Félagsráðsfundur FKS 24. ágúst 2015

Fundur haldinn í félagsráði Félags kúabænda á Suðurlandi, mánudaginn 24. ágúst 2015 í Björkinni Hvolsvelli.
Fundur settur 21.00, Valdimar Guðjónsson, formaður, kynnti fundarefni og gaf Sigurði Loftssyni, formanni LK, orðið.
Sigurður Loftsson
Sigurður kom inn á hækkun á mjólkurverði sem tók gildi 1. ágúst sl. en þá hækkaði verð til bænda um 1,77%. Það jafngildir hækkunarþörf verðlagsgrundvallar síðustu 2 undangengin ár. Á síðastliðnum tveimur árum hefur verð á kjarnfóðri lækkað um 9%, verð á olíu lækkað um 21% (mv. litaða díselolíu) en laun hækkað um 10%. Þann 1. ágúst sl. hækkaði heildsöluverð mjólkurafurða um 3,58%, þar af á smjöri um 11,6%. Varðandi þessa breytingu og ákvörðun verðlagsnefndar þá urðu mikil viðbrögð við þeim breytingum og menn voru missáttir. Þá sýndi Sigurður graf yfir stöðu framleiðslumála mjólkur, en í sumar hefur mjólkurmagnið dalað mjög lítið og hafa bændur svarað framleiðslukallinu mjög vel, svo vel að nú safnast upp birgðir á bæði undanrennudufti og mjólkurfitu. Innlegg ársins 2015 stefnir í 141-142 milljónir lítra. Næst ræddi Sigurður um skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ sem fjallar um framleiðsluumhverfi mjólkuriðnaðarins. Þannig hefur t.d. raunverð á mjólkurafurðum lækkað á árunum 2003-2013. Þá hefur lágmarksverð til bænda hækkað að raungildi á þessu sama tímabili, en með umfangsmikilli hagræðingu í mjólkuriðnaðinum hefur það skilað sér í lægra verði til neytenda sem og hærra verði til bænda. Á sama tíma hefur ríkisstuðningur lækkað að raungildi um 8%. Eins hefur framleiðsludreifing um landið haldist nær óbreytt, sé litið fram hjá Norður-Þingeyjarsýslu. Einnig fjallaði Sigurður um rekstrargreiningu sem LK vann út frá gögnum frá 38 kúabúum fyrir árin 2013 og 2014. Í stuttu máli hefur meðalbúið aukið framleiðslu sína og aukið þannig rekstrartekjur sínar. Rekstrargjöld hækka einnig milli ára samhliða framleiðsluaukningu. Af breytilegum kostnaði á þetta sérstaklega við um fóðurliðinn. Hagnaður minnkar því milli ára.
Eftir kaffihlé gaf Valdimar orðið laust.

Valdimar, Gaulverjabæ vildi ræða búvörusamningaviðræður. Sigurður sagði að ekkert þokaðist í þeim efnum, í vor stóð til að klára að skipa í þessa nefnd og var það gert fyrir sumarfrí. LK vildi fund strax til að fara með hugmyndir inn í sumarið, en það hentaði ekki orlofsskipulagi stjórnarráðs. Nú sé búið að lofa að nefndin verði kölluð saman fljótlega eftir næstu mánaðarmót. LK hefur farið fram á að unnið verði hratt og verði lagt fram á haustþingi en þá þarf að vera búið að ganga frá öllum endum fyrir lok nóvember svo það komist inn á haustþingið. Nú eigi að sameina alla samninga búgreinanna og sé meiningin að setja einn rammasamning fyrir allan landbúnaðinn í heild sinni. Eins verði hefðbundnir búvörusamningar undirsamningar. Ýmiss atriði eru á mörkum á milli búvörusamninga og þarf þá að ganga frá því. Þá sé verið að velta fyrir sér að taka tollverndina inn í búvörusamning. Ráðherra hefur tekið vel í það, en ekki víst að það verði, það sé of mikill sjónarmiðamunur um tollvernd í pólitíkinni. Einnig er umræða innan raða LK hvernig eigi að haga verðlagningarfyrirkomulagi. Bæði hefur verið rætt á aðalfundum LK og innan mjólkuriðnaðarins að eitt verð verði greitt fyrir alla mjólk, í stað þess kerfi sem notað sé nú (eitt lágmarksverð fyrir mjólk innan greiðslumarks og annað fyrir umframmjólk). Þetta sé hins vegar eitthvað sem þarf að finna úrlausn á því þetta breytir heildarmyndinni mikið. Þannig þurfi t.d. að teikna upp hvernig eigi að útdeila ríkisstuðningi, eiginlegt kvótakerfi yrði ekki til. Bændablaðið hefur spurt hvort liggi beinlínis fyrir að greiða stuðning út á land og lögbýli en ekki endilega framleiðslu. Slíkt hefur verið rætt í einhverjum hugmyndum. Það sé hins vegar grundvallaratriði að stuðningsgreiðslur ýti undir uppbyggingu og viðhaldi greininni og komi þannig á móti kostnaði. Slíkt gerist ekki með því að vera með óskilgreindar hugmyndir út á að fólk búi og geri bara eitthvað. Það býr ekki til hvata til framleiðslu. Stuðningsgreiðslur þurfi að miða að framleiðslu með skilvirkum og hagkvæmum hætti. Sigurður sagði að það væri margt sem ætti eftir að þróa í þessum málum.
Samúel, Bryðjuholti spurði hvort gamli samningurinn yrði framlengdur? Sigurður sagðist stundum hafa velt því fyrir sér, en komist að þeirri niðurstöðu að það væri vondur kostur. Þannig myndum við ýta á undan okkur sömu vandamálum og við glímum við nú. Kvótaverð? Er rétt að byggja framtíð sína á því að mega vera í framleiðslu? Eiga eftirlaunin að vera falin í því að selja kvótann? Ríkisgreiðslur; við vitum ekki hvað verða miklar eftir x ár. Efasemdir um að það sé rétt aðferð. Þýðir mikla uppstokkun. Hvaða skilaboð eru það að hafa sama samning? „Bændur hjakka alltaf í sama farinu.“ Ekki hollt að eiga marga áratugi í viðbót í þessu fyrirkomulagi.
Samúel spurði jafnframt um framleiðsluna. Margir sem ekki sáu fram á að íslenska kýrin myndi ráða við þessa framleiðsluaukningu en samt rennur mjólkin ljúflega úr þeim. Erum við að fara á undan okkur með því að kasta kvótakerfinu? Sigurður: Próteinsveiflan olli því eins og nú að menn vildu leggja kvótakerfinu. Við vitum það að sveiflan stoppar eins og áður. Kvótakerfið er letjandi, búið að draga úr framleiðsluhvatanum. Hægt var að skrúfa framleiðsluna upp, það var ekki mjög letjandi: Yfirfærsla milli kynslóða er vandamálið. Svo þegar kvótaverð hrundi treystu bankar sér ekki til að lána því einn útgjaldaliður féll niður (kvótaverð). Er gott að hafa útgjaldalið sem kostar fjárfestingar og skuldsetningar? Við verðum að fá að halda utan um markaðinn og ekki keppa innbyrðis sem einstakir bændur.
Elín Heiða, Úthlíð: Vildi ræða um kostnað við kvótakerfið. Er eina leiðin að fella niður kvótakerfið? Þegar borgað er fyrir hvern líter, verður þá ekki óhjákvæmileg barátta innan greinarinnar? Sigurður svaraði því að það var barátta innan greinarinnar að kaupa hvern annan upp. Nú þurfa bændur að bæta sig og standa sig, sama hvað við reynum að standa saman sem stétt. Keppnisgreinin er sennilega góður búrekstur. Hátt kvótaverð var bara keppni. Hefði verið öðruvísi ef þetta hefði verið drifið af þróun á mjólkurverði. Sigga, Fossi: Kvóti en ekki kvóti, áður mátti ekki framleiða framyfir kvóta. Sævar, Stíflu kom inn á grundvallarverð, það náðist ekki alltaf fullt grundvallarverð á árum áður. Náðist fullt grundvallarverð, fékkst trygging með kvótakerfinu. Það myndi vantar allar tryggingar ef tekið yrði upp eitt verð. Sigurður: Greidd var mjólkuruppbót ef vel áraði. Ræddi um búmark og viðmiðunarárin á undan. Jói, St-Hildisey: Ræddi um lögbundið lágmarksverð. Sigurður: Búmark gilti ekki sem greiðslutrygging nema skert væri niður í það og borgað yfir það. Sævar, Stíflu spurði hvernig sjáið þið tryggingar okkar í einu verði? Sigurður svaraði því að haldið yrði utan um heimamarkaðinn, fáum út úr honum eins og hægt er. Sveiflan er svo í útflutningi. Fram undir síðustu verðlagningu var skilaverð í gegnum afurðastöðvar undir lágmarksverði. Svo stór hluti var fluttur út (duft). Margt búið að breytast á þessum tíma, hvernig greiðslumarksákvörðun fer fram. Greiðslumark var stillt út frá miðlínu milli efnaþátta, en nú er bara eftir þeim sem selt er meira af. Breytir ekki öllu ef meðalverðið er deilt út yfir alla, en getur skipt máli fyrir einstaklinginn. Mikilvægt að við fáum að koma saman fram á markaðinn. Kjartan, Fagurhlíð: Hefur ekki verið nein framssækni í landbúnaði frá því kerfið var tekið upp? Sigurður: Var ekki að segja það, en hvað varðar t.d. tæknistig þá erum við lítið framsækin á þessu framleiðslustigi. Lengi vel átti sér stað niðurskurður. Óöryggi að vita ekki hvað þú fékkst fyrir fram. Var byrjað að skera niður þegar fullvirðisréttur var settur á. Sævar, Stíflu: Hver verður trygging á þessu eina verði? Þið viljið leggja niður grundvallarbú, hvað á að ákvarða verðið? Höfum alltaf horft á innanlandsmarkað, hefur hækkað og lækkað eftir sölunni. MS hefur ekki staðið sig nógu vel. Sigurður: Það þarf að reikna verðið út, horfa á afkomutölur og eins þurfa að vera til greiningar á verðlagsþróun aðfanga. Núverandi grundvallarbú er ónothæft. Hvert sinn sem borið er saman BK þá mælir það tilhneiginguna rétt, þó tölur séu aðrar. Upplýsingar sem Hagstofan sækir ríma við veruleikann. Við þurfum sjálf að koma okkur upp svona góðu mælitæki. Verðviðmiðanir og slíkt þarf að taka saman, framkvæmdanefnd búvörusamninga þyrfti að gera það. Spila tolla betur saman, þá þarf betri yfirsýn. Kjartan, Fagurhlíð: Mun þetta ekki hafa í för með sér, eitt verð, að við förum að sjá stærri bú (t.d. 2 millj. lítra. Ef sú tilhneyging heldur áfram fara menn að étast út úr greininni. Stóru búin þola betur sveiflur í greininni, en viljum við endilega fækka búunum? Sigurður: Af hverju ætti það frekar að vera þessi stærð en sú stærð sem er í dag? Jói, St-Hildisey: Það hefur ekki verið mikil hreyfing á kvóta eftir hrun, fullt afurðastöðvaverð og annað, svo lítil eftirspurn hefur verið eftir kvóta. Fjársterkir aðilar geta alltaf rúlla yfir aðra í þessari grein og eins og öðrum greinum. Er betra að byggja grein upp með því að binda mikið fjármagn í kvóta eða með því að sækja á sterka markaði og aðeins lægra meðalverð? Hvað varðar innflutning þá verðum við alltaf verr og verr stödd eftir því sem tollar lækka. Ekki vit til framtíðar að hafa kerfið eins og það er. Bóel, Móeiðarhvoli: Nú hlýtur að vera lag á að breyta einhverju, annars erum við föst í þessu áfram. Það þarf að skoða þetta gaumgæfilega. Valdimar, Gaulverjabæ: Kannski ekki samræmanlegt, en spurning um að finna brú á milli. Margir bændur vilja hafa einhverja stýringu áfram, sleppa ekki framleiðslunni alveg lausri, en tala ekki vel um kvótaverð og kostnað við kvótakaup. Í Evrópu keppast menn hver um annan þveran að framleiða. Finnar missa Rússamarkað, slæm mál þar í augnablikinu. Það þarf að leggjast yfir það hvort sé einhver leið þarna á milli. Kjartan, Fagurhlíð: Meðalbúskapartími í DK er 3 ár, svo finnur bankinn einhvern Hollending til að taka við. Jói, St-Hildisey: Krísustaða í Evrópu eftir afnám kvóta, allir ætluðu að bæta í þegar kvótinn var tekinn af. Það var ekki fyrirséð að Rússlandsmarkaður myndi lokast og eins hefur Asía kippt að sér höndum sömuleiðis. Elín Heiða, Úthlíð: Er komin mynd á rammasamning? Sigurður: Það er verið að leggja grunn að áherslum, snúast um stýringu. Pétur, Hvammi: Er hann aðallega frá okkur eða frá ríkisvaldi? Sigurður: Frá Bændasamtökum. Pétur, Hvammi: Viljum fá að vita hvort eigi að framleiða mat á Íslandi áður en við getum farið að ákveða eitthvað annað. Ef allt verður gefið frjálst, þá vitum við hvaða holskeflu við fáum í fjölmiðlum um að Ríkið sé að styðja útflutning. Jákvætt og neikvætt við þetta allt saman, verðum að fá svar frá ríkisstjórn hvort eigi að framleiða mat ofan í okkur. Hann sagði einnig að hér á landi væri ekki verið að framleiða nema 40% af því sem við þurfum; hættuástand. Sigurður: Stuðningskerfi þarf að útfæra. Við höfum ekkert í höndum nema almennar yfirlýsingar frá ríkisstjórn. Hefur komið fram hjá ríkisstjórn að tollavernd á landbúnaðarvörur verði lækkaðar. Ekki víst að tollavernd verði aukin. Fjármálaráðherra ætlar að boða niðurfellingu allra tolla nema á landbúnaðarvöru. Allar hugmyndir um fyrirkomulag eru drifnar af okkur sjálfum. Því miður vont að fá ekki ákveðnar línur frá stjórnvöldum hvernig eigi að efla íslenskan landbúnað. Pétur, Hvammi: Nefndi stefnu Pírata í sjávarútvegsmálum; ef eitthvað slíkt yrði sett á íslenskan landbúnað þá bað hann bara Guð um að hjálpa bændum ef þeir komast til valda.
Guðni, Guðnastöðum: Hvernig gengur að flytja inn fósturvísa? Sigurður: Búið að breyta lögunum; starfshópur sem átti að fjalla um reglur sem þetta átti að hlýta. Lagabreyting einföld og skýr, en hópurinn átti að gera grunn að reglugerð. Hópur komst ekki að samhljómi. Mælt með áliti Eggerts sem grunn að reglugerð. Lögin harla opin. Það á eftir að búa til reglugerðina, ekki líklegt að hún yrði tilbúin fyrr en með haustinu. Fundur með ráðherra á fimmtudag þar sem á að ræða frágang á reglugerð. Verið að ræða við aðila sem vilja setja upp einangrunarbú. Ef það er niðurstaðan, eitt einangrunarbú, á að flytja inn fósturvísa og sæði. Tíminn sem líður frá því flutt er inn þangað til má flytja út gripi af búinu stendur aðeins í mönnum. Hagkvæmast er að fjármagna þannig að kæmu inn fósturvísar, til að fá mæður inn í landið og nautkálfa. Mæður notaðar til að rækta á búinu, naut yrðu seld út af búinu. Þannig yrðu búin til heimanaut handa bændum. Hugmyndin var að koma upp alvöru ræktunarstarfi með sæðinganautastarfsemi. Ef gengur vel að koma búinu af stað er hægt að flytja inn fósturvísa í vetur. Guðni, Guðnastöðum: Hverjar eru líkur á að við náum að fjármagna þetta? Sigurður: Ætlar að fá svör hjá ráðherra á fimmtudag, hann hlýtur að vera með vitund að þessu fylgi fjáröflun. Vonandi er ekki verið að samþykkja eitthvað í sýndarmennsku. Það hljóti að koma peningar frá hinum opinbera. Þá segir í meirihlutaáliti stjórnar BÍ að fara eigi eftir áliti Eggerts en jafnframt séu miklar áhyggjur varðandi sauðfé, og sauðfjárrækt verði þá að taka þátt í þessari áhættu. Þetta mál sé búið að taka langan tíma. Guðni, Guðnastöðum: Eru komnir staðir sem eru tilbúnir að byrja í haust? Sigurður: Málin hafa verið rædd við BSSL, eins hefur Örn á Sandhóli tjáð það að hann hafi áhuga á að byggja upp svona bú. Kannski gott að hans bú verði einangrunarbú vegna þess að það eru fullt af praktískum atriðum sem þarf að fara í gegnum. Eins hefur verið haft samband við holdanautabændur. Jói, St-Hildisey: Þetta mál er búið að taka langan tíma, á meðan eykst bara innflutningur á kjöti á meðan. Ragnar, L-Ármóti: Á eftir að gera kostnaðaráætlun á þessari leið? Sigurður: Lögðu mat á þetta, einangrun kostar tugi milljóna í rekstri árlega. Fósturvísar kosta 200 þús. Sæði kostar 6 þús. Ekki hægt að gera þetta bara einu sinni, búið þarf að vera til endalaust inn í framtíðina. Ragnar, L-Ármóti: Hér er verið að tala um gripi sem nýta fóðrið betur. Er búið að gera greiningu á því hve mikill munur er miðað við gripi sem eru í landinu nú þegar? Sigurður: Það voru gerðar tilraunir á gripum hér um árið, en ekki verið gerðar greiningar nú. Síðan þá hafa verið miklar framfarir úti. Gripirnir sem við fluttum inn, fósturvísar, fóru ekki í afkvæmadóm áður en þeir voru settir í dreifingu. Ragnar, L-Ármóti: Talaði um reynslu sína af holdanautabúskap í Noregi og að þar sé víða verið að nota sterkt heilfóður fyrir nautin. Sumir keyra þá svona en ekki víst að allir íslenskir bændur verði með svona sterkt fóður.
Valdimar, Gaulverjabæ: Kom inn á það að breytingar hafa verið gerðar á reglugerð um greiðslumark í mjólk um að nú megi færa greiðslumark milli lögbýla. Fáir sem vita af þessu að því að það sé búið að breyta reglugerð, mætti vera betri kynning. Jói, St-Hildisey: Sagði að það hefði verið birt frétt á naut.is um næsta kvótamarkað þar sem var tengt á þessa breytingu. Sigurður: Hefði mátt segja frá þessu fyrr. Jói, St-Hildisey: Skýrði frá því að nú má flytja kvóta milli jarða í eigu eða ábúð sama aðila. Kjartan, Fagurhlíð: Sagði að miklar kollsteypur hefðu verið með reglum á kvóta og hringl með allt. Þarf ekki að vera stefnufesta? Sigurður: Það er knýjandi mál að fólk geti flutt sig milli jarða. Stjórn LK vildi frekar sleppa kvótamarkaðnum vegna þess að þeir vissu hvað lá að baki. Sævar, Stíflu: Spurði hvort þyrfti að setja stærðartakmarkanir á bú? Jón, Skeiðháholti: Kom inn á það að 6 milljarðar í ríkisstuðning væri skipt milli 650 framleiðenda. Fá sumir 3-4 sinnum meira en aðrir? Þarf að setja stærðartakmarkanir? Sigurður: Sagði að ekki þyrfti að setja stærðartakmarkanir gangvart mjólkurframleiðslu, hins væru skertar gripagreiðslur eftir því sem kúnum fjölgar. Hann kom inn á það að það snýr að samfélagslegum vilja, hvað vilja stjórnvöld, hvað stærð búa varðar? LK hefur lagt áherslu á að stuðningsgreiðslur lækki vöruverð og styrki bændur. Nyjar kvaðir í aðbúnaðarreglugerð, er hægt að standa undir þeim? Það sé mjög bratt að byggja nýtt fjós fyrir 200 þús lítra framleiðslu, það sé auðveldara að standa undir afborgunum eftir því sem framleiðslan eykst. En hins vegar hljóti að vera einhver vegur á milli, hvort framleiddir séu 200 þúsund lítrar eða 2 milljónir lítrar. Það séu miklir öfgar í greininni. Samfélagið hefur áhyggjur af ákveðnum stórbúum og stórbúastefnu, en vonandi stuðlar slík uppbygging að sterkari búsetu í sveitinni. Þá ræddi hann að lokum um nautakjötsframleiðslu og markað með slíkt. Í júní komu tæp 300 tonn af nautakjöti inn í landið, s.s. 500 tonn á fyrri hluta ársins. Í fyrra fór innflutningur á nautakjöti í tæp 1000 tonn og það stefnir í samskonar innflutning á þessu ári. Guðni, Guðnastöðum spurði hvort hægt væri að koma í veg fyrir að ein stétt loki á aðrar stéttir eins og dýralæknar gerðu í vor? Sigurður: Það verður að breyta þessu fyrirkomulagi, það verði farið fram á við ríkið að breyta þessu.
Fleira ekki rætt, fundi slitið 00:30.
Jóna Þórunn Ragnarsdóttir ritaði fundargerð.


back to top