Flóðið virðist vera í rénun

Vatnamælingamenn segja að svo virðist sem flóðið hafi náð hámarki og búast jafnvel við að það sé í rénun. Engir jakar eru í hlaupinu, sem þykir benda til þess að gosið sé ekki stórt.
Eldgos hófst undir Eyjafjallajökli í nótt. Það er margfalt kröftugra en gosið á Fimmvörðuhálsi. Gossprungan er um tveggja kílómetra löng.
Mikið flóð flæðir nú niður Markarfljótsaura og niður heiðarnar ofan við bæinn Þorvaldseyri, undir Eyjafjöllum. Flóðið á Markarfljótsaurum flæðir nú yfir þjóðveginn við bæinn Seljaland. Búið er að rjúfa veginn á nokkrum stöðum og enn flæðir undir brýr og ekki yfir þær.

Vatnamælingamenn segja að svo virðist sem flóðið hafi náð hámarki og búast jafnvel við að það sé í rénun.


Um 700 íbúar í Fljótshlíð, Landeyjum og undir Eyjafjöllum þurftu að yfirgefa heimili sín í nótt vegna gossins.  Varnargarðar við Markarfljót hafa haldið til þessa.


Engin flugumferð er leyfð innan tíu sjómílna radíus frá gosstöðvunum. Vegna þess liggur flug niðri til Egilsstaða og Hornafjarðar. Bannsvæðið gæti náð til Noregs og jafnvel Rússlands síðar í dag.
 
Nú stendur yfir fundur fulltrúa Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra, Landhelgisgæslunnar og allra ráðuneytisstjóra í samhæfingamiðstöðinni í Skógarhlíð. Tilgangur fundarins er að kynna ráðuneytisstjórum stöðu mála. Samskonar fundi með dómsmálaráðherra og forsætisráðherra lauk um hádegisbilið.


Flugvél Landhelgisgæslunnar TF-Sif fór í loftið um hálf tvö áleiðis á gossvæðið með jarðvísindamenn innanborðs, sem meta ástand gossins. Reiknað er með þeim í hús um fimmleitið og þá hefur verið boðaðs til nýs stöðufundar. Nú stendur einnig yfir fundur Almannavarnanefndar Vestmannaeyja, en fylgst er grannt með hvaða áhrif flóð hafa á vatnsleiðsluna til eyja.


Vatn fer minnkandi í Svaðbælisá og varnargarðar við Markarfljót hafa haldið til þessa og hafa varnað því að vatn flæði til vesturs. Þyrla landhelgisgæslunar, TF-GNÁ sem hefur verið við eftirlitsstörf frá því í nótt, er lent við Hótel Rangá þar sem áhöfn þyrlunnar fer í hvíld og verður í viðbragðsstöðu. Þá hefur almannavarnardeildin haft samband við lögregluna á Eskifirði og Seyðisfirði til að vísa farþegum Norrænu Norðurleiðina. Ferjan kom til landsins í gær en hugsanlega er hópur farþega að leggja af stað til höfuðborgarinnar í dag.


Samkvæmt upplýsingum frá áhöfn TF-GNÁ eru dæmi þess að vatn hafi tekið að flæða heim að bæjum undir Eyjafjöllum. Að sögn stýrimanns þyrlunnar er bærinn Þorvaldseyri þó ekki talinn í hættu eins og er. Þá virðist eins og gusa hafi komið að brúnni á Svarfbælisá, en áin er nú í rénun. 


Ákveðið hefur verið að stöðva tímabundið vinnu við Landeyjahöfn verið stöðvuð tímabundið og flytja menn af svæðinu í öryggisskyni.


Í tilkynningu frá Siglingastofnun Íslands segir að ekki sé gert ráð fyrir teljandi skemmdum á mannvirkjum í og við höfnina, að svo stöddu, en búast megi við að lok framkvæmdanna við Landeyjahöfn tefjist vegna vinnustöðvunarinnar nú.


Þjóðvegurinn hefur verið rofinn á þremur stöðum til að hleypa flóðinu í Markarfljóti í gegn.


back to top