Félagsráðsfundur FKS 30. sept. 2008

Félagsráðsfundur Félags kúabænda á Suðurlandi haldinn 30.september 2008 að Stóra-Ármóti
– Samráðsfundur með starfsmönnum Búnaðarsambandsins –



1. Fundarsetning
Sveinn Sigurmundsson
framkvæmdarstjóri Bssl setti fund kl 11 og bauð fundarmenn velkomna að St-Ármóti á þennan árlega samráðsfund Félags kúabænda á Suðurlandi og Búnaðarsambands Suðurlands


2. Starfsemi Búnaðarsambandsins
Sveinn, framkvæmdarstjóri, sagði stuttlega frá Landbúnaðarsýningunni og taldi hana hafa tekist vel. Brúttótekjur eru um 31 milljón með vsk. Reikna má með að einhver halli verði af sýningarhaldinu í heild sinni. Stuðningur einstakra stofnana og fyrirtæki var mjög mikilvægur í því að  hægt var að halda hana.
Sveinn ræddi stuttlega rekstur sambandsins, heldur hefur þrengst að í rekstrinum, m.a. vegna útgáfumála og vegna landbúnaðarsýningarinnar. Tvær leiðir eru í stöðinni, auka gjaldtöku eða draga saman.
Varðandi starfsemi Kynbótastöðvarinnar þá mun Þorsteinn Ólafsson láta af störfum fljótlega og einnig mun Bjarni Böðvarsson láta af störfum vegna aldurs um áramót. Búið er að ráða Hermann Árnason, núverandi stöðvarstjóra hjá SS á Selfossi, til starfa frá næstu áramótum og tekur hann við starfi Bjarna.
Klaufskurðarbásinn hefur verið vel nýttur undanfarna mánuði en Guðmundur Jón Skúlason hefur unnið með hann en hann hefur óskað eftir að hætta störfum. Ráða þarf nýjan mann í stað hans. Reikna má með að endurskoða þurfi gjaldskrána fyrir notkun bássins auk þess mun gjaldskrá Kynbótastöðvarinnar koma til endurskoðunar á næstu stjórnarfundum Búnaðarsambandsins.
Kúabúum er að fækka og því eðlilegt að skoða skipulag og starf starfsmanna Kynbótastöðvarinnar m.t.t. breyttra aðstæðna og fækkunar búa á svæðinu.
Valdimar í Gaulverjabæ spurði um hvort hefði komið til tals að fækka sæðingarmönnum um einn í ljósi þess að einn er að hætta.
Þórir á Selalæk ræddi um úttekt jarðabóta, er ekki eðlilegt að skoða hvort ekki megi spara ferðir með t.d. notkun loftmynda og/eða fá afrit reikninga af sáðvörukaupum
Sveinn Sigurmundsson svaraði því til að spurning Valdimars væri fullgild en hann sæi frekar fyrir sér að auka starfsvið þessara starfsmanna. Varðandi úttektarvinnuna þá væri eðlilegt að skoða alla möguleika til að einfalda verkferlana við úttektirnar.
Sigurður Loftsson ræddi nauðsyn túnkorta við almenna bústjórn, ætti að vera einn þáttur í henni.

Guðmundur Jóhannesson sagði stuttlega frá nýju skýrsluhaldskerfinu í nautgriparæktinni. Bændur geta sjálfir skráð mjólkurskýrslurnar á netinu eða þær verða skráðar hjá Bssl, í stað þess að þær voru skráðar áður hjá BÍ.
Til staðar eru fjármunir úr mjólkursamningi sem ætlaðir eru í skýrsluhaldið og ræktunarstarfið. Gerðar verða auknar kröfur um skýrsluskil til að fá þessa fjármuni inn á hvert bú.
Þá verður kynbótamat gripa reiknað oftar á ári en verið hefur. Kúaskoðunum verður dreift meira yfir árið. Eftir er að skoða kýr í Árnessýslu á þessu ári.
Hinir árlegu nautgriparæktarfundir verða lagðir af en í staðinn verða 3-4 fræðslufundir á starfssvæðinu.
Samhliða breytingum á skýrsluhaldsskráningunni hefur skipulagi skráninga á sæðingum verið breytt til að auka öryggi upplýsinga. Heldur hefur dregið úr þátttöku á kvígusæðingum.
Samúel í Bryðjuholti ræddi skráningu sæðinga sem sæðingamaður og mál sem hafa komið upp í starfi, sérstaklega þegar um er að ræða aðfengna gripi.
Guðbjörg  á Læk spurði um þátttöku í að skrá beint á netinu mjólkurskýrslurnar, þörf væri á námskeiði til að auðvelda þetta.
Guðmundur taldi einmitt þörf á slíku námskeiði og vonandi yrði unnið námskeiðsefni af hálfu BÍ.
Ragnar í Birtingaholti spurði hvað liði samkeyrslu gagna úr mjaltakerfum yfir í skýrsluhaldið.
Guðmundur taldi þörf á slíkri vinnu en sér skildist að lítið hefði verið unnið að þeim málum hér á landi. Hins vegar ætti slíkt að vera mögulegt með hliðsjón af reynslu Norðmanna af þessum málum.
Arnheiður á Guðnastöðum  og Elín í Egilsstaðakoti ræddu  skráningu gripa og villuhættu, hún væri enn til staðar í nýja kerfinu. Leita þyrfti leiða til að fækka þeim.

Runólfur Sigursveinsson ræddi áhersluatriði í ráðgjafastörfum í nautgriparæktinni, bæði varðandi SUNNU og eins niðurstöður heysýna og fóðurráðgjöf. Nefndi eitt verkefni sem væri áhugavert og það er að efla enn frekar upplýsingagjöf til bænda um árangur einstakra bænda í fóðuröflunar-/fóðurkostnaði út frá upplýsingum sem hafa komið úr SUNNU-verkefninu. Ræddi einnig þörf á auknum leiðbeiningum varðandi nýtingu áburðar


Fundarmenn ræddu þessi mál almennt, m.a. bæði fjármagnskostnað búanna og fóðuröflunarkostnaðinn.


Grétar Hrafn Harðarson. Gerði grein fyrir því hvað verið væri að gera á Stóra-Ármóti
Meginþema er samspil fóðrunar, afurða og heilsufars.
Það sem alltaf er verið að fást við er að koma sem mestu ofan í gripina – auka átgetuna.
Íslensku kýrnar ganga almennt lengur með kálfinn  en erlend kúakyn. Framleiðslusjúkdómar eru of áberandi í mjólkurframleiðslu, allt að 60-80% tíðni slíkra sjúkdóma.
Fjallaði um tilraun sem unnin var á St-Ármóti síðastliðinn vetur um áhrif mismunandi geldstöðufóðrunar. Verkefni sem verður í vetur á Ármóti er að skoða áhrif byggs á heildarnýtingu fóðurs, þ.e. áhrif mismikils byggs í fóðri mjólkurkúa.
Guðbjörg á Læk og Elín í Egilsstaðakoti  nefndu að ástæða væri til að kostnaðarmeta tilraunina sem slíka.
Grétar Hrafn taldi að það væri full ástæða til að skoða þetta í samhengi.
Sigurður Þór á Önundarhorni hvatti til að niðurstöður yrðu birtar sem fyrst úr tilraunum og/eða að vekja athygli á því t.d. á heimasíðu Bssl hvar niðurstöðurnar er að finna, einnig að virkja Fréttabréfið  sem miðil um niðurstöður.
Grétar Hrafn nefndi að önnur tilraun yrði í gangi á næstunni en það er að skoða áhrif fóðursamsetningar á vöxt og þroska kvígna, kallað Kvígur 24 – og vísar til þess að 1.burður sé í kringum 24 mánaða aldur. Grétar fór yfir skipulag tilraunarinnar.
Ólafur í Geirakoti sagði að bylting hefði orðið í gjöf kálfa með tilkomu 2 lítra kókflöskunnar.
Guðbjörg á Læk spurði um tengsl St-Ármóts við Félag kúabænda.
Grétar Hrafn sagði að fundað hefði verið með fulltrúum úr félagsráði fyrir stuttu til að efla tengsl tilraunastöðvarinnar við grasrótina, ákveðið að efla þessi tengsl enn frekar og hittast tvisvar á ári. Þá sagði Grétar frá því að málstofa yrði haldin þann 3.nóv. nk. á St-Ármóti í tilefni af 20 ára starfsafmæli stöðvarinnar, þar yrði litið yrði til baka í starfi og ekki síður varðandi framtíðina.

3. Önnur mál
Sigurður Loftsson
sagði frá störfum verðlagsnefndar búvara síðustu vikna. Síðasti fundur var í liðinni viku, þar var framreikningur fram til 1.sept staðfestur. Verðlagsgrundvöllur virðist hafa hækkað verulega frá 1.mars. Kjarnfóðurliðurinn hækkar um 33% eða um 4 krónur, vélakostnaður hefur hækkað um ca. 2,50 kr/l auk afskrifta. Fjármagnsliðirnir, þar er hækkun um tæpar 6,50  kr/l, launaliður hækkar um 2,50 kr/l. Kostnaðarhækkun virðist vera um 18-19 kr/l. Hækkunarþörfin að teknu tilliti til beingreiðslna  er því um  15,7 kr/l. Hækkunarþörfin hjá iðnaðinum er einnig mjög mikil.


Stjórn félagsins hefur rætt tillögu að ályktun frá félagsráðinu en hún er svohljóðandi:


„Félagsráð Félags kúabænda á Suðurlandi lýsir þungum áhyggjum yfir afkomu mjólkurframleiðslunnar og telur brýnt að verð til framleiðenda verði leiðrétt hið fyrsta.


Greinargerð.
Mjólkurverð til framleiðenda var hækkað 1. apríl sl., en síðan þá hefur verið mikill óstöðugleiki í rekstrarumhverfi kúabænda og verðhækkanir á aðföngum tíðar. Til dæmis hafa stórir kostnaðarliðirnar eins og kjarnfóður og olía hækkað yfir 30%. Eins hefur fjármagnskostnaður aukist gríðarlega, enda hefur gengi krónunnar lækkað meira en þekkst hefur á seinni árum og verðbólga mikil. Í ljósi þessa leggur félagsráð þunga áherslu á að mjólkurverð til framleiðenda verði leiðrétt hið allra fyrsta, enda stefnir í, að óbreyttu, fari fjöldi búa í þrot á næstu vikum.“


Ákveðið að stjórnin gangi frá ályktuninni endanlega.


Formaður hvatti fundarmenn að mæta á haustfundi LK en fyrsti fundur verður í Þingborg verður 13.október nk. Á þann fund mun Einar Kristinn sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mæta.


Nokkur umræða varð um ástandið í kjaramálum bænda og þá þröngu stöðu sem greinin er í. Brýnt er að fá hækkun sem fyrst.


Sveinn Sigurmundsson þakkaði fundarmönnum  fyrir þátttökuna  á  fundinum og sagði fundi slitið  kl.15.30


Fundargerð ritaði:  Runólfur Sigursveinsson


back to top