Félagsráðsfundur FKS 8. júní 2010
Fundur í félagsráði Félags kúabænda á Suðurlandi 8. júní 2010
haldinn í Björkinni á Hvolsvelli kl. 21.00
1. Fundarsetning
Þórir formaður setti fund kl 21.10 og bauð fundarmenn velkomna. Gat um að frá síðasta fundi hafði verið haldinn aðalfundur LK en aðalfundi Bssl hefur verið frestað til hausts. Þá gat hann um verkefni varðandi stefnumörkun í samstarfi félagsins og Bssl. Stjórnin hitti fulltrúa úr stjórn Bssl í apríl um það mál og Runólfur var fenginn til að stýra verkinu. Vinna hefði hins vegar lítið farið af stað vegna annarra aðkallandi verkefna.
2. Staða kúabænda á öskufallssvæðinu- Runólfur Sigursveinsson, Bssl
Runólfur sagði að 55 til 60 jarðir væru nú þegar á áhrifasvæði gossins, þá er miðað við svæði sem bæði hafa orðið fyrir verulegum áhrifum af öskufalli og öskufjúki. Fljótlega eftir að gos hófst var skipaður sérstakur aðgerðahópur undir forystu landbúnaðar – og sjávarútvegsráðuneytisins um fyrstu aðgerðir.Til að byrja með var mest unnið í flutningi búfjár og þá fyrst og fremst hrossa af svæðinu og síðustu vikur hafa á annað þúsund fullorðins fjár verið flutt af svæðinu yfir á önnur beitarsvæði. Það starf hefur verið á höndum Búnaðarsambandsins og bænda, bæði útvegun á beitarhólfum og eins skipulag flutninga. Samhliða hefur verið unnið að girðingum á einstökum svæðum.
Landgræðslan hefur síðustu vikur kannað ástand heiðarlanda og afrétta og er að fara af stað aðgerðir til að hefta gjóskufok á Sólheimasandi.
Búnaðarsambandið hefur sett á stofn heymiðlun inn á svæðið í samstarfi við viðkomandi sveitarfélög og Bændasamtökin. Starfsmaður hefur verið ráðinn til að stýra því verki og það er Sveinbjörn Jónsson. Auglýst var eftir bændum sem væru aflögufærir með hey til nota á svæðinu , fjöldi bænda hafa haft samband, lögð hefur verið áhersla á útvega gæðahey til nota sem framleiðslufóður. MAST hefur kynnt á heimasíðu sinni hvaða svæði hafi leyfi til flutnings inn á svæðið, verið er að vinna úr einstökum málum þar. Hægt hefur gengið að fá skýr svör í einstökum tilvikum.
Reynt hefur verið að fylgjast með magni flúors í gróðursýnum á svæðinu, sýnatakan hefur verið unnin í flestum tilvikum af starfsmönnum Bssl en greining unnin af LbHÍ og Nýköpunarmiðstöð. Greiningarvinnan hefur gengið hægt og hefur liðið oft á tíðum vikutími frá því sýni eru tekin þar til niðurstöður koma – slíkur seinagangur hefur verið mjög bagalegur m.t.t. ástandsins á svæðinu og þess álags sem felst í því að bíða eftir niðurstöðum vegna þrengsla í húsum.
Alþingi breytti löggjöf um Bjargráðasjóð á vordögum, tekið var út ákvæði um hámarksframlag í sjóðinn frá ríkisvaldinu, vilyrði er nú fyrir um 190 milljóna króna framlagi í sjóðinn frá ríkisvaldinu til að bregðast við því tjóni sem orðið er. Búið er að móta starfsreglur vegna tjónamála en ekki farið að greiða tjónabætur. Verulegur kostnaður er þegar kominn vegna flutninga á búfé af svæðinu, reiknað er með að sá kostnaður verði greiddur af Bjargráðasjóði.
Alþingi breytti einnig í vor búvörulögum með það í huga að gefa fólki tækifæri á að taka sér búskaparhlé allt til ársloka 2012 en halda þó óskertum beingreiðslum á meðan, bæði í mjólkurframleiðslu og í sauðfénu.
Þá gat Runólfur um félagslegar aðgerðir sem unnið hefur verið að af hálfu BÍ og Bssl, annars vegar að setja á stofn sérstakan orlofssjóð fyrir fólk á gossvæðinu og hins vegar sérstaka tímabundna afleysingaþjónustu fyrir bændur, þar koma einnig að Félag kúabænda á Suðurlandi og SAM. Fjármunir til þessara verkefna koma að verulegu leyti frá bændum í Noregi sem boðið hafa fjárstuðning í gegnum norsku bændasamtökin.
Nú er verið að fara af stað með athugun á lystugleika rúlluverkaðs fóðurs, aflað verður fóðurs frá a.m.k. þremur bæjum á gossvæðinu og fylgst með hvernig nautgripir á St-Ármóti taka slíku fóðri. Loks er í undirbúningi fræðslu- og spjallfundur næsta mánudagskvöld um fóðuröflun og fóðurverkun á gossvæðinu.
Starfsmenn Búnaðarsambandsins hafa komið að flestum þessara mála síðustu vikur og hafa í mörgum tilvikum notið aðstoðar frá Bændasamtökunum, farið hefur verið í heimsóknir á bæi til að kanna ástandið, nú síðast með tilliti til fóðuröflunar í sumar. Mætt hefur verið á fundi á svæðinu, síðast voru haldnir þrír fundir 2.júní sl. á Heimalandi, Vík og í Fjótshlíð til að fara yfir stöðuna með tilliti til fóðuröflunar og heymiðlunin kynnt sérstaklega.
Þórir á Selalæk gat um aðkomu félagsins vegna afleysingarþjónustu sem er að fara af stað.
Katrín Birna á Ásólfsskála sagði frá samskiptum sínum vegna spurningar til yfirdýralæknis um flutning á heyi til gossvæðisins úr Árnessýslu.
Ómar í Lambhaga velti því fyrir sér hvar eigi að draga mörkin varðandi afleysingar, hvað með slys eða veikindi fólks annars staðar á svæðinu?
Arna á Guðnastöðum ræddi afleysingamálin og hvernig þau mál gætu þróast.
Guðbjörg á Læk taldi það ekki sambærilegt, náttúruhamfarir og slys eða veikindi.
Þórir á Selalæk sagði að hann teldi nauðsynlegt að félagsmenn FKS gætu verið á bakvakt fyrir afleysingamenn ef með þyrfti.
Jóhann í St- Hildisey fagnaði því að afleysingaþjónusta kæmist á, slíkt væri mjög þarft en sagði að nauðsynlegt væri að skilgreina þetta frekar þröngt í byrjun. Varðandi heymiðlunina þá þyrfti að hafa í huga að flestar jarðir í sveitarfélaginu hefðu nú þegar orðið fyrir mengun vegna áfoks.
Kjartan í Fagurhlíð sagði að víða væri möguleiki til að heyja meira á öskufríum svæðum en ef til vill vanti meiri hvatningu um slíkt.
3. Af vettvangi LK – Sigurður Loftsson formaður LK
Sigurður gat um breytingar á skrifstofuhaldi LK, Baldur Helgi hefur flutt sig um set norður á Akureyri. Til að byrja með, í það minnsta, verður skrifstofuhald á báðum stöðum. Baldur Helgi er í feðraorlofi í júní, í staðinn hefur Snorri Sigurðsson verið ráðinn tímabundið til starfa á skrifstofu auk þess sem hann mun hafa umsjón með endurnýjun vefsíðunnar.
Sigurður gat um hækkanir á nautakjöti síðustu daga. Svo virðist að þetta séu núna um 8% hækkun.
Verðlagsnefnd er að störfum, fundur boðaður í næstu viku. Miðað við 1.mars þá virðist vera um 9% hækkunarþörf til bænda, vinna er í gangi varðandi framreikning um áburðarverð, síðan er það spurning um styrkingu krónunnar síðustu vikur, hverju hún breytir. Salan á mjólkurvörum hefur gengið vel, rúmlega 117 milljónir lítra á próteingrunni.
Varðandi útfærslu á reglum um kvótamarkað þá er búið að skipa vinnuhóp um slíkt, í þeim hóp er fulltrúi ráðuneytis, fulltrúi frá MAST auk fulltrúa frá LK og BÍ, hópurinn mun sömuleiðis taka til umfjöllunar viðskipti um greiðslumark á þessu ári.
Þá gat Sigurður um endurskoðun á aðbúnaðarreglugerð fyrir nautgripi.
Loks er búið að skipa nefnd til að fjalla um endurskoðun búnðargjalds, í nefndinni eru fulltrúar BÍ, búnaðarsambandanna og búgreinafélaganna.
Varðandi ESB-aðild þá er búið að vinna skýrslu um áhrif aðildar á innlenda mjólkurframleiðslu af hálfu verkefnahóps LK og SAM. Það skýrist 17.júni hvort ráðherraráð ESB samþykkir að ganga til viðræðna við íslendinga um inngöngu.
Framtíð búnaðarlagasamnings BÍ og ríkis er í óvissu.
Samúel í Bryðjuholti ræddi kvótamarkað sem er gott mál en nauðsynlegt að rýmka um viðskipti fyrr en 1.des. 2010.
Sigurður var sammála um það og reynt verður að fá breytingu á því.
4. Skuldamál bænda – Runólfur Sigursveinsson, Bssl
Kynnti hvernig staðan væri, fá sértæk mál hafa fengið úrlausn. Í þeim lokatillögum Arionbanka vegna sértækra skuldaaðlögunar eru tillögur sem eru öðruvísi en það sem kynnt hafði verið af bankanum fyrr í ferlinum gagnvart þeim sem voru/eru með íbúðarlán hjá bankanum. Bankinn vill nú að slíku láni verði viðhaldið og síðan bætist „rekstrarlán“ við það – með þessu móti getur lánveitandinn sett hærri höfuðstól til greiðslu en annars væri – hins vegar eru íbúðarlánin á annuietsformi og í íslensku verðtryggingar og verðbólgukerfi getur svona leið verið mjög varasöm til lengri tíma fyrir rekstraraðila.
Landsbankinn hefur kynnt sértæka úrlausn sem virðist vera enn lakari en úrlausn Arion.
Andrés í Dalsseli ræddi hvernig bankinn hefði komið að málum með tillögu að lokagerð samninga, sambland íbúðarláns og rekstrarláns.
Sigurður Þór á Önundarhorni velti fyrir sér tímaþættinum, gengið hefði styrkst síðustu misseri þannig höfuðstóll erlendra lána hefðu í raun lækkað verulega.
Jóhann St-Hildisey sagði stuttlega frá fundi með forráðamönnum Arionbanka og Landsbanka vegna ályktunar frá aðalfundi LK um skuldamálin.
Arna á Guðnastöðum ræddi stöðu lántaka þegar búið er að skrifa undir breytingu úr erlendu láni yfir í innlent. Nú er komin önnur kennitala á bankastofnunina en var þegar upphaflega lánið var tekið.
5. Önnur mál
a. Þórir formaður FKS sagði frá heimsókn stjórnar FKS til sláturleyfishafa í dag, bæði til SS og Sláturhússins á Hellu
b. Þórir formaður FKS sagði frá viðburði á Selfossi um helgina, “Kótilettan”, þar verður grillað naut í boði LK. Ræddi hvort ekki ætti að undirbúa svona kynningaatburði af hálfu LK, þ.e. vera með staðlað form, bæklingar, mynband o.s.frv.
c. Þá sagði Þórir frá því að um 260.000 kr séu komnar inn á reikning Mæðrastyrksnefndar frá ármótum frá rúmlega 20 kúabúum á Suðurlandi.
d. Þórir ræddi tímasetningu næsta fundar, væntanlega á haustdögum og um efnisþætti m.a. um skoðun á samþykktum LK og núverandi samþykktir FKS.
e. Sigurður formaður LK ræddi útdeilingu fjármagns frá LK til aðildarfélaga.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl 00.10
Runólfur Sigursveinsson ritaði fundargerð