Guðlaugur og Mette á haustfundi HS
Haustfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands verður í kvöld kl. 20 í félagsheimili Sleipnis, Hliðskjálf á Selfossi (hesthúsahverfinu í Suðurtröð). Guðlaugur Antonsson fer yfir sýningarárið og Mette Mannseth fjallar um tamningar og þjálfun ungra hrossa. Stjórn HS hvetur félagsmenn til að fjölmenna á fundinn og taka þátt í umræðum.
Aðalfundur FHB 2011
Aðalfundur FHB 2011 hefur nú verið dagsettur og mun hann fara fram föstudaginn 18. nóvember nk. á Hótel Sögu. Hrossaræktarráðstefna fagráðs verður að venju haldinn daginn eftir, laugardaginn 19. nóvember.
Fundaherferð um landsmót framtíðarinnar
Landsmótsnefnd er nú að hefja fundaherferð um landið til kynningar á skýrslu sem byggir á niðurstöðum nefndarmanna um málefni landsmóta.
Fyrsti fundurinn verður á Stekkhól á Höfn í Hornafirði föstudagskvöldið 2. september kl. 20:00. Annar fundurinn verður á Gistihúsinu á Egilsstöðum kl. 11:00 laugardaginn 3. september og þriðji fundurinn í Top Reiter höllinni á Akureyri kl. 16:00 sama dag, 3. september.
Hestamönnum auðvelduð þrif á reiðtygjum og -fatnaði
Til að auðvelda hestamönnum að uppfylla reglur vegna smitvarna hefur Landssamband hestamannafélaga fyrir hönd félagasamtaka hestamennskunnar, nú samið við Fatahreinsunina Fönn um að taka við notuðum reiðfatnaði í rauða hliðinu á Keflavíkurflugvelli og skila fullhreinsuðum til eiganda fáum dögum síðar.
Kynbótahross á HM í Austurríki
Eftirfarandi kynbótahross og knapar hafa verið valin til þátttöku á HM í Austurríki fyrir Íslands hönd en mótið fer fram í St.-Radegrund dagana 1.-7. ágúst n.k.:
Úrslit kynbótahrossa á Landsmóti 2011
Mikill fjöldi kynbótahrossa var sýndur á Landsmótinu 2011 sem haldið var á Vindheimamelum. Án þess að kastað sé rýrð á nokkurt þeirra verður að segjast eins og er að Spuni frá Vesturkoti vakti hvað mesta athygli enda hlaut hann hæsta dóm sem nokkru sinni hefur sést í heiminum eða 8,92 í aðaleinkunn.
Hér á eftir er að finna umsagnir um verðlaunahesta fyrir afkvæmi sem og dóma þeirra hrossa sem sýnd voru á mótinu.
Afkvæmasýningar og yfirlit á LM 2011
Stór hópur stóðhesta hefur unnið sér rétt til afkvæmasýninga á LM og hér má sjá hverjir þeirra mæta til leiks og hvenær. Einnig hvenær yfirlitssýningar og verðlaunaafhendingar kynbótahrossa eru á dagskrá.
Mætingarlisti kynbótahrossa á LM 2011
Hér á eftir fer mætingarlisti kynbótahrossa í einstaklingsdóm á LM 2001 á Vindheimamelum. Eins og sjá má hefjast dómar sunnudaginn 26. júní nk. en metfjöldi hrossa mun mæta til leiks:
Frá hrossaræktarráðunaut
Enn og aftur biðla ég til knapa og umráðamanna kynbótahrossa sem náðu lágmörkum í einstaklingssýningu á landsmóti að láta mig vita nú þegar ef vitað er að einhver hross muni ekki mæta til dóms á mótinu, vegna þátttöku í gæðingakeppni mótsins eða af öðrum ástæðum.
Svo sem fram hefur komið voru það 249 einstaklingar sem öðluðust þátttökurétt og er því ljóst að dómstörf verða að hefjast eftir hádegi sunnudaginn 26. júní en ekki að morgni mánudagsins 27. júní eins og fyrirhugað var, mæti öll hross til dóms.
Afkvæmaverðlaun á landsmóti – mögulegir hestar
Nýtt kynbótamat hefur nú litið dagsins ljós og hefur verið fært í WorldFeng. Allnokkrar breytingar hafa orðið á matinu frá síðustu keyrslu, það ætti í sjálfu sér ekki að koma á óvart miðað við þann mikla fjölda hrossa sem sýndur var á vorsýningum. Margir hafa beðið spenntir eftir að sjá hvernig þeir hestar koma út sem mögulega gætu komið til afkvæmaverðlauna á landsmóti. Niðurstaðan er eftirfarandi:
Til knapa og eigenda kynbótahrossa á Hellu 30. maí – 10. júní 2011
Beiðni til knapa um þátttöku í rannsóknarverkefni á kynbótahrossum.
Hólaskóli, Háskólinn á Hólum vinnur í samvinnu við marga aðila til dæmis sænska landbúnaðarháskólann í Uppsölum í Svíþjóð, tilraunastöð Háskóla Íslands á Keldum. hrossaræktarráðunaut Íslands, starfsmenn kynbótasýninga, knapa og eigendur kynbótahrossa að rannsókn þar sem markmiðið er að meta álag á hross á kynbótasýningum. Fyrstu mælingar voru gerðar á kynbótasýningu á Sauðárkróki í lok apríl 2011 og tókust vel. Verkefnið hefur þegar verið kynnt í heimsóknum til nokkurra tamninga-og ræktunarbúa á Suðurlandi í apríl og maí og fengið afar góðar viðtökur. Þar sem ekki eru tök á að heimsækja alla er verkefnið kynnt hér og óskað eftir þátttöku allra knapa í verkefninu með kynbótahross sem sýnd verða á Hellu í vor.
Styttist í ráðstefnu um meðferð hrossa
Alþjóðlega NJF-ráðstefnan ”Housing and management of horses in Nordic and Baltic climate” verður haldin á Hótel Loftleiðum dagana 6. og 7. júní nk.
Markmið ráðstefnunnar er að draga saman nýjustu rannsóknarniðurstöður og leiðbeiningar varðandi meðferð hrossa, bæði innan sem utanhúss, með sérstaka áherslu á nærumhverfi bæði hrossa og manna.
Reiðmaðurinn – Nám í reiðmennsku og hrossarækt
Reiðmaðurinn er heiti á námskeiðsröð sem ætluð er fróðleiksfúsu hestafólki. Námið er tilvalið fyrir þá sem vilja auka færni sína í reiðmennsku og þekkingu á hrossarækt og almennu hestahaldi. Reiðmaðurinn er á vegum Endurmenntunar Landbúnaðarháskóla Íslands.
Reiðmaðurinn er tveggja ára nám, sem hægt er að taka samhliða vinnu eða öðru námi. Bóklegi hlutinn er tekinn fyrst og fremst í fjarnámi en einnig er tveggja daga staðarlota á Hvanneyri á önn. Fjórar verklegar helgar eru á hverri önn þar sem unnið er með eigin hest. Áætlað er að bjóða verklega námið fram í Húnavatnssýslu, á höfuðborgarsvæðinu og Hellu. Umsóknir eru tengdar því svæði sem næst er nema annað sé tekið fram. Með fyrirvara um breytingar.
Hrossaræktarsamtökin styrkja rannsóknir á sumarexemi
Á aðalfundi Hrossaræktarsamtaka Suðurlands, sem haldinn var fyrr í mánuðinum á Selfossi, kynnti Sigurbjörg Þorsteinsdóttir Dr.Med.Sc. ónæmisfræðingur hjá Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði á Keldum nýjustu niðurstöður í rannsóknum á sumarexemi í íslenskum hrossum.
Fjallaði hún í erindi sínu um rannsóknir á svokölluðu smámýsofnæmi sem leiðir til sumarexems, rannsóknum á bólusetningum við meininu og afnæmingu hesta með sumarexem. Um 50% þeirra hrossa sem flutt eru til þeirra svæða sem smámý þrýfst sýkist af smámýsofnæmi. Fram kom í máli Sigurbjargar að farið er að sjá til lands í rannsóknunum sem mun koma til með að leiða af sér bóluefni gegn ofnæminu.
Kynbótasýningar 2011
Kynbótasýningar hefjast óvenju snemma þetta árið hér sunnanlands enda búist við miklum fjölda hrossa. Fyrsta sýningin verður á Sörlastöðum í Hafnarfirði og síðan tekur hver sýningin við af annarri. Það er reiknað með að dómar standi samfleytt frá 2. maí til 10. júní. Sýningar verða að þessu sinni fimm á Suðurlandi. Reiknað er með að tvær dómnefndir verði að störfum á öllum sýningunum nema þeirri fyrstu á Sörlastöðum. Stefnt er að sýningu í Hornafirði ef næg þátttaka fæst, lágmarks skráning er 15 hross.
Sýningar í umsjón Búnaðarsambands Suðurlands eru:
Ungfolasýning Hrossaræktarsamtaka Suðurlands
Ungfolasýning Hrossaræktarsamtaka Suðurlands fór fram laugardaginn 9. apríl í Ölfushöllinni. Alls mættu 17 folar, 9 tveggja vetra og 8 þriggja vetra. Dómarar á sýningunni voru Halla Eygló Sveinsdóttir og Jón Vilmundarson. Folarnir voru metnir fyrir sköpulag og hreyfingar. Dómarar röðuðu fimm efstu folunum í hvorum flokki:
Ungfolasýning Hrossaræktarfélags A-Landeyja
Árleg ungfolasýning Hrossaræktarfélags A-Landeyja fór fram í Skeiðvangi á Hvolsvelli, síðastliðinn laugardag. Nítján 2ja og 3ja v. folar fengu þar stigun og umsögn hjá landsráðunauti í hrossarækt, Guðlaugi V. Antonssyni. Röðun folanna varð eftirfarandi:
Ný lög um útflutning hrossa
Alþingi hefur samþykkt ný lög um útflutning hrossa. Helstu breytingar frá núgildandi lögum eru þær að ekki verður lengur heimilt að flytja út hross sem einungis eru frostmerkt, tímabil það sem aðeins er heimilt að flytja hross út með flugvélum er lengt og gjald það sem útflytjendur hrossa greiða í stofnverndarsjóð er hækkað. Það gjald verður 1.500 kr. af hverju útfluttu hrossi og munu Bændasamtök Íslands annast innheimtu þess.
Ungfolasýning í Ölfushöllinni 9. apríl 2011
Árleg ungfolasýning Hrossaræktarsamtaka Suðurlands verður laugardaginn 9. apríl 2011 í Ölfushöllinni á Ingólfshvoli að þessu sinni í tengslum við Stóðhestaveislu Hrossaræktar.is. Fyrirkomulag ungfolasýningarinnar verður að öðru leyti með svipuðu sniði og í fyrra. Starfandi kynbótadómarar munu taka út folana bæði fyrir sköpulag og hreyfingu. Rétt til þátttöku eiga folar fæddir árið 2008 og 2009. Sköpulagsmat hefst kl. 9:30 en sýningin kl. 11:30.
Aðalfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands
Aðalfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands verður fimmtudagskvöldið 31. mars kl. 20:00 í Hliðskjálf félagsheimili hestamannafélagsins Sleipnis á Selfossi. Dagskrá fundarins eru hefðbundin aðalfundarstörf. Kjósa á um formann en Sveinn Steinarsson hefur ákveðið að gefa kost á sér áfram. Halldór Guðjónsson og Bertha Kvaran hafa tilkynnt að þau sjái sér ekki fært að sitja lengur í stjórn. Gestur fundarins verður að þessu sinni Sigurbjörg Þorsteinsdóttir Dr.Med.Sc. ónæmisfræðingur hjá Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði á Keldum en hún mun kynna nýjustu niðurstöður í rannsóknum á sumarexemi. Erindið nefnist: Sumarexem (smámýsofnæmi í hestum) möguleikar á meðferð.