Félagsráðsfundur FKS 7. desember 2011

Fundur haldinn í félagsráði Félags kúabænda á Suðurlandi haldinn á Selfossi 7. desember 2011.

1. Fundarsetning
Formaður Þórir Jónsson Selalæk setti fund kl.11 og bauð fundarmenn velkomna og kynnti dagskrá.


2. Félagsstarf, næsti aðalfundur FKS
Þórir á Selalæk sagði frá starfsemi félagsins frá síðasta fundi. Nefndi m.a. haustfundi LK hér á Suðurlandi sem hefur verið vel sóttir. Stjórnarmenn FKS fóru á fund atvinnuveganefndar Alþingis til viðræðna um forgang greiðslumarksmjólkur á innanlandsmarkað. Gat um þátttöku félagsins á opnum degi á St-Ármóti þann 11.október sl.


Þórir ræddi síðan komandi aðalfund félagsins og skipan kjörnefndar og  um efni inn á aðalfund félagsins.
Guðbjörg á Læk lagði til að fá formann fagráðs í nautgriparækt sem fyrirlesara á aðalfund félagsins í kjölfar ráðstefnu sem haldin var nýlega á vegum LK um ræktunarstarfið í nautgriparækt
Bóel á Móeiðarhvoli tók undir orð Guðbjargar með fyrirlesara, horfa frekar inn á við varðandi viðfangsefni  á aðalfund félagsins. Lýsti jafnframt ánægju með að geta fylgst með ráðstefnu LK og fagráðs í gegnum netið.
Þórir á Selalæk nefndi  hvort ætti að fá erindi frá Runólfi  á aðalfund út frá grein hans í Bændablaðinu í haust.
Elín í Egilsstaðakoti vakti athygli á að virkja þyrfti í meira mæli bændur til að ræða ræktunarmál greinarinnar og hvernig staðið er að því starfi.
Jóhann í St-Hildisey velti fyrir sér stöðunni í ræktunarstarfinu og framförum.  Spurning hvort ekki sé einmitt lítill áhugi  á ræktunarstarfinu vegna þess að framfarirnar eru litlar.
Sigríður á Fossi taldi að fjarlægð bænda frá ákvörðunum um ræktunarstarfið væri  of mikil  og lítil virkni hjá bændum.
Kjartan í Fagurhlíð tók undir með Jóhanni að  svo virtist sem framfarir væru litlar og áhrif hins almenna bónda of lítil. Spurði nánar um fund með atvinnuveganefnd Alþingis.
Elín í Egilsstaðakoti og Þórir á Selalæk sögðu  frá helstu spurningum nefndarmanna, spurningar þingmanna hefðu snúist að verulegu leyti um stöðu og framtíð greinarinnar.
Elín í Egilsstaðakoti sagði frá fundi með stjórn BÍ um árgjöld vegna Huppu.Ekki virðist mikil von til að breytingar yrðu varðandi gjaldtöku vegna vefforrita BÍ.


Töluverð almenn umræða varð síðan um blaða- og greinarskrif um landbúnaðarmál.


Guðbjörg á Læk sagði frá álitsgerð Sigurðar Líndal varðandi búnaðargjaldið og hvað það gæti þýtt með framhald búnaðargjaldsins.
Jóhann í St-Hildisey sagði að þessi mál væru til umræðu innan stjórnar LK og m.a. væri  verið að skoða hvernig danskir kúabændur fjármögnuðu hagsmunagæslu sína.


3. Starfsemi MAST sem snýr að nautgripabændum- Jón Gíslason forstjóri, Halldór Runólfsson yfirdýralæknir, Þorsteinn Ólafsson sérgreinadýralæknir og Gunnar Þorkelsson héraðsdýralæknir.
Jón Gíslason forstjóri sagði að MAST væri að vinna eftir nýrri matvælalöggjöf sem þýddi innleiðingu á fjölda reglugerða sem byggja á grunni nýrrar matvælalöggjafar. Búið er að fella út kröfu um árlega fjósskoðun en hins vegar  verður unnið út frá áhættumati í hverju tilviki og eftirlitið mun byggja á því. Aðbúnaðarreglugerðir eru í endurskoðun og sérreglur um einstakar búgreinar verða einfaldaðar.
Halldór Runólfsson yfirdýralæknir  fjallaði um hinn nýja gagnagrunn “Heilsu” og skráningu dýrasjúkdóma inn í hann. Til að byrja með verður hann nýttur fyrir kýr og hross. Halldór nefndi að tilurð hans kæmi til,af ýmsum ástæðum, m.a. varðandi kröfur frá ræktunarstarfinu í nautgriparækt.  Eins á þessi grunnur að fylgjast með lyfjanotkun almennt t.d. í mjólkurframleiðslunni. Kröfur eru gerðar á MAST erlendis frá um að ákveðnir hlutir séu í lagi varðandi t.d. lyfjanotkun í frumframleiðslu og eins vegna  mögulegrar sölu á erlendan markað. Lyfjaskráningin er lögboðin samkvæmt Evrópulöggjöfinni og þar með einnig nýrri löggjöf hér á landi.
Þorsteinn Ólafsson sérgreinadýralæknir nefndi að valkostur við miðlægan gagnagrunn  væri að hafa spjald með hverjum grip allt þar til komið er með gripinn í sláturhús.Ákveðið hefði verið að fara frekar í rafræna miðlæga skráningu hér á landi. Nokkrir byrjunarörðugleikar eru á kerfinu.
Guðbjörg á Læk spurði um gildistöku reglugerðarinnar um lyfjaskráningu.
Halldór Runólfsson sagði að reglugerðin væri ekki komin í gildi en væri væntanleg
Guðbjörg á Læk sagði að hinn almenni bóndi hefði ekki haft vitneskju um þetta, einstakir dýralæknir eru farnir að taka gjald fyrir þetta, aðrir ekki.
Sævar í Stíflu spurði hvort sláturhús væru farin að gera kröfu um að fá upplýsingar fyrirfram  frá bændum  hvaða  gripi ættu  fara í sláturhús.
Þorsteinn Ólafsson taldi að slík krafa kæmi ekki frá Matvælastofnun heldur þá frá viðkomandi sláturhúsi.
Bóel á Móeiðarhvoli ræddi kostnaðinn við þessa skráningu og framkvæmd.
Halldór Runólfsson sagði að kerfið væri ekki fullmótað en í raun ætti dýralæknir ekki að þurfa að skrá nema einu sinni í fyllingu tímans, þ.e. reikningagerð, Heilsa og Huppa yrðu samtengd.
Sigríður á Fossi spurði um  hver væri ábyrgur t.d að þegar gripur  í sláturhúsi er með lyfjaleyfar þó svo útskolunartími ætti að vera liðinn.
Þorsteinn Ólafsson svaraði því til að bóndinn væri ávallt ábyrgur.
Jóhann í St-Hildisey spurði um innleiðingu þessara þátta hér á landi, var skoðað hvernig staðið er að þessum málum t.d. í Danmörku. Spurði um nauðsyn skráningar á lotunúmerum lyfja.Síðan um hvernig staðið er að áhættumati, t.d. varðandi kúabú.
Halldór Runólfsson sagði að í Danmörku gætu kúabú yfir ákveðinni stærð gert samning við ákveðinn dýralækni um lyfjamál og afhendingu lyfja. Krafist er skráningu á lotunúmeri lyfja, þessi krafa er frá Lyfjastofnun út frá hvenær lyf eru útrunnin.Það hefur verið mjög virkt lyfjaeftirlit á búum í Danmörku um árabil.
Verið að vinna þetta áhættumat á vegum Matvælastofnunar, t.d. varðandi hreinlæti í mjólkurhúsi og fóðrun o.s.frv.
Þórir á Selalæk spurði um nauðsyn skráningar dýralæknis inn í Heilsu samdægurs.
Halldór Runólfsson svaraði því til að  Dýralæknafélagið hefði gert athugasemd við stífleika skráningar (samdægurs), væntanlega verður tekið tillit til athugasemda félagsins af hálfu ráðuneytis.
Kjartan í Fagurhlíð sagði að sér virtist vanta stórkostlega á kynningu á þessum breytingum á skráningum. Eins velti hann fyrir sér  eftirliti með Matvælastofnun erlendis frá, gætu einstakar afurðastöðvar misst útflutningsleyfi  vegna þess að eftilit Matvælastofnunar væri ekki í lagi ?
Jón Gíslason sagði það svolítið langsótt en gæti þó komið  til ef Matvælastofnun sinnti ekki ítrekað ráðleggingum eftirlitsaðila erlendis frá um nauðsynlegar úrbætur, en mest er hættan ef afurðastöðvarnar sjálfar sinna ekki kröfum um úrbætur. Einnig verður að horfa til þess að afurðastöðvar verða ekki með útflutningsleyfi þegar þær hafa verið samþykktar skv. nýrri löggjöf, heldur verða vörur þeirra í frjálsu flæði á EES-svæðinu.
Halldór Runólfsson og Gunnar Þorkelsson héraðsdýralæknir sögðu að sjálfsagt þyrfti að kynna þessar breytingar betur og það yrði gert í kjölfar útgáfu reglugerðarinnar. Þessar breytingar þyrfti einnig að kynna vel fyrir starfandi dýralæknum.
Þórir á Selalæk spurði um hvort eftirlitið væri strangara hér en t.d. í nágrannalöndum.
Þorsteinn Ólafsson svaraði því til að hér hefði verið einfaldlega verið tekin sú ákvörðun að samtvinna þetta almennri sjúkdómaskráningu og gera þetta strax miðlægt. Löggjöfin er sú sama milli landa  en útfærslan getur verið mismunandi eftir löndum.
Þórir á Selaæk spurði um framkvæmd og gjaldtöku vegna fóðureftirlits hjá bændum, eftir 1.mars sl. þegar bændabýli hefðu verið skilgreind sem fóðurfyrirtæki
Jón Gíslason svaraði um gjaldtöku vegna fóðureftirlits, heimildin liggur í lögum eftir innleiðingu nýrrar EB-löggjafar,  en ekki í reglugerð um þetta mál.
Samúel í Bryðjuholti og Elín í Egilsstaðakoti sögðu að lítil sem engin kynning hefði verið á þessum þáttum til bænda.
Sævar í Stíflu sagðist hafa fengið heimsókn í fyrra af starfsmanni Matvælastofnunar vegna  fóðureftirlits. Í  stað bóndabýlisværi hans bú orðið fóðurbýli, þá gagnrýndi hann að hafa ekki fengið  afrit af spurningalistablaði,  í raun væru svona heimsóknir  gagnslausar fyrir sig.
Jóhann í St-Hildisey spurði um tímagjald og akstursgjald varðandi eftirlit.
Jón Gíslason sagði að það væri rúmlega 7.000 kr/klst, aksturskostnaðurinn er jafnaður út og er tæpar 2.700 kr. á hverja eftirlitsheimsókn. Eðilegt hefði verið að Sævar hefði fengið afrit af því eyðublaði sem hefði verið útfyllt á bænum.
Sigríður á Fossi  spurði um hvaða merkingar  ættu aðvera t.d. á fóðri.
Fulltrúar Matvælastofnunará fundinum sögðust ekki geta veitt þessar tilteknu upplýsingar, ræða þyrfti við Þuríði Pétursdóttursem myndi veita upplýsingar um þetta tiltekna atriði.


Þórir á Selalæk spurði um breytingu á reglugerð um einstaklingsmerkingar búfjár sem tók gildi 1. nóvember síðastliðinn. Kynning á þeirri breytingu kom seint og illa til bænda og til merkjasala. Eru tilfelli um að nautgripabændur njóti ekki gripagreiðslna vegna þess að skráningu eða merking á gripum er áfátt af þeirra hálfu ?
Þorsteinn Ólafsson sagði að merkingarreglugerðin væri dæmi um regluverk sem ekki hefur verið fylgt nægilega vel eftir. Nú yrði þessu regluverki betur fylgt eftir. Kynningin á þessari breytingu hefði mátt vera mun betri. Kálfar sem fæðast eftir 1. nóv eiga vera með tvö merki. Í ljós hefði komið  að ekki var haft nægilega snemma samband við BÍ þannig að merkjasalar hefðu verið meðvitaðir um þessa fyrirhuguðu breytingu í tíma.


Hvort bændur séu að fá gripagreiðslur án fullnægjandi skráninga, þar verður farið í að veita mönnum viðvörun um að gripagreiðslur verði felldar niður nema því aðeins að skráning gripa verði fullnægjandi. Eins varðandi sölu gripa frá bænum, þar verður hert á eftirliti.
Guðbjörg á Læk spurði um forsendur þessara breytingar (tvö merki í eyru).
Þorsteinn Ólafsson svaraði því til að þetta kæmi í kjölfar gildistöku Evrópulöggjafar um matvæli.
Guðbjörg á Læk sagði að gildistaka þessara breytinga hefði verið alltof snögg og illa undirbúin, tortryggni væri bæði meðal bænda og eins gagnvart Matvælastofnun.
Jón Gíslason sagði að Matvælastofnun væri í sömu stöðu og bændur, hraði breytinga er það mikill við innleiðingu Evrópulöggjafarinnar að stofnunin eigi fullt í fangi með að fylgjast með og koma nýjum reglugerðum í framkvæmd.
Halldór Runólfsson sagði að almennt væri reynt að nota Bændablaðið til að útskýra nýjar reglugerðir en síðustu mánuði hefði fjöldi reglugerða aukist mjög og því erfitt að finna tíma til að sinna þessu. Hins vegar er ljóst að betur þarf  gera í þessum efnum
Jórunn á Drumboddsstöðum velti fyrir sér kostnaðinum vegna merkis nr. 2.
Jóhann í St-Hildisey spurði um eftirfylgni með þessari breytingu, t.d. í sláturhúsum.
Halldór Runólfsson sagði að þessu máli yrði væntanlega smá saman fylgt betur eftir.
Samúel í Bryðjuholti spurði hvort þessar merkingar hefðu haft gildi, t.d. varðandi rekjanleika til baka.
Halldór Runólfsson sagði að sem betur fer hefði ekki komið í nautgriparæktinni dæmi um þetta síðustu ár (t.d salmonella).


Þórir á Selaæk spurði loks um eftirlit með mjólkursöluleyfi kúabænda. Sér virtist að þarna væri starfsfólk á stundum að vinna eftirlitsstörf með mjög takmarkaða reynslu úr þessum framleiðslugeira.
Halldór Runólfsson sagði að þarna mætti  væntanlega gera betur, staðan væri einfaldlega sú að erfitt væri að fá eftirlitsdýralækna til starfa.
Samúel í Bryðjuholti spurði um eftirfylgni með fjósskoðun. Sér virtist að víða væri pottur brotinn í þessum málum miðað við reynslu sína sem sæðingamaður.
Þorsteinn Ólafsson sagði að athugasemdirnar væru flokkaðar niður eftir alvarleika máls og vonandi síðan með áhættumati.


Þórir á Selalæk  spurði um hvernig stæði á því að bóndi austur í Rangárvallasýslu hefði fengið leyfi til sölu lífgripa af sínu búi árið 2008 en núna hefði hann fengið synjun frá Matvælastofnun.
ÞorsteinnÓlafsson sagði að reynt væri  að samræma viðbrögð innan hvers svæðis og slík vinna væri farin af stað og unnin í samstarfi við  héraðsdýralækna.
Katrín Birna á Ásólfsskála sagði að  sér virtist  þessar ákvarðanir mjög tilviljunarkenndar hvað varðar Eyjafjöllin.
Jóhann í St-Hildisey sagði að allar þessar reglur þurfa  að vera skýrar , auðskildar og að fullt samræmi sé milli einstakra ákvarðana.
Sigríður á Fossi spurði um “líftíma” garnaveiki, er það 10 ár 20 ár eða lengur.
Þorsteinn Ólafsson sagði að í raun sé ekkert öruggt í þessu sambandi en reynt að setja ákveðinn árafjölda sem viðmið,  hvenær  viðkomandi bær sé orðinn smitfrír eða ákveðið svæði.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15.35


Runólfur Sigursveinsson
ritaði fundargerð



back to top