Félagsráðsfundur FKS 31. mars 2003

Fundur Félagsráðs Félags kúabænda á Suðurlandi 31. mars 2003


Fundur haldinn í  húsakynnum MBF og hófst kl. 11.00

Sigurður  Loftsson setti fund og bað Gunnar Eiríksson að stjórna fundi.
Eftirfarandi tekið fyrir:


1.Undirbúningur fyrir aðalfund LK. 
Sigurður sagði frá undirbúningi og rakti hugmyndir um skipan í nefndir á fundinum. 
Sigurjón  í Raftholti  kvaðst nokkuð ósáttur við hugmyndir  í stefnumörkun um nautakjötsframleiðslu.  Einnig þær hugmyndir um stuðning sem nú hafa komi fram.
Þær væru í raun framleiðsluhvetjandi.
Sigurður kvað ljóst að LK gerði ekki tillögur um styrk á hvern grip. 
Egill tók undir  það en sagði þá sem eingöngu eru í holdanauta- og nautaeldi ekki alveg sátta við þá afstöðu. Hins vegar t.d. ekki komin enn einstaklingsmerking ofl. Og því vart forsendur til að styrkja á hvern grip.  Hugmyndin er að borga visst á kíló úrval A og B flokka.
Kristinn á Þverlæk kvað  í raun aðeins um hakkmarkað að ræða í dag og því spurning í raun hvaða flokka ætti að styrkja.
Gunnar í Hrosshaga taldi hanga yfir að næsti búvörusamningur yrði með öðru sniði en sá síðasti því yrði að vinna stefnumörkun og ræða vel.
Sigurlaug í Nýjabæ taldi verðþol í raun töluvert í nautakjöti  ef gæðin væru trygg og ímyndin í lagi.
Ágúst Dalkvist  sagði vanta í ferli vissu um hvar gæðin klikka.
Grétar Einarsson taldi nauðsynlegt fyrir fulltrúa á aðalfund að þeir hefðu vilja fundarmanna til hugmynda.
Sigurjón sagði sig sáttara nú en í upphafi fundar.
Sveinn Ingvarsson sagði illframkæmanlegar greiðslur á hvern grip.  Það hefði einnig verið rætt á stjórnarfundi hjá BÍ.  Bæði hefði vantað einstaklingsmerkingu og einnig væri um afar fáa gripi að ræða yfir landið í bestu flokkum. Ef  mikill verðmunur yrði á gripum þá setti það mikinn þrýsting á  vinnu kjötmatsmanna
Runólfur Sigursveinsson  taldi ef þetta yrði, þá þyrfti að skilgreina  mun betur en í dag mun milli flokka. Með einstaklingsmerkingum ætti að vera hægt að byggja upp gæðaímynd.
Ólafur Helgason  taldi nauðsynlegt að  ganga frá þessari stefnumörkun og í raun nauðsynlegt fyrir næsta búvörusamning,
Jóhann Nikulásson minntist á rafræna skráningu mjólkur og taldi nauðsynlegt að því væri komið í gegn.
Sigurjón í Raftholti minntist á erfðaefni og taldi óþarfi að minnst væri á slíkt í stefnumótunarplaggi.
Daníel í Akbraut kom inná síðu 21 í stefnumótunarplaggi .  Hann kvaðst spyrja sig hvort  bændur sjálfir réðu í raun ræktunini í  dag.  Vitnaði einnig til síðu 11 í RANNÍS-skýrslu.
Ólafur taldi verslunina án efa tilbúna að leggja heilmikið á sig til að komast inn í mjólkurframleiðsluna og brjóta þar upp framleiðsluna.
Sigurjón kvaðst nokkuð ósáttur við að  þeir sem ekki væru inni á aðalfundi hjá uppstillingarnefnd FKS, væru ekki látnir vita um slíkt.  
Birna á Reykjum og Gunnar í Hrosshaga kváðust bæði hafa verið inni og úti til skiptis gegnum árin sem fulltrúar á fundinn.  Þau hefðu ekki verið látin vita sérstaklega vita ef þau væru ekki inni.
 
Daníel minntist á nýja mjólkurreglugerð.  Honum fannst þetta mikil herðing á kröfum, sérstaklega varðandi frumur.   Sigurlaug  taldi vanta að mjólkurstöðin sjálf sýndi aukið aðhald og gæfi framleiðendum tíðari upplýsingar væru þeir í vandræðum.
Jóhann minntist á sveiflur í úrefnismælingum sem væru miklar.


2. Undirbúningur að aðalfundi BSSL-lagabreytingar
Ágúst Dalkvist sagði  marga bændur á sínu svæði pæla í  hvar þeir ættu að skilgreina sig og  sumir hertu sig  í að tilheyra búnaðarfélagi.  Jafnvel sýndist sér eftir þetta að nauðsynlegt væri að búgreinafélögin væru grunneiningar.
Sigurður og Gunnar kváðu  því miður ekki grundvöllur fyrir róttækari tillögum nú.
Daníel sagði aðeins rætt  í sínu búnaðarfélagi hvaða tæki ætti að kaupa en lítið meira.


Tekið matarhlé.
  
3. Afangaeftirlit ríkisins.
Opinn fundur hófst síðan kl. 13.15. Gestur fundarins Ólafur Guðmundsson forstöðumaður Aðfangaeftirlits kynnti störf stofunarinnar sem heyrir undir landbúnaðarráðuneytið.


Stofnunin starfar eftir lögum nr. 22 frá 1994  varðandi eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru. Við lögin hafa verið settar reglugerðir með nánari útfærslu á eftirlitinu. Þessar reglugerðir eru nr. 340/2001 um eftirlit með fóðri, nr. 398/1995 um áburð og jarðvegsbætandi efni og nr. 301/1995 um 3ftirlit með sáðvöru. Gerðar hafa verið þó nokkrar breytingar og viðaukar við þessar reglugerðir og er hægt að finna frekari upplýsingar á heimasíður Aðfangaeftirlitsins, www.adfangaeftirlit.is
Aðfangaeftirlitið sér um gæðaeftirlit með aðföngum, sem byggist einkum á skjalaeftirliti, sýnatöku og greiningu á sýnum.  Einnig sér það um ýmios stjórnsýslustörf s.s. að taka þátt í nefndarstörfum á vegum ESB og EFTA að því er varðir fyrrgreind atriði.
Einnig er um að ræða ráðgjöf til landbúnaðarráðuneytis ásamt fleiru.
Við eftirlitið er farið í gegnum innflutningspappíra ásamt öðru skjalaeftirliti, einnig eru tekin sýni til greininga og gerðar úttektir á húsnæði og tækjum.
Eftirlit með sáðvöru felst m.a. í gerð opinbers sáðvörulista. Þar er sáðvara sem rækta má undir opinberu eftirliti og viðurkennt til sölu hérlendis.
Einnig benti hann á skrá  yfir nytjaplöntur hérlendis sem gerð er af RALA, LBH, BÍ og Garðyrkjuskólanum.
Hann sagði stundum ganga illa að fá innflytjendur til að merkja sáðvöru og sáðvörublöndur á  réttan hátt. T.d. þarf að merkja sáðvöru upp á nýt sé hún geymd milli ára. Hægt væri að fara fram á við kaup á sáðvöru að fá merkingarnar á íslensku. Merkt er grænt blátt eða grátt, eftir því í hvað fræið er ætlað.
Eftirlit með áburði þarf að auka en fylgst er með öllum áburði sem fluttur er inn. Með sýatökum er reynt að tryggja að  allur áburður sem er inn markaðnum í dag standist svokallaðar ESB kröfur. Merkingar eiga að vera á íslensku og tilskyldar vörulýsingar  verða að sjást vel og vera læsilegar.
Kadmíum í áburði þarf að vera undir 50 mg kadmíum (Cd) per kg fosfórs (P)
Kaupandi getur farið fram á að seljandinn ábyrgist að innihaldið sé undir þessum mörkum og fengið kópíu af staðfestingu frá framleiðanda.
Fyrirspurnir
Valdimar spurði um könnun á spírunarhæfni og öðru er varðaði grænfóður og grasfræ. Ólafur sagði aðeins teknar stikkprufur og að ekki væru allir árgangar prófaðir.   Spurningu varðandi kvartanir sagði hann stofnunina vilja vita af þeim ef væru. Slíkt væri einnig betra fyrir bóndann, þó hann yrði að eiga galla við framleiðandann því Aðfangaeftirlitið getur ekki staðið í því að ná rétti fyrir einstaka bændur. Best væri að gera það í gegnum einhverskonar neytendasamtök.
Jóhann spurði um aldur fræs.  Í langflestum tilvikum á að vera dagsetning á umbúðum.  Sjálfsagt væri að fara fram á skjöl um spírun ef hún sést ekki á umbúðum eins og skylt er.  Seljendur eiga að hafa þessi skjöl og geta framvísað þeim. Ekki á að vera hægt að selja ársgamalt fræ nema láta prófa það aftur.
Grétar spurði um sýni úr áburði. Stofnunin tekur stikkprufur og kannar hvort efnainnihald fylgi þeim merkingum sem á umbúðum eru.  Hann sagði eftirlitið hafa átt í baráttu við suma áburðarinnflytendur eftir að innflutningur var gefinn frjáls. Reynt var að fara ekki harkalega af stað í byrjun.   Nú þegar nokkur ár eru liðin þá er farið að taka harðar á reglugerðum og ákvæðum fylgt ákveðnar eftir.
Egill spurði um vigt á sekkjum og um leysanleika fosfórs sem talsvert væri rætt.   Ólafur sagði  að ekki hefði verið mikið tékkað á vigt en hún hefði ætíð reynst rétt í prófunum.     Leysanleiki væri prófaður í vatni en ekki verið reyndur í öðru formi. Þetta eftirlit þyrfti að auka.  Upp hafa komið dæmi þar sem áburður var of klesstur og hann jafnvel verið hrærður upp aftur.
Efnagreining getur tekið upp í hálfan mánuð á áburði en Aðfangaeftirlitið rekur ekki rannsóknastofu og þarf því að senda sýnin til annarra aðila sem það viðurkennir til greininga.
Valdimar spurði um sýnatökur úr fóðri og tíðni þeirra eftir grun um Salmonellu jafnvel úr fóðri.  Ólafur sagði ekkert fóður tekið innflutt í sölu án sýnatöku eða vottorðs erlendis frá um að það væri laust við Salmonellu  Hins vegar væri erfitt að eiga við Salmonellu því hún gæti verið staðbundið í fóðri sem flutt væri inn í miklu  magni svo dæmi sé tekið.
Arnar Bjarni spurði um viðbrögð ef t.d. fóður stæðist ekki kröfur.   Ólafur sagði stofnunina ekki geta beitt viðurlögum því hún hefði ekki dómsvald en gerðar væru athugasemdir og fyrirtækin krafin um leiðréttingar og úrbætur og ef ítrekuð dæmi kæmu upp þá væru viðkomandi aðilar kærðir til lögreglu.  Aðeins hefðu komið upp dæmi um slíkt. Hins vegar væru viðurlög oft léttvæg og rannsókn þessara mála mættu eflaust afgangi hjá sýslumönnum og öðrum þar til bærum yfirvöldum.
Grétar og fleiri töldu mikið aðhald fólgið  í því að birta opinberlega hvaða aðilar hefðu fallið á prófinu. Mælingar á fóðri færast nú mikið yfir á þungmálma, díoxín og önnur óæskileg efni.  Einnig hvort þau næringarefni væru fyrir hendi sem merkt væru á fóðri.    


Ólafur sagði þá hafa setið marga fundi í Brussel þegar banna átti  fiskimjöl í fóðri og þegar verið var að setja mörk fyrir óæskileg efni s.s. díoxín sem voru upphafleg svo lág að fiskimjöl og lýsi hefði sjálfkrafa horfið af markaðnum.  Þeir hefðu lagt þar fram vel rökstudda hluti og fengið áheyrn og árangur.  Þannig væri fiskimjöl og lýsi enn þá notað í fóður. Hann sagði sína skoðun að árangur næðist í stofnunum erlendis ef málin væru vel undirbúin og rökstudd.  Atkvæði í sjálfu sér skipti ekki öllu máli því við mundum hvort sem er aldrei hafa nema eitt atkvæði á móti mörgum atkvæðum stórþjóðanna.


Til að standa undir kostnaði  við Aðfangaeftirlitið eru tekin eftirlitsgjöld af allri sáðvöru, áburði og fóðri. Hér er þó ekki um skatt að ræða því ekki má nota þennan pening nema í þessum eina tilgangi. Ísland er orðið hluti af sameiginlegum markaði ESB og í raun erfitt eða ómögulegt að setja hér aðrar reglur en gilda á Evrópska efnahagssvæðinu, (EES).


Að lokum hvatti Ólafur bændur ef þeim fyndist á sig hallað að hafa samband við Aðfangaeftirlitið.


Fundi slitið kl.  14.40


Valdimar Guðjónsson,
fundarritari


back to top