta sumar. Búið er að funda með forstjóra Matvælastofnunar og Þorsteini Ólafssyni um þessi mál.
Egill á Berustöðum ræddi um skiptingu markaðstekna milli iðnaðarins og bænda. Hlutfall framleiðenda í markaðstekjum hefur hækkað síðustu ár.
Bóel á Móeiðarhvoli spurði Baldur um tryggingamál á korni.
Baldur Helgi sagði að þar lægi grunnurinn að þeirri vinnu sem verið væri að fara fram á við tryggingafélögin og þau myndu endurkoða þennan þátt.
Samúel í Bryðjuholti spurði um hvað hefði gerst varðandi ályktun frá síðasta aðalfundi LK um kostnað við merkingar.
Sigurður Loftsson gat um að í samkomulagi á breytingu á búvörusamningi sl. vor var ákveðið að færa ekki meira í óframleiðslutengdan stuðning næstu tvö ár og því hefði t.d. ekki komið eingreiðsla núna í september, líkt og var síðustu ár.
Samúel í Bryðjuholti spurði um ályktanir LK og Búnaðarþings varðandi lækkun búnaðargjalds.
Sigurður Loftsson sagði að á fundi formanna búgreinafélaga og formanna búnaðarsambanda í byrjun september hefði komið fram í máli BÍ að verulegra skerðingar væri að vænta í framlögum úr búnaðarlagasamningi þannig að starfsfé BÍ og búnaðarsambandanna skerðist næsta ár. Forsvarsmenn BÍ lögðu til að fresta vinnu við að lækka búnaðargjald um sinn. Málið væntanlega rætt á næsta Búnaðarþingi.
Ólafur í Geirakoti velti fyrir sér hversu langt aðildarsinnar ESB ætli sér að ganga í að þvinga þjóðina inn í ESB.


4. Fjárhagsstaða kúabænda
Runólfur Sigursveinsson sagði frá því helsta sem væri í gangi varðandi úrræði vegna greiðsluerfiðleika. Bankarnir hafa undanfarið farið þá leiðir að bjóða fólki að fresta ákveðnum greiðslum vegna erlendra lána og/eða greiða ákveðna upphæð á mánuði sem væri þá lægri upphæð en ef full greiðsla, vaxta og afborgana.
Bændum stendur til boða eins og einstaklingum úrræði samkvæmt greiðslujöfnun, bæði gagnvart verðtryggðum innlendum lánum og erlendum lánum. Varðandi erlendu lánin þá væri miðað við greiðslur eins og þær voru í maí 2008 og tekið síðan tilllit til greiðslujöfnunarvísitölu sem byggist annars vegar á launavísitölu og hins vegar atvinnustigi.
Þá er í undirbúningi ákveðin aðferðafræði af hálfu Kaupþings til að leysa skuldamál til lengri tíma. Farið er að prófa þá aðferð gagnvart einstökum búum og þar er meginforsenda hvert er raunverulegt greiðsluþol viðkomandi rekstrar.
Af hálfu starfsmanna Kaupþings er lögð áhersla á samstarf við þá ráðgjafa sem bændur hafa aðgengi að á hverju búnaðarsambandssvæði og jafnframt að allir aðilar komi að lausn þessara mála, bæði viðkomandi banki og aðrir kröfuhafar.
Loks eru í undirbúningi almennar aðgerðir af hálfu stjórnvalda sem væntanlega verða kynntar nú um mánaðarmótin.
Ómar í Lambhaga velti fyrir sér áhuga lánastofnana á að breyta erlendum lánum yfir í íslensk lán.
Jóhann í St-Hildisey spurði um hvernig staða útlána til bænda væri hjá Auðhumlu
Egill á Berustöðum sagði að um 1,3 milljarðar væru útistandandi hjá Auðhumlu vegna lána hjá bændum. Öll þau lán væru í skilum, fyrirtækið hefði komið til móts við bændur sl. vetur varðandi frestanir á greiðslum tímabundið, mjög fáir hefðu nýtt sér það.


5.Önnur mál
Þórir á Selalæk nefndi að yfirstandandi söfnun meðal kúabænda á Suðurlandi til mæðrastyrksnefndar hefði skilað um 560.000 krónum fram til ágústloka.



Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 00.20


Runólfur Sigursveinsson ritaði fundargerð


back to top