Félagsráðsfundur FKS 8. júní 2009

Fundur félagsráðs  Félags kúabænda á Suðurlandi 8. júní 2009 kl. 20.30 haldinn í Árhúsum Hellu


1. Fundarsetning
Þórir Jónsson formaður setti fund og bauð fundarmenn velkomna, gengið var til fyrirliggjandi dagskrár.


2. Afsetning nautgripakjöts og staðan í dag
Formaður sagði frá viðræðum við sláturleyfishafa á Suðurlandi á undanförnum mánuðum um afsetningu nautgripakjöts. Dreifði jafnframt upplýsingablöðum unnum af Guðmundi Jóhannessyni ráðunaut um málefnið.  Enginn biðlisti er varðandi kýr en einhver bið á ungneytaslátrun. Í fjölmiðlum hafa verið fréttir um hækkun á verði út úr verslunum.

Elín í Egilsstaðakoti sagði frá frétt í Morgunblaðinu frá 3.júní um allt að 67% hækkun á nautahakki, spurning hvort  þetta sýndi ekki þörf á hækkun til framleiðenda.

Björn í Holti nefndi að heimtaka er að aukast  út úr sláturhúsum síðustu mánuði, gat jafnframt  um að svínakjötsframleiðendur séu nú að auka afsetningu á svínakjöti á markaðinn. Eins væri óljóst hvað gerðist þegar útflutningsskyldan fellur af lambakjötinu næsta haust.

Ómar í Lambhaga nefndi að þörf væri að jafna ásetning nautkálfa þannig að framleiðslan verði sem jöfnust. Þá ræddi hann urðunarkostnað sem virðist vera meira íþyngjandi hér á Suðurlandi en á öðrum svæðum.


Ákveðið að leita eftir því við framkvæmdastjóra LK að kanna verðmyndun á nautakjöti og  eins varðandi urðunarkostnað eftir svæðum.


3. Lenging næsta verðlagsárs um fjóra mánuði.
Sgirður Loftsson formaður LK kynnti stöðu málsins. Ástæða lengingar verðlagsársins kemur til af vilja stjórnvalda til að samræma almanksár og verðlagsár vegna fjárlagagerðar á hverjum tíma. Reiknað með að næsta verðlagsár verði 16 mánuðir. Svo virðist að nokkur sölusamdráttur sé í gangi og eins sölufærsla úr framlegðarháum vörum yfir í framlegðarlægri vörur. Þetta hefur síðan áhrif á rekstur Mjólkursamsölunnar sem er erfiðari fyrir vikið. Á stjórnarfundi SAM í dag var ákveðið fresta ákvörðun um tillögu að greiðslumarki næsta verðlagsárs til júníloka vegna þeirrar óvissu sem er á markaði.  Útlit með útflutning eru mjög óvíst, útflutningur til Whole Foods er ekki að skila því sem reiknað var með  á sínum tíma, hvorki í magni né verði. Að öðru leyti er útflutningur á almennu heimsmarkaðsverði sem gefur alltof lítið, bæði fyrir iðnaðinn og bændur.

Jórunn á Drumboddsstöðum spurði um meiri sveigjanleika milli verðlagsáramóta, þ.e. möguleika á að færa einhver ákveðin prósent  innleggs milli  verðlagsára.

Sigurður Loftsson sagði að þetta ásamt öðru yrði að ræða, ekki síst vegna lengingar verðlagsárstímabils. Vilji iðnaðarins er að takmarka þetta sem mest.

Björn í Holti ræddi afkomu iðnaðarins enn frekar, unnið hefur að ákveðnum hagræðingaratriðum en erfitt að gera meira en búið er að gera, m.a. vegna óhagstæðra gengis sem hefur bein áhrif á umbúðakostnað til dæmis. Reksturinn er betri en í fyrra en þó er afkoman ekki nægilega góð.

Sigurður Loftsson ræddi starf í verðlagsnefnd, haldnir hafa verið tveir fundir frá áramótum. Þar var einnig reiknað með að gengisvísitalan gengi að nokkru til baka, það hefur ekki gerst. Næsti fundur er áætlaður 16.júní. Leggja verður áherslu á að sú verðtilfærsla sem hefur verið ríkjandi, verði afnumin smá saman.

Jóhann í St-Hildisey lagði áherslu á að iðnaðurinn bæri nokkra ábyrgð á þeirri stöðu sem hann er í þegar hann samþykkti ákveðna verðstöðvun á sínum tíma gegn því að ekki yrði hreyft við tollum.  Ætlunin hefði verið síðan að ná þessu til baka með ákveðnum hagræðingaraðgerðum, slíkt hefði  ekki gengið eftir. Í öllum nágrannalöndum okkar er það verðið á neyslumjólkinni sem er haft tiltölulega hátt  en vinnsluvaran hlutfallslega höfð ódýrari. Þessu er öfugt farið hérna og getur ekki gengið öllu lengur.

Valdimar í Gaulverjabæ taldi brýnt að taka á verðtilfærslunni og var sammála  Sigurði um að taka þyrfti þetta mál föstum tökum innan verðlagsnefndar.

Sigurður Loftsson ræddi innvigtun fyrir Mjólku sem hefði bæði kosti og galla fyrir Mjólkursamsöluna. Mjólka er að færa sig yfir í fleiri vörutegundir og virðist þannig fá meira hillupláss.


Rætt um heimavinnslu afurða og hvernig staðið er að málum varðandi framleiðslu umfram kvóta. Að sögn Sigurðar Loftssonar eiga allir framleiðendur að standa skil á skýrslum, hins vegar eru engin viðurlög í núverandi löggjöf um hvað beri að gera ef framleiðendur standa ekki skil á sínum skýrslum um framleiðslu.


Ómar í Lambhaga ræddi hvort sá afsláttur sem Bónus-verslanirnar fá í verði frá Samsölunni skili sér í lægra verði. Þörf er á að fylgjast með því.


4. Breytingar á samþykktum LK
Þórir formaður FKS ræddi tilurð og þá punkta sem sendir voru út í fundarboði.

Sigurður formaður LK sagði frá því að á fyrsta fundi nýkjörinnar stjórnar LK hefði þetta mál verið rætt  og þá hefði verið ákveðið að næsta haust yrði haft samband við formenn aðildarfélaga með þá vinnu sem framundan væri í endurskoðun samþykkta.  Eins þyrfti að skoða aðkomu nautakjötsbænda að samtökunum, þarna þyrfti að samræma ákveðna hluti.


5. Önnur mál
a.
 Formaður FKS  sagði frá fjárstuðningi félagsins við Jötunn/Vélar vegna vorhátiðar í maí sl.

b. Formaður FKS sagði frá samráðsfundi sem haldinn var hjá Auðhumlu á Selfossi með m.a. tæknimönnum mjólkuriðnaðarins, héraðsdýralækni , dýralæknum, þjónustuaðilum mjaltabúnaðar og Bssl. Fundarefni voru gæðamál hjá framleiðendum, m.a. um gerlaskot og bragðbreytingar.  Gat jafnframt um að á fundinum hefði héraðsdýralæknir farið mjög frjálslega með trúnaðargögn sem snúa að einstökum bændum. Þórir sagðist haft gert bréflegar athugasemdir við uppsetningu Héraðsdýralæknis á því efni sem hún var að fjalla um.

Sigurður Loftsson sagði frá verkefni sem LK og SAM munu standa að um ákveðna gæðaþætti hrámjólkur eins og gerlaskot, fríar fitusýrur og fleiri gæðaþætti.
Mjög miklvægt er að takast á við þessi mál þannig að úrlausn fáist.

c. Málefni vegna mæðrastyrksnefndar – staðan er sú að safnast hafa rúmlega 260.000 krónur. Verkefnið heldur áfram til áramóta.

d. Staða kúabænda
Runólfur kynnti stöðu kúabænda eins og hún birtist í ársreikningum annars vegar og hins vegar gagnvart skuldastöðu. Ljóst að afurðaverðshækkanir á liðnu ári hefðu verið mjög mikilvægar fyrir greinina. Meðalbreytilegur kostnaður á hvern innveginn mjólkurlítra hjá tæplega 40 Sunnubændum hefði verið   tæplega 43 kr/ltr. Aðfangaliðir eins og áburður , rekstur búvéla og plast hefðu hækkað verulega umfram verðlagsbreytingar.  Í heildina hefðu kúabændur þó brugðist við geysimiklum aðfangahækkunum á liðnu ári á þann hátt að nýta betur aðföngin, m.a. kæmi þetta fram í betri nýtingu aðfengins kjarnfóðurs. Í fasta kostnaðinum virtist vera hækkun á fasteignagjöldum og rafmagnskostnaði umfram verðlagsbreytingar.
Fjármagnsliðir fóru upp úr öllu valdi á síðasta ári þannig að heildarniðurstaða flestra kúabúa er mjög döpur.

Runólfur ræddi síðan stöðuna varðandi skuldamál kúabænda. Meirihluti kúabænda á svæðinu er í bærilegum málum en þau bú sem eiga í erfiðleikum eru búin  sem hafa verið í uppbyggingarfasa síðustu ár. Hins vegar er ekki enn kominn sá tímapunktur í fjármálstofnunum að þær séu í stakk búnar að taka til framtíðar á einstökum málum, á meðan er verið að safna upplýsingum og meta hvert dæmi. Mikilvægt væri að heildarsamtök bænda væru virk í að koma að málum, bæði varðandi jafnræði milli búa og eins  að nú eru nánast  öll fjármálafyrirtæki í eigu sama aðila, ríkisins.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl 23.15


Runólfur Sigursveinsson
ritaði fundargerð


 


back to top