Félagsráðsfundur FKS 30. nóv. 2009
Fundur félagsráðs Félags kúabænda á Suðurlandi
30.11 2009 kl. 11 haldinn í fundarsal MS Selfossi
1. Fundarsetning
Þórir Jónsson formaður setti fund og bauð fundarmenn velkomna, gengið var til fyrirliggjandi dagskrár.
2. Tilraunastarfið á Stóra Ármóti – Grétar Hrafn Harðarson tilraunastjóri
Grétar kynnti helstu verkefni LbHÍ í nautgriparækt á undanförnum árum, nefndi verkefnið um orsakir kálfadauða, þar komu ekki fram óyggjandi niðurstöður en ýmsar vísbendingar. Velferð mjólkurkúa í lausagöngufjósum, þetta var framkvæmt á um 50 fjósum, skýrsla væntanleg um áramót. Eiginleikar mjólkur, verkefni á vegum Braga Líndals, er í gangi. Samanburður á próteingjöfum í kjarnfóðri fyrir mjólkurkýr – þessu verkefni er lokið. NorFor-verkefnið í undirbúningi og verið að undirbúa innleiðingu hér á landi. Á St-Ármóti og fleiri búum eru í gangi grasstofnatilraunir í umsjón Guðna Þorvaldssonar. Vambaropskýrnar eru nýttar varðandi NorFor verkefnið. Þá eru áburðartilraunir þar í gangi eins og á fleiri búum, þær tilraunir eru í umsjón Ríkharðs Brynjólfssonar.
Meginþema rannsókna á St-Ármóti er um samspil fóðrunar, afurða og heilsufars, núna um aukna sjálfbærni í fóðrun mjólkurkúa og um uppeldi kvígna. Fjallaði um afurðaþróun á búinu og um gagnasöfnun, m.a. um þróun áts í geldstöðu og fyrstu vikur mjólkurskeiðs. Kynnti yfirlit um tíðni framleiðslusjúkdóma á St-Ármóti síðustu ár. Ræddi þróun kjarnfóðurnotkunar og afurða síðustu ára, byggið hefur komið allsterkt inn í heildargjöf kúnna síðustu ár. Kjarnfóðurgjöf komin upp í 28 kg á 100 kg mjólkur árið 2007. Væntanlega hefur þetta hlutfall lækkað síðan.
Fjallaði um tilraun á St-Ármóti þar sem lögð er áhersla á að nota bygg sem mest í heildarfóðurskammti. Ávallt hætta á að sýrustig í vömb falli í við mikla gjöf á byggi þar sem það brotnar mjög hratt niður í vömbinni. Á St-Ármóti voru könnuð áhrif mismikillar bygggjafar – þrír flokkar, frá 25%, 34% bygg upp í 42% heildarfóðurs í formi byggs, byggið að hluta gefið í heilfóðri og að hluta í formi þurrkaðs byggs í kjarnfóðri. Enginn munur kom fram á sýrsustigi vömb eftir meðferðum. Þessi tilraun heldur áfram í vetur.
Verkefnið Kvígur 24 er í gangi núna á St-Ármóti, markmiðið að leita leiða til að nýta vaxtargetuna betur en nú er gert. Burðaraldur 1.kálfs kvígna er 28-29 mánuðir. Ef miða á við 24 mánaða aldur við 1.burð þarf vaxtarhraði að jafnaði að vera um 550 g/dag, sæðingar hefjast við 14 mánaða, mikilvægt að þær hafi náð ákveðnu hlutfalli lífþunga við 1.burð (85 % af lokaþunga). Tilraunaskipulagið gengur út á að auka mjólkurgjöf upp í 7 lítra á dag og frjáls aðgangur að kálfakögglum. Kálfarnir vandir af mjólk 8 vikna gamlir. Frá 6 mánaða aldri er gefið 1 kg af 23-kögglum fram til 1.burðar. Tvöfalda þyngd sína á fyrstu 8 vikum ævinnar. Bandarískar rannsóknir sýna jákvæð áhrif á „hraðeldi“ fyrstu 8 vikur uppeldisins.
Ólafur Í Geirakoti velti fyrir sér að þegar kálfar sjúga hvern annan, hvort þetta myndi ekki örva júgurþroska.
Grétar sagði að í vetur væri skoðuð áhrif sýrðrar mjólkur og þá frjáls aðgangur að þessum drykk.
Grétar gat um þau nemendaverkefni sem hafa verið í gangi m.a. MS-verkefni Berglindar Óskar Óðinsdóttur og Hrafnhildar Baldursdóttir.
Að lokum ræddi Grétar fjárhagslega stöðu LbHÍ, hún væri erfið og þetta kemur niður á starfsemi allra þátta, þar á meðal á rannsóknastarfið. Ekki er þó rætt um verulegan niðurskurð á St-Ármóti.
Valdimar í Gaulverjabæ spurði um breytingar á áherslum í geldstöðufóðrun, hverjar væru þær.
Grétar svaraði því til að dregið hefði verið úr áherslu á verulegri kjarnfóðurgjöf fyrir burð og takmarka orkustyrk fóðurs í geldstöðu. Hins vegar mætti ekki ganga of langt í þessu sem öðru.
Samúel í Bryðjuholti spurði um hversu langt mætti ganga í sparnaði á fóðurstyrk/gjöf í geldstöðu.
Grétar taldi að slíkt væri mjög erfitt að meta, hættan væri að þessi sparnaður kæmi niður á afurðastigi eftir burð og aukin hætta þá á framleiðslusjúkdómum.
Sigurður Þór á Önundarhorni spurði um hvort ekki væri enn í gildi að gefa nægilegt fóður, gróft fóður í geldstöðu.
Grétar sagði það í fullu gildi að halda vömbinni vel virkri í geldstöðunni.
Jóhann í St-Hildisey velti fyrir sér hversu hátt brottfall væri á 1.kálfs kvígum, það hefði áhrif á heildarhagkvæmni þessa hraðeldis.
3. Af vettvangi LK; nýliðinn formannafundur aðildarfélaganna
Þórir á Selalæk ræddi nýliðinn formannafund aðildarfélaga LK, þar var skipuð þriggja manna nefnd til að skoða samræmingu á samþykktum aðildarfélaga. Á sama fundi var einnig rætt um sæðingagjöld eftir svæðum, þá var einnig rætt um aðbúnaðarmál og mögulega breytingu á reglugerð auk fleiri þátta.
Jóhann í St-Hildisey, stjórnarmaður í LK , sagði frá athugun á sæðingargjöldum bænda og samantekt um rekstur kyndótastöðvanna,sem var unnin var á vegum LK eins og samþykkt var á síðasta aðalfundi LK. Framhald málsins verður að þetta verður skoðað áfram og leitað lausna í samstarfi LK og BÍ. Menn hafa áhyggjur af því að hár sæðingakostnaður á einstökum svæðum kunni að draga úr þátttöku bænda í sæðingum. Í samanburði við gjöld í Noregi og Danmörku þá virðist gjaldtaka vera lægri hér. Komin upp hugmynd um að hafa eina sæðingastöð, dreifingastöð á landsvísu, það þýddi í raun að svæði sem eru núna með lágan kostnað myndu hækka. Rætt um að leita annarra leiða eins og hafa fleiri starfsmenn til að takast á við þetta í afskekktari sveitum og nýta samstillingar í meira mæli.
Samúel í Bryðjuholti ræddi álagsgreiðslur á sæðingagreiðslur t.d. vegna lausra kúa.
Jóhann í St-Hildisey sagði að búið væri að boða fund í verðlagsnefnd í næstu viku þar hlýtur að verða forgangsverkefni að leiðrétta framlegðarskekkju einstakra vörutegunda á heildsölustigi.Þá væri umfjöllun um ESB-mál fyrirferðamikil og greindi hann frá skipan fulltrúa í landbúnaðarhóp vegna aðildarviðræðna.
Rætt hefur verið um að endurskipuleggja stefnumörkunarhóp LK vegna áhuga Auðhumlu um aðkomu að starfinu. Þá kynnti Jóhann söluþróun síðustu mánuða, smávægilegur samdráttur er, mismikill eftir vörutegundum.
Katrín Birna á Ásólfsskála spurði um samræmingu á gjaldtöku t.d. á vegum MAST.
Samúel í Bryðjuholti velti fyrir sér stuðningi til mjólkurframleiðenda innan ESB og hins vegar stuðningur hér innanlands og ósamræmi þar á milli.
4. Um réttarstöðu bænda í lánamálum – Ólafur Björnsson hrl
Ólafur ræddi fyrst úrræði samkvæmt hinni almennu greiðsluaðlögun sem kynnt hefur verið samkv. lögum nr. 24/2009 um breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti nr.21 frá 26.mars 1991. Þessi breyting tók gildi 1.apríl síðastliðinn. Þess leið er eingöngu fær fyrir einstaklinga en ekki félög eða aðra lögaðila.
Ólafur kynnti einnig stuttlega lög um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði nr. 50 frá 21.apríl 2009. Samkvæmt þeim lögum getur skuldari að greiðsluaðlögunartíma loknum, (lengst 5 ár) leitað eftir því að veðréttindi sem standa til tryggingar veðskuldum á fasteigninni, og nema hærri fjárhæð en svarar til söluverðs fasteignarinnar á almennum markaði að viðbættum 10 hundraðshlutum, verði afmáð af fasteigninni.
Ólafur sagði síðan frá breytingum á lögum nr.63/1985 um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga nr.107 frá 30.10 2009. Þar kemur m.a. fram að þrátt fyrir ákvæði 4.mgr. 5.gr.laganna skal endurgreiðsla skuldar einstaklinga á jöfnunarreikningi, eftir að upprunalegum lánstíma lýkur, aldrei standa lengur en þrjú ár vegna lánasamninga sem gerðir voru fyrir gildistöku laganna. Skuld sem stendur eftir á jöfnunarreikningi í lok þriggja ára frá lokum upprunalegs lánstíma skal gefin lánþega eftir og afmáð úr veðmálabókum.
Í lögunum nr.107 frá 30.10. 2009 um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins eru einnig ákvæði um að kröfueigendur skuli setja sér reglur um skuldbreytingar og breytingar á skilmálum skuldabréfa og lánasamninga fyrirtækja.
Ólafur fjallaði einnig um spurninguna um lögmæti gengistryggðra lána meðal annars með hliðsjón af lögum nr.38/2001 um vexti og verðbætur, sérstaklega 13. og 14.grein þar sem fjallað er um vísitölutengingu skuldbindinga. Þá er ástæða einnig að skoða greinargerð með upphaflega frumvarpinu. Mál vegna þessara álitamála munu væntanlega líta dagsins ljós á grunni þessara ákvæða. Þá fjallaði Ólafur einnig um möguleikann á forsendubresti út frá lögum um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936 með síðari breytingum, sjá 36.gr. laganna. Væntanlega verður einnig leitað til dómstóla vegna túlkunar á þessum ákvæðum.
Ólafur kynnti möguleg sértæk úrræði bankanna sem yrðu væntanlega í boði vegna mikillar skuldsetningar. Hjá Arionbanka gengi aðferðafræðin út að að meta núverandi rekstur og verðmat jarða haft til hliðsjónar. Hjá NBI ehf er boðið upp á ákveðnar greiðslur næstu 12 mánuði sem mest í samræmi við greiðsluþunga fyrir hrun. Hjá Íslandsbanka er horft á hvert tilvik fyrir sig.
Ólafur nefndi einnig að möguleikinn á formlegum nauðasamningum skv. lögum nr. 21/1991 væri fyrir hendi svo og að fara í gjaldþrot, sem væri lakasti kostur fyrir einstaklinginn vegna þeirrar afleiðinga sem það hefur fyrir hann.
Að lokum hvatti Ólafur bændur að taka yfirvegaða ákvörðun ef þörf er á heildarendurskipulagningu skulda og kynna sér vel málin áður en skrifað er undir breytingar á skilmálum og jafnframt að hafa nauðsynlegan fyrirvara um betri rétt.
5. Félagsstarf FKS
Þórir á Selalæk velti fyrir sér hvort þörf yrði fyrir annan fund félagsráðs fyrir næsta aðalfund FKS. Skipa þarf kjörnefnd tímanlega vegna næsta aðalfundar. Þátttaka kjörinna fulltrúa í félagsráð hefur verið góð. Nauðsynlegt að halda áfram virkri tengingu við fulltrúa LK.
Ákveðið að formaður leiti til þeirra sem voru í kjörnefnd síðasta árs um áframhaldandi starf.
Væntanlega verður aðalfundur félagsins í lok janúar
Söfnun mæðrastyrksnefndar gengur vel, mánaðarlega eru innheimtar rúmar 60.000 krónur.
6. Önnur mál
a. Runólfur sagði frá nefndarstarfi sem hann tók þátt í að beiðni stjórnar Bændasamtakanna sl. haust um endurskoðun á skipulagi ráðgjafaþjónsutu í landbúnaði. Í nefndinni voru auk hans, Gunnar Guðmundsson og Sigurður Eyþórsson. Nefndi skilaði af sér með áliti til formannafundar búnaðarsambandanna nú í byrjun mánaðarins. Nefndin lagði til að skoðað yrði að sameina alla ráðgjafaþjónustu á landsvísu í eitt félag, bæði þjónustu Bændasamtakanna og búnaðarsambandanna. Niðurstaða formannafundar var að skipa nýjan starfshóp, fimm manna, fjóra frá búnaðarsamböndunum og einn frá BÍ til að skoða málið áfram, kynna niðurstöður fyrir næsta Búnaðarþing.
Björn í Holti ræddi skerðingar á framlögum í landbúnaði almennt, þörf væri að taka saman tölur um þann pakka í heild sinni, til að vekja athygli á að landbúnaðurinn hefur orðið fyrir verulegum niðurskurði í framlögum af hálfu hins opinbera.
b. Jóhann í St-Hildisey ræddi verðmat jarða og þá ábyrgð sem þeir aðilar hafa sem sinna matinu. Ekki síst þegar verið er að tengja saman matsverð jarða og veðhæfni eins og kynnt hefur verið þegar um er að ræða verulega skuldsetningu jarðanna.
c. Jóhann í St-Hildisey ræddi líka kostnað við fóðuröflun og gagnsemi þess að bændur séu meðvitaðir um helstu þætti sem áhrif hafa á framleiðslukostnað fóðurs,en hann kynnti upplýsingar um kostnað við fóðuröflun sína á fundi í Árhúsum síðastliðinn föstudag.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl 15.40
Runólfur Sigursveinsson
ritaði fundargerð